Færsluflokkur: Ferðamál

Á Ísland að vera bara áfangastaður fyrir efnameiri ferðamenn?

Veturinn er fallegur á ÍslandiÞeirri skoðun skýtur alltaf annað slagið upp í umræðunni um fjölda ferðamanna til Íslands og þolmörkin þar, að við eigum að fókusera meira á efnameiri ferðamenn, fá hingað færri ferðamenn en ferðamenn sem borga meira. Út frá hagfræðilegu sjónarmiði er þetta eflaust afar skynsamlegt. Upp myndu byggjst stór og sterk ferðaþjónustufyrirtæki, færra starfsfólk yrði í greininni, færri frumkvöðlar, en vissulega hægt að greiða hærri laun. En hvernig verður landslagið í ferðaþjónustunni ef af þessu yrði nú?

Sæjum við þá ekki tiltölulega fá ferðaþjónustufyrirtæki en gríðarlega stór? Myndi ekki sjarminn af litlu sveitaferðaþjónustunni sem dæmi, minnka til muna? Er það það sem við viljum?

Ekki ég í það minnsta.  Sjarminn við ferðaþjónustuna í dag er einmitt sú staðreynd að mikið er af litlum, kósý gistimöguleikum út um allt land þar sem ferðamenn eru í mikilli nánd við þá sem reka staðina. Persónuleg tengsl verða meiri sem gerir ferðina mun ríkulegri fyrir ferðamanninn þegar þeir heimsækja sveitagistinguna, heldur en stóru hótelin. 

Afþreyingarmöguleikarnir yrðu á fárra færi fjárhagslega og hér yrði aðeins um lúxusgistiþjónustu að ræða myndu þessar hugmyndir ná fram að ganga. 

Sumir segja að ferðaþjónustan í dag sé svipuð því sem var í sjávarútvegi á Íslandi fyrir 30-40 árum, mikið af litlum fjölskyldufyrirtækjum og þróunin verði sú saman, að fá en gríðarlega stór fyrirtæki verði á endanum í þessum ferðamannabrannsa. Ég er ósammála því, því ég veit og það er mín trú, að megnið af þeim ferðamönnum sem hingað kemur, er að leita eftir tengingu við náttúruna og persónulegum tengslum við Íslendinga sjálfa, það hef ég frá eigin reynslu í mínu fyrirtæki.

Eflaust mun þessi skoðun skjóta upp kollinum af og til og hún mun áfram vera "sexy" í augum hagfræðinga, en styrkleiki okkar ferðaþjónustu í dag felst í fjölbreytninni í því að taka á móti ferðamönnum og mæta þeirra þörfum varðandi efnahag og áhugasvið.

Höldum því áfram takk fyrir. 

 


Heildstætt Grettisverkefni

Í beinu framhaldi af síðasta bloggi mínu um skort á samvinnu ferðaþjónustuaðila langar mig til að benda á eitt verkefni sem að mínu mati gæti orðið hrein gullnáma í framtíðinni ef menn bera gæfu til að vinna að því saman.

Í Húnaþingi er komið á koppinn verkefni sem byggir að stærstum hluta upp á Grettissögu og söguslóðum þeirrar sögu á svæðinu. Þar hafa menn miklar og spennandi hugmyndir um hvernig hægt sé að nýta þessa snjöllu sögu - sem líklega er ein af þekktustu íslendingasögunum - í ferðaþjónustu.

grettislaug

Í Skagafjörð lágu leiðir Grettis. Hann var sendur í útlegð í Drangey - eina mestu náttúrperlu Skagafjarðar - þaðan synti hann yfir á Reyki á Reykjaströnd til að sækja sér eld eins og frægt er. Nú er búið að byggja Grettislaugina upp og getur fólk brugðið sér í hana með Drangey í sjónlínu.

Mér vitanlega er engin samvinna milli ferðaþjónustuaðila í Húnaþingi og Skagafirði um það sem ég vil kalla heildstætt Grettisverkefni, þar sem farið er á söguslóðir Grettis og honum fylgt frá vöggu til grafar ef svo má segja. Þarna eru miklir möguleikar og þetta er eitt skýrasta dæmið um á hvaða forsendum menn geta unnið saman og byggt upp spennandi verkefni þar sem þessum einna mestum kappa íslendingasagnanna er fylgt eftir.

Ímyndið ykkur svona uppbyggingu á ferð.

Ferðamenn sóttir á sérmerktri Grettisrútu til Keflavíkur. Farið með þá norður og dvalið í 3-4 daga í Húnaþingi þar sem farið er með ferðamennina á söguslóðir Grettis. Þeir ganga um svæðið á sérmerktum gönguleiðum, heimsækja Bjarg þar sem Grettir bjó og upplifa söguna með því að virða fyrir sér upplýsingaskilti og fleira sem tengir þá við söguna. Eftir þessa 3-4 daga í Húnaþingi er haldið í Skagafjörð þar sem dvalið er í 2-3 daga. Þar er Drangey heimsótt og þar verður búið að koma upp myndrænum skiltum með upplýsingum um dvöl hans þar. Grettisbælið gert upp og siglt yfir í Reyki þar sem fólk getur baðað sig í Grettislaug og hugsanlega hlustað samtímis á brot úr sögunni og því þegar hann synti yfir.

Í Skagafirði væri hægt að koma upp safni í anda landnámssetursins í Borgarnesi þar sem sagan væri sett upp með myndrænum hætti.

Þetta er aðeins brot af því sem hægt væri að setja upp til að gera þessari sameiginlegu sögu húnvetninga og skagfirðiga þau skil sem hún á skilið.

En til þess þarf samvinnu og klasasamvinna er mjög ákjósanlega í þessu tilliti.

Auðvitað hefur svona verkefni mun fleiri hliðar en hér er lýst og þau krefjast undirbúnings og fjármagns. En ég nota þetta aðallega til að taka dæmi af því hvað hægt væri að gera ef menn ynnu saman.


Samvinna ferðaþjónustuaðila

Eitt af því sem aðilar ferðaþjónustunnar geta gert mun meira af sér til hagsbóta, er að vinna náið saman hver með öðrum. Svokölluð klasaverkefni eru tilvalin leið fyrir slíka samvinnu, þar sem fyrirtæki sem sameiginlegra hagsmuna eiga að gæta efna til samvinnu á einhverjum sviðum.

Sumir halda því fram að ein af þeim ástæðum fyrir því hversu arðsemi er lítil í greininni enn sem komið er hér á landi, sé sú að fyrirtækin eru of mörg og of lítil. Tökum sem dæmi afþreyingarfyrirtæki á afmörkuðu svæði. Við erum kannski að tala um 5-6 fyrirtæki sem hvert um sig býður upp á mismunandi afþreyingu. En markaðsmál sem dæmi, eru klárlega hlutur sem þessi fyrirtæki geta unnið saman í. Með því að markaðssetja sig sameiginlega geta þau nýtt fjármagnið til markaðsmála mun betur en hvert í sínu horni.

Að ekki sé talað um að þau hreinlega sameinist í eitt mun stærra afþreyingarfyrirtæki. Þá væri hámarkshagræðingu náð. Allir héldu sinni atvinnu þar sem þeir sem hafa rekið þessi smærri fyrirtæki hafa yfirleitt sjálfir staðið í brúnni og stjórnað afþreyingunni sjálfri, en slagkraftur þessara fyrirtækja yrði mun meiri í einu stóru fyrirtæki sérstaklega hvað markaðssetningu varðar, bókhaldsmál of fleira.

 


Umræður á Alþingi um frumvarp vegna sjóstangveiðibáta

Nú er verið að fjalla um á Alþingi okkar Íslendinga, frumvarp til laga sem setur sjóstangveiðibáta undir hatt fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það er sjávarútvegsráðherra sem leggur það fram.

Helsta röksemd hans er að með þessu geti eigendur bátanna selt aflann sem veiðimenn nýta sér ekki og þar með fengið inn auknar tekjur fyrir sína starfsemi t.d. eftir sjóstangveiðikeppnir. En þessir bátar þurfi kvóta samt sem áður.

Þeir sem gagnrýna frumvarpið segja að hérna sé um skemmtibáta að ræða og nær væri að setja lög um veiðar slíkar báta í staðinn fyrir að setja þett inn í kvótakerfið og að nálgast eigi málið út frá hagsmunum ferðaþjónustunnar og skemmtibátaveiða. Og að það sé í raun engin þörf fyrir frumvarpið.

Ráðherra er einnig spurður að því hvaðan þessi krafa kemur að setja þurfi þetta inn í kvótakerfið. Menn eru sammála um það að það sé ekki krafa ferðaþjónustunnar, heldur þykjast vissir um að það sé LÍÚ sem hafi krafist þess að reglur verði settar um þessar veiðar.

Víst er að sjóstangveiði fyrir ferðamenn er ört vaxandi ferðaþjónustuútvegur og að mínu mati á þessi tegund ferðamennsku aðeins eftir að aukast.

Er virkilega þörf á þessu? Maður spyr sig.


Stefnumótun í ferðaþjónustu í Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur nú birt á heimasíðu sinni stefnumótun í ferðaþjónustu. Var stefnumótunin unnin af Ferðamáladeild Háskólans á Hólum. Í desember 2005 var gefin út skýrsla um stöðu ferðaþjónustunnar í Skagafirði sem ferðamáladeildin vann sömuleiðis. Hvort tveggja er áhugaverð lesning.

Í stefnumótuninni er m.a. bent á nauðsyn þess að fyrirtæki í skyldum rekstri vinni saman í klösum og verður seint hamrað nóg á því að menn vinna betur saman en hver í sínu horni. Ferðaþjónustuaðilar verða að vakna og læra að nýta sér styrkleika samvinnunnar.


Athyglisvert verkefni á Suðureyri

bannerLangaði til að benda á stórskemmtilegt verkefni á Suðureyri við Súgandafjörð. Það er svona týpískt klasaverkefni þar sem margir aðilar taka saman höndum og búa til ferðaþjónustuverkefni. Sannarlega eitthvað sem mætti taka sér til fyrirmyndar. Held að skortur á samvinnu ferðaþjónustuaðila standi greininni talsvert fyrir þrifum nú um stundir, fer kannski út í það síðar.

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband