Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

"Þetta er mín fjósalykt"

Gærdagurinn var hreint ótrúlegur hér á Krók.

Vaknaði upp í 5 gráðu hita og skýjuðu veðri, en seinni partinn var komið alveg magnað veður og sannkallaður hitapottur á pallinum góða. Konan fór í heita pottinn, sem mér fannst vera of heitur til að fara í miðað við lofthitann og fór frekar að vökva blómin. Ég er ekki alltaf þessi týpa sem getur legið kyrr í sólbaði.

Í gærkvöldi fórum við hins vegar að veiða niður í fjöru. Niður á sand eins og við köllum þessa paradís. Fullt, fullt af fiski þó við höfum aðeins náð einum vænum, 2-3 punda sjóbirting. Það var allt morandi af fiski í sjónum. Logn og sjórinn nær spegilsléttur og dásamlegt að vera þarna. Eyjarnar fögru úti á firði og náttúra Skagafjarðar skartaði sínu fegursta. Yndislegur sjávarilmur umlék okkur, vélarhljóð úr siglandi trillum í fjarska, kríurnar stungu sér niður á æti, æðarfulginn tók ungviðið í sundæfingu og mávarnir syntu um lygnan sjóinn. Eitthvað fannst konunni þessi sjávarlykt ekki neitt sérstök, en eins og margir vita rennur sveitablóð í hennar æðum. Ég sagði þá bara við hana; "Þetta er mín fjósalykt" og hún skildi alveg hvað ég átti við.

Eftir veiðitúrinn skruppum við hjónin upp á Nafir, sem er sveitin okkar bæjarbúa, þar hittum við fyrir ansi hreint gæft folald og var ekki laust við að elsku sveitakonan mín fyndi til uppruna síns þarna.

En þetta er sælan á Króknum, fiskur í fjörunni og folöld og lömb á Nöfunum.

Í gær fann ég strákinn í mér, ég rifjaði upp allar veiðiferðirnar niður í fjöru og gönguferðirnar upp á Nafir. Það var ánægjulegt að kynna þennan heim fyrir konunni og ég get ekki beðið eftir því að krakkarnir komi aftur, þá get ég sýnt þeim þennan heim sem átti stóran þátt í að móta mig þegar ég var barn. Þá lærði ég að meta hvaða lífsgæði felast í því að búa hér, hingað er ég aftur kominn og hér ætla ég að njóta þess að búa og vera til.

Annars er stefnan sett á fyrsta fellihýsaferðalagið um næstu helgi, ætlum í Eyjafjörðinn, hirðum krakkana upp þar og ætlum að eyða tímanum í faðmi góðra vina og fjölskyldumeðlima og njóta náttúrunnar í sveitinni okkar þar. Þar gefst konunni tækifæri til þess að finna stelpuna í sér og hrífa okkur með í bernskuminningum sínum.


"Pabbi, mig langar svo að sjá þig brosa"

Þetta sagði sá yngsti á heimilinu, bráðum að verða 6 ára. Þetta var annasöm vika á heimilinu, allt á hvolfi og geðslagið hjá manni líklega eftir því. Litli kútur var farinn að sakna þess að sjá ekki pabba sinn brosa og bað hann því um það yfir kvöldverði um miðja viku. Ég gat að sjálfsögðu ekki annað og leiddi hugann að því að maður hefði nú líklega ekki verið sá skemmtilegasti í öllum framkvæmdunum. En þetta varð til þess að ég leit öðrum augum á framhald framkvæmdanna og tókst á við vandamálin í kring um það eilítið léttari í skapi en áður. Svo geta nú börnin virkað á mann.

En af framkvæmdum er það að frétta að gólfið í elshúsinu er tilbúið, það var bæsað á föstudagskvöldið og lakkað á laugardag og í gær fluttum við okkur þangað inn. Ótrúlegt hvað svona gömul gólf verða flott þegar búið er að pússa þau niður og gera fín.

Annars vorum við svakalega dugleg í garðinum í gær, bjuggum til 20 metra langt blómabeð í garðinum fyrir framan húsið og settum niður ýmis fjölær blóm. Þvílík breyting á innkeyrslunni og garðinum þar fyrir framan. Það var svakalega fínt að komast út og djöflast í garðinum í góða veðrinu og ekki laust við að maður hafi orðið talsvert útitekinn.

Skruppum svo seinni partinn í gær að Grettislaug á Reykjaströnd en þar eru menn að byggja upp aðstöðu til baða í lauginni og hafa reyndar búið til aðra laug við hliðina. Spennandi að sjá hvað verður úr þessu. Það vakti líka athygli okkar að sjá þarna þrjá óðinshana og einn þórshana, svamlandi á sjónum. Ég held að ég hafi aldrei séð þessar tegundir fugla syndandi á sjónum.

 


Annasöm helgi - nema hvað?

Jæja gott fólk. Smá fréttir að norðan um það sem við höfum verið að bardúsa síðustu daga.

Nýtt eldhús leit dagsins ljós á föstudaginn og erum við bara helv... ánægð með útkomuna. Panellinn á bak við klæðningarnar reyndist bara svona ljómandi fínn og hann setur skemmtilegan svip á eldhúsið. Við máluðum allt saman og settum síðan nýjar höldur á alla skápa, höldur sem við erum búin að flytja með okkur frá Svíþjóð og síðar frá Ísafirði. Keyptum þær í Turkish house verslun í Stokkhólmi.

Var að argast í morgun í tryggingakallinum hjá VÍS um að drífa nú í að klára kjallarann, steypa nýtt gólf í stað þess sem var ónýtt og steypa í götin sem þurfti að grafa til að laga biluðu lögnina. Síðan verður tekist á um það hvort að ónýt klæðning í kjallaranum sé afleiðing af umræddum leka og höldum við fast í að svo sé.

Stína tengdó kom í heimsókn um helgina og sló í gegn að venju. Mætti á svæðið vopnuð saumavél sem kólnaði lítið um helgina. Hún gerði við ónýt hné og klof á buxum, græjaði forláta prjónapils sem hún prjónaði á Guðnýju og var bara í aksjón frá því hún kom og þangað til hún fór. En það svo sem skiptir ekki máli hvað hún gerir, heldur aðallega að hún bara komi og eyði smá tíma með okkur. Elduðum lambalæir og naut á laugardagskvöldið og gamli kom í mat. Við Stína tókum svo úr einni rauðvín yfir heimildarmyndinni um Jón Pál. Mér fannst myndin mjög skemmtileg og talsvert önnur sýn á karlinn en maður hafði hér í denn. Krakkarnir höfðu gaman af því að horfa á skemmtikraftinn Jón Pál, enda var hann það fram í fingurgóma. Líklega höfum við íslendingar ekki gert okkur grein fyrir því hversu dáður hann var erlendis fyrr en þessi mynd kom fram.

Á sunnudaginn fórum við í að flytja ömmu gömlu á milli hæða á dvalarheimilinu. Hún flutti af dvalarheimilinu þar sem sjálfbjarga fólk dvelur og upp á hjúkrunardeildina þar sem hún verður í umönnun allan sólarhringinn. Hún var eiginlega orðin hálf ófær um að sjá um sig sjálf hvað mat og drykk varðar og var farin að gleyma að taka lyfin líka. Þá er eiginlega kominn tími á að gera eitthvað í málinu og okkur tókst að sannfæra hana um það. Fínt herbergi sem hún fékk og við náðum að gera það bara mjög vistlegt. Sú gamla var frekar neikvæð í gær en þakkaði okkur samt afskaplega vel fyrir þetta allt saman þegar við kvöddum hana. Nú er bara eitt herbergi á milli hennar og mömmu og mér hlýnar svolítið að vita af því, því amma var ekkert alltaf í standi til að fara upp og heilsa upp á mömmu.

Í gærkvöldi brá síðan svo við að við hjónin gátum sest niður í rólegheitunum þegar krakkarnir voru farnir að sofa og horft saman á sjónvarpið. Það fullyrði ég að hafi ekki gerst síðan við fluttum og var býsna kærkomið. Gretti fannst tími kominn á þetta líka og kom sér vel fyrir á milli okkar. En það var hann vanur að gera fyrir vestan þegar ró var komin á húsið, að kúra með okkur í sófanum og fá klapp og klór með reglulegu millibili.

Hilsen


Hitt og þetta - aðallega þetta

Ekki leiðinlegur leikur í gær hjá Arsenal. Það eru ekki mörg lið sem fara á Anfield með fjögurra daga millibili og skora 9 mörk. Ánægður með Baptista sérstaklega, hann fer kannski að finna sig úr þessu.

Erum að mála eldhúsið þessa dagana og ætlum að klára þær framkvæmdir fyrir helgina. Ætlum líka að rífa klæðningu af tveimur veggjum þar til að ná panelnum fram og þá verður eldhúsið okkar orðið voða kósí.

Framkvæmdir eru hafnar í kjallaranum. Þar var vatnstjón sem ekki lá fyrir þegar við fluttum inn og tryggingafélag fyrri eigenda klárar það mál. Þar þurfti að henda út trégólfi sem orðið var handónýtt og farið fúna vegna leka. Herbergið mun í framtíðinni hýsa trommusettið mitt og gesti þegar þá ber að garði.

Þegar búið verður að ganga frá kjallaranum, verður hann málaður og gerður vistlegri svo við getum farið þangað á sokkunum. Það er takmarkið að geta labbað þar um á sokkunum.

Það er ótrúlegt hvað maður getur þurft að bíða eftir að ná sambandi við bissí aðila fyrir sunnan. Ég er búinn að bíða eftir símtölum frá tveimur aðilum í stórum fyrirtækjum fyrir sunnan síðan í síðustu viku. Ég hringi, þeir eru uppteknir, ég skil eftir skilaboð. Ég sendi tölvupóst til að minna á mig, fæ þau svör að þeir hringi á morgun eða hinn, en ekkert gerist. Djöfull pirrandi.

Blað nr. tvö hjá Guðnýju kemur út í dag. Viðbrögðin frábær við fyrsta blaðinu, mikið talað um þessar breytingar og fólk mjög jákvætt. Nýjum áskrifendum fjölgar og ég spái því að þeim eigi eftir að fjölga enn frekar eftir annað blaðið. Fólk vill gjarnan sjá annað gott eintak áður en það tekur ákvörðun um að gerast áskrifandi.

Er að hugsa um að setja upp smá bissness með félaga mínum Borce Ilievski sem þjálfar hjá KFÍ núna. Þörfin fyrir reynda og góða þjálfara er mikil í körfunni á Íslandi og mig langar til að finna heppilega þjálfara og reyna að flytja þá inn, körfuboltanum í landinu til heilla. Sjáum hvað setur.

Jæja ég þarf að fara í símann og reyna að ná í hina háu herra fyrir sunnan!!

Hilsen


Bissí helgi

Við tókum rispu um helgina. Kláruðum að koma efri hæðinni í ásættanlegt horf, en þar var m.a. herebrgi sem fullt var af kössum og allskonar dóti sem við vissum vart hvar ætti að eiga heima. Það tókst þó með ágætum og við færðum þangað inn talsvert úr herbergi strákanna og nú hafa þeir og þau, tvö herbergi til að leika sér í. Kom bara vel út.

Því næst varð eldhúsið fyrir barðinu á okkur, við rifum gólfdúkinn af korteri fyrir kvöldmat í síðustu viku og í gær var frúin á fjórum fótum og hreindaði upp flísarnar sem voru undir og bónaði allan pakkann. Kemur skemmtilega út, þetta eru svona gamlar línolín-dúkaflísar eða eitthvað þannig, gráleitar.

Við pökkuðum öllu jólaskrauti niður í gær og gengið var samviskusamlega frá því niður í geymslu. Síðan voru settir upp hinir ýmsustu skrautmunir sem ekki hafa fyrr upp farið í þessu húsi. Þannig að þetta er allt að koma. Settum upp ljós í stofunum og eigum við þá eftir að setja upp ljós í eldhúsinu.

Í dag ætla ég síðan að rífa klæðningu af veggjum í borðkróknum eða innra eldhúsinu. Þar á bak við er forláta gamall panill sem við ætlum að ná fram og gera upp. Svo verður eldhúsið málað og við ætlum að klára þetta í vikunni. Dunda okkur við þetta. Svo verður tekið framkvæmdahlé út mánuðinn í það minnsta, nema þegar búið verður að skipta um gólf í kjallaranum og laga hann, þá ætlum við að mála þar. En það er bara smotterí.

Við feðgar fórum þrjár ruslaferðir á gámasvæðið, fengum lánaða kerru hjá Svabba og hreinsuðum út allt rusl sem eftir var að henda frá flutningunum.

Þetta var helgin okkar í hnotskurn.

Hilsen


Lífið í skorður

Það er fátt sem gleður mörlendinginn mig meira en jólahátíðin og allt sem hennir fylgir, nema ef vera skyldi sá tími þegar lífið kemst í fastar skorður á nýjan leik. Þó jólaundirbúningurinn hafi farið fram í miðjum búferlaflutningum þetta árið, lukkaðist hann þó all vel og þetta var góður tími. Samt er það þannig að strax eftir 3-4 daga í jólafríi, fer móri að láta á sér kræla og maður borðar of mikið einn daginn, sefur of mikið þann næsta og vill helst að þessu fari að linna. En það er alltaf gott að fá lífið í skorður aftur, krakkarnir farnir í skólann og lífið að ganga sinn vanagang.

Annars voru jólin sjálf frekar róleg hjá okkur. Krakkarnir voru í burtu, við borðuðum bara tvö heima á aðfangadag og fórum síðan upp á sjúkrahús og tókum upp jólapakkana með ömmu gömlu sem komst ekki úr húsi vegna slæmsku. Það eitt og sér var yndislegt, að geta verið henni félagsskapur og hún var afar þakklát fyrir. Ekki oft sem hún lætur slíkt í ljósi en hún var óvenju meyr og lítil í sér þennan aðfangadag.

Við fórum reyndar norður á Þorláksmessu og nutum frelsisins á Akureyri. Smá búðarráp, út að borða á Greifann og svo Irish á Kaffi Akureyri á eftir. Borðuðum hangikjöt hjá tengdó í hádeginu á aðfangadag og brenndum svo yfir.

Áramótin voru svo okkar aðfangadagur, skreyttir með eldspúandi sprengjum og ljósadýrð og sannkallað upplifelsi fyrir krakkana þegar við löbbuðum upp á Nafir fyrir ofan húsið okkar og horfðum yfir herlegheitin um miðnættið. Það er ekki dónalegt að borða góðan mat, taka upp jólapakka og sprengja síðan flugelda, allt sama kvöldið. En svona verður það um ókomin ár.

Í dag er ég mjög stoltur maður, því mín yndislega eiginkona á afmæli í dag og ofan á það kemur fyrsta Feykis-blaðið undir hennar stjórn út í dag og slær hún því tvær flugur í sama höfuðið í dag, eins og einhver sagði. Færði henni blóm í tilefni dagsins um hádegið og fékk Feyki glóðvolgan úr prentsmiðjunni og leist vel á. Þessar breytingar sem Guðný er að gera virka að mínu viti, en segi ekki meir, því nú verðið þið að útvega ykkur blað.

guðny Guðný og Þuríður framkvæmdastjóri Nýprents með fyrsta blaðið.

Var á Ísafirði í gær og fyrradag. Var að klára starfslokasamninginn minn með heljarinnar vörutalningu. Var að til kl. tvö aðfaranótt gærdagsins og gekk helvíti illa að sofna eftir það. Leit síðast á klukkuna kl. hálf fjögur og vakti aðeins eftir það. Vaknaði svo all hress eða þannig, kl. hálf átta um morguninn og eyddi deginum með Jóa Torfa á lagernum og hjálpaði honum að komast inn í hlutina þar. Fékk lunda að borða í hádeginu, var búinn að panta hann fyrir jól og að sjálfsögðu brugðust þeir vel við vinir mínir í eldhúsinu þeir Gestur og Biggi. Leystu mig meira að segja út með lunda í brúnni í boxi sem ég át þegar ég kom heim í gærkvöldi. Agjört lostæti.

Annars hef ég átt erfitt með að gera upp tilfinningar mínar gagnvart Ísafirði frá því ég flutti. Þetta gerðist auðvitað allt á milljón eins og annað hjá okkur og hugsanlega hafði maður ekki tíma til að velta þessu fyrir sér. Ég vissi þó alltaf að mér leið vel fyrir vestan og eignaðist þar góða vini og kunningja en var duldið í lausu lofti yfir því hvaða tök Ísafjörður hafði á mér. En þegar ég renndi frá flugvellinum og inn í bæinn í fyrradag fann ég að Ísafjörður mun alltaf skipa heiðurssess í mínum huga. Þar á ég góða vini og kunningja, þaðan á ég góðar minningar og leið vel og staðinn verður alltaf gaman að heimsækja.

Ég er búinn að ákveða að leita mér lækninga. Tími til kominn segja sumir, þó fyrr hefði verið segja aðrir. En þetta á nú ekki við um ýmsa huglæga krankleika heldur helvítis hnéð á mér. Það er að segja það hægra, sem er talsvert verr á sig komið en það vinstra. Ég er kominn í samband við læknamiðstöð úti í San Francisco sem sérhæfir sig m.a. í því að byggja upp brjósk og liðþófa í ónýtum hnjám. Hér hafa sérfræðingar sagt mér að það næsta sé að skipta um hnjálið hjá mér, en það sé samt ekki hægt fyrr en ég verði orðinn gamall!! Halló, á ég þá bara 37 ára gamall að bíða og kveljast þangað til ég verði orðinn eitthvað gamall?? Að geta ekki stundað léttan körfubolta eða aðra líkamsrækt, að geta ekki leikið við börnin mín eins og ég vildi, að geta ekki farið í göngutúra með fjölskyldunni og ekki notið þeirra lífsins gæða sem felast í útiveru og hollri hreyfingu?? Ég ætla ekki að láta bjóða mér þessi svör og er að reyna að gera eitthvað í málinu. Sjáum hvað setur.

Verðum næst barnlaus um helgina 20. jan. og erum að velta fyrir okkur matarboði þá, aðeins að líta upp og gera okkur glaðan dag. Bjóðum kannski Herramönnunum í það gill eða einhverjum hér á heimavelli.

Hilsen


Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband