Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eyðibyggðastefnan

Á Íslandi er ekki til byggðastefna og hefur ekki verið lengi. Það litla sem er gert, byggist á skammtíma átökum, sem nákvæmlega engu skila til lengri tíma. Þegar áföll hafa dunið yfir, hefur verið drifið í einhverskonar átaki, þar sem opinberum störfum er dúndrað niður hér og þar, peningum hent í söfn og setur og þannig þaggað niður í vælandi landsbyggðarfólkinu. Þetta hefur dugað í skamman tíma, svo hafa opinberu störfin horfið og jafnvel meira til og enn sviðnari jörð stendur eftir.

Nú er svo komið að ekki er hægt að bjóða landsbyggðarfólki upp á þetta lengur. Það þarf að grípa til aðgerða, raunverulegra aðgerða sem skila sér til lengri tíma. En til þess að það geti orðið, þurfa stjórnmála menn að hafa kjark til að gera róttækar breytingar á málum. Við þurfum alvöru kjarkaða stjórnmálamenn til að hjálpa okkur að takast á við þau vandamál sem við hafa blasað í áratugi. Byggðum blæðir út og íbúar á jaðarsvæðum, virðast vera í öðrum gæðaflokki íbúa þessa lands, ef litið er á hið ömurlega byggðastefnuleysi sem við lýði hefur verið.

Norðmenn hafa farið þá leið að beita skattkerfi sínu til að jafna þessi lífskjör. Þeir hafa verið með lægri tekjuskattsprósentu á skilgreindum svæðum, afskrifað námslán að hluta, greitt hærri barnabætur og svo eiga fyrirtæki kost á ýmsum styrkjum frá norska ríkinu. Til viðbótar þessu hef ég þá trú að með jöfnun flutningskostnaðar geti framleiðslufyrirtæki komið undir sig fótunum úti á landi, í meira mæli en nú er. Þar gætu þau komist í ódýrara húsnæði og eftir staðsetningu, mögulega ódýrari annan rekstrarkostnað einnig. En það þarf að tryggja þeim fyrirtækjum betri aðgang að stóra markaðnum á höfuðborgarsvæðinu og þá kemur jöfnun flutningskostnaðar til greina.

En það er allt of lítið rætt um þessar leiðir, menn hvísla kannski um þetta sín á milli, en enginn virðist þora að koma fram með þessar hugmyndir fyrir Ísland og íslenskar aðstæður. Enda held ég að miðað við skilningsleysi og hroka sumra reykvískra stjórnmálamanna í garð landsbyggðarinnar, eigi svona hugmyndir erfitt uppdráttar og jöfnun atkvæða á landsvísu slátrar þeim endanlega óttast ég. En þetta er samt það eina sem á eftir að reyna, það eina sem mögulega gæti virkað, en við þurfum kjarkaða stjórnmálamenn til að tala fyrir þessu og berjast fyrir því að alvöru byggðastefnu verði komið á laggirnar á Íslandi.


Norðurland á að vera eitt kjördæmi

Þessi kjördæmaskipan finnst mér arfavitlaus. Manni finnst að hagsmunir landssvæða eigi að ráða mestu í skiptingu kjördæma úti á landi, því atkvæðavægi og fleiri tæknilegar útfærslur er alltaf hægt að sansa til.

Samgöngur og samgangur á að vera eitthvað sem býr til kjördæmi. Ef við lítum á samgöngur þá eiga Vestlendingar og Vestfirðinga miklu meiri sameiginlegra hagsmuna að gæta en Vestfirðingar og Norðvestlendingar. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum koma til með að aka í gegn um Hólmavík, eftir Tröllatunguvegi og yfir í Dalina á leið sinni til Reykjavíkur innan fárra ára. Suðurfirðingar taka annað hvort Baldur yfir Breiðafjörð eða aka landveginn í gegn um Dalina á leið sinni suður. Með þessu móti tengjast þessi tvö byggðarlög í nútíð og framtíð og samgangur milli Vestfirðinga og Vestlendinga á eftir að aukast með þessu móti.

Akureyri er skilgreind sem byggðakjarni sem ber að styrkja skv. byggðaátælunum. Gott og vel. Norðvestlendingar og Þingeyingar eiga að eiga sinn þátt í þeirri uppbyggingu með því að sækja þangað vörur og þjónustu sem ekki er að finna á heimavelli. Með norðurkjördæmi yrði Akureyri miðpunkturinn í því kjördæmi og norðlendingar gætu þá sameinast um hann sem höfuðstað norðurlands beggja vegna hans.

Burt með þessa kjördæmaskipan sem fyrst, stokkum hana upp og setjum landsvæði saman í kjördæmi sem sameiginlegra hagsmuna eiga að gæta.


Er "Fagra Ísland" ekki svo fagurt eftir allt saman?

Samfylkingin er á húrrandi niðurleið þessa dagana. 21% í könnun Fréttablaðsins. Fer að nálgast gamla Alþýðuflokkinn. Það eru margir að bollaleggja um ástæður þessa og ég ætla hér að varpa fram minni sýn á því, eða að minnsta kosti stórum faktor í þessu fylgishruni.

Forystumenn Samfylkingarinnar drifu sig og hentu upp framtíðarstefnu um hið "Fagra Ísland", eins og allir vita. Þar komu þeir illilega aftan að sínu fólki í grasrótinni, sér í lagi í Þingeyjarsýslu og í Skagafirði. Á báðum þessum stöðum eru til umræðu verkefni sem skipt geta gríðarlegu máli fyrir bæði byggðarlögin. Annars vegar álver við Húsavík og hins vegar virkjun Héraðsvatna, ef sá möguleiki verður settur á skipulag.

Eftir því sem ég hef lesið mér til um og skoðað, var þessi fagra-íslandsstefna ekki unnin í samvinnu við flokksmenn í grasrótinni, heldur var það unnið að frumkvæði formanns og unnið af núverandi forystumönnum og þingflokki. Um svona veigamikil mál verður að fara fram umræða í grasrótinni. Þú setur ekki fram yfirgripsmikla og afdrifaríka stefnu öðruvísi en að félögin út um land fái tækifæri til að ræða hana og gera við hana athugasemdir.

Á sama tíma og verið er að skoða þann möguleika að setja virkjunarkosti á skipulag hér í Skagafirði, kemur þingmaður Samfylkingarinnar sem er Skagfirðingur og segir fullum fetum að ekki verði virkjað í Skagafirði, punktur og basta. Þetta var í senn klaufalegt hjá viðkomandi þingmanni og gæti hafa haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir hana í prófkjöri sem á eftir fylgdi.

Það gengur ekki að forystumenn hvaða flokka sem er, setjist niður og smíði stór og afdrifarík stefnumál án þess að grasrótin hafi eitthvað um hana að segja. Það er hreint og beint illa gert gagnvart því fólki sem á stórra hagsmuna að gæta í þeim málaflokki sem um ræðir.

Ég er hlynntur því að sá möguleiki verði fyrir hendi í framtíðinni að hægt verði að virkja í Skagafirði. Ég vil að við eigum þann möguleika til að geta nýtt orkuna í uppbyggingu á atvinnu hér heima í héraði. Ég er hins vegar alfarið á móti virkjun ef fyrirsjáanlegt er að orkan eigi að fara til annarra verkefna en hér heimavið.

Forysta Samfylkingarinnar verður að starfa í takt við fólkið í grasrótinni. Hún verður að vita fyrir hverja hún starfar og til hvers er ætlast af henni. Forysta sem ekki gerir það, fær einfaldlega rauða spjaldið og er skipt út. Byggðapólitíkin hefur verið nær handónýt á Íslandi í mörg ár og loksins þegar menn sjá fram á að eitthvað geti hugsanlega rofað til í atvinnumálum á þessum svæðum sem hér um ræðir og eiga í vök að verjst, koma menn fram með svona hugmyndir sem ganga þvert ofan í áhuga og vilja heimamanna.

Í þessu liggur einn af meginvandamálum Samfylkingarinnar, að forystan er ekki í tengslum við grasrótina.

Hilsen


Farsi á Alþingi

Ég ætlaði að hlusta í beinni útsendingu frá utandagskrárumræðum frá Alþingi um málefni Byrgisins sem átti að hefjast kl. 10.30. Nú er kl. 11.07 og umræðan ekki hafin ennþá.

Þess í stað hófust umræður um "störf þingsins" eins og það heitir. Þar voru menn að karpa um framkvæmd umræðu um ríkisútvarpsfrumvarpið. Svo þegar tíminn var búinn til að ræða störf þingsins bjóst maður við að utandagskrárumræðan hæfist, en viti menn. Þá var hægt að taka til máls um fundarstjórn forseta og það er hreinn brandari að hlusta á það. Þar eiga menn að ræða um fundarstjórn forseta, en umræðan um ríkisútvarpsfrumvarpið hélt áfram á svipuðum nótum. Þegar menn misstu sig greip forseti frammí og minnti menn á að það ætti ekki að ræða efnistök frumvarpsins heldur um fundarstjórn forseta.

Ég ætla að fara út á leikskóla núna á eftir og hlýða þar á mun gáfulegri umræður leikskólakrakka í sandkassanum.

Hilsen


Pólitískar vangaveltur almúgamanns

Já það er ýmislegt að gerast í pólitíkinni þessa daga. Núna er genginn í garð sá tími sem ráðherrar skrifa undir allskonar samninga hér og þar um fjárveitingar í hin ýmsustu verkefni. Sum þeirra og líklega flest ákaflega þörf. Það er í raun hægt að korleggja kjörtímabil ríkisstjórna og sveitastjórna líka á þann hátt að á fyrstu tveimur árunum eru teknar erfiðar og oft sársaukafullar ákvarðanir, en á síðasta árinu er peningum dreift vinstri hægri til að mýkja lýðinn upp aftur fyrir kosningar, hent í okkur bitlingum hér og þar. En þetta er víst gangurinn.

Ég er spenntur yfir prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og ég er líka spenntur að sjá hvað Kiddi sleggja gerir á kjördæmisþingi Framsóknarmanna hér í Norð-vesturkjördæmi um næstu helgi. Sættir hann sig við þriðja sætið, eða tilkynnir hann að hann hyggist hætta í framsóknarflokknum og stofna sérframboð? Spennó.

Það eru ýmsar bollaleggingar um næstu ríkisstjórn þegar farnar að koma fram. Nú ætla ég bara að vera heiðarlegur og hreinskilinn. Samfylkingin hefur valdið mér vonbrigðum. Ég ól þá von í brjósti að sá ágæti flokkur yrði þessi dæmigerði sósíaldemókratíski flokkur, eilítið hægrisinnaður, sem verði og byggði upp ákveðið markaðshagkefri, en á hinn bóginn stæði vörð um þá sem minnst mega sín. Ómarkviss málflutningur og of vinstrigræn stefna í umhverfismálum m.a. hefur hins vegar valdið því að ég hef orðið fyrir vonbrigðum og myndi ekki finna mig sem félaga þar. En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að listi þeirra í Norðvesturkjördæmi sé nánast handónýtur, gæti farið svo að ég kysi Samfylkinguna. Af hverju? Jú, því ég vil sjá næstu ríkisstjórn skipaða sjálfstæðisflokknum og samfylkingu. Af hverju? Jú, ég treysti ekki stjórnarandstöðunni til að viðhalda hér hagvexti og svona semí-stöðugleika í efnahagslífinu, en ég treysti sjálfstæðisflokknum heldur ekki til að bæta hag þeirra sem minnst mega sín. Samfylkingin gæti komið með ákveðið jafnvægi og nýjar áherslur í félagsmálapakkann sem þörf er á að taka til í. Á sama tíma væri hagstjórnin í höndum þess flokks sem ég hef trú á að geri minnstu vitleysurnar. Þannig sé ég þetta bara. Og af hverju kýs ég þá ekki sjálfstæðisflokkinn bara? Jú, af því að ég vil frekar fá samfylkinguna í ríkisstjórn en aðra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu, að ógleymdum framsóknarflokknum sem á í mikilli tilvistarkreppu nú um stundir. Í mínum huga er þetta bara spurningin um hvaða flokkur fer með sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og þá reyni ég að styðja þann sem ég vil sjá með honum. Eða svona er staðan alla vega í dag.

Hvað ætli Árni Þór segi núna?Smile

Hilsen


Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband