Færsluflokkur: Ferðalög

Mæli með þessum tjaldsvæðum

Við fjölskyldan dvöldum að mestu í útilegu þessa fríviku okkar sem lauk á laugardaginn. Við vorum fyrr hluta vikunnar á Hrafnagili í Eyjarfirði þar sem fín aðstaða er. Svæðið stendur norðan við Hrafnagilsskóla, á nokkuð miklu bersvæði við bakka Eyjarfjarðarárinnar. Þar má finna rafmagn fyrir hjólhýsi og fellihýsi, sturtur og góða hreinlætisaðstöðu, fótboltavöll og leiktæki fyrir krakkana og svo er sundlaugin stórfín þarna við svæðið. Stutt er í gróðurskálann Vín þar sem finna má góðan ís og Jólagarðinn sem alveg magnað er að koma í, ekki síst um hásumar. Það sem helst vantar er kannski skjólbelti sem mætti rækta upp meða hraða, því svæðið er nokkuð berskjaldað fyrir norðanáttinni. En þarna var mjög gott að vera. Borguðum 2600 krónur fyrir sólarhringinn, með rafmagni sem er nokkuð vel í lagt að mínu mati, þar sem þjónustan þarna er lítil sem engin, en það sem er fyrir hendi er vissulega fínt og nákvæmlega það sem maður þarf á að halda.

Á fimmtudaginn undum við okkar kvæði í kross og héldum í Borgarfjörðinn, nánar til tekið á Fossatún á bökkum Grímsár. Það er svæði sem hinn fyrrum tónlistarútgefandi Steinar Berg Ísleifsson og kona hans, hafa byggt upp af gríðarlega miklum myndarskap. Þetta er fimm stjörnu tjaldsvæði skv. skilgreiningu Ferðamálastofu. Þar má finna topp hreinlætisaðstöðu, frábær leiktæki fyrir krakkana (þar á meðal 5 trampólín og stóran leikkastala), minigolf, fótboltavöll, fallegar gönguleiðir, aðgang að rafmagni, veitingarstað og fleira og fleira. Ofan á þetta er toppþjónusta, salerni þrifin nokkrum sinnum á dag og fyllt á pappír og slíkt. Stórbrotið útsýni er af útipalli við veitingastaðinn yfir Tröllafossa, sem eru litlir fossar og flúðir í ánni. Gaman að sitja þar úti yfir kaffibolla eða öli og njóta þess. Lítið er í ánni sem gerir fossana og fúðirnar stærri og þó veiðimenn fíli það ekki, þá er það bónus fyrir okkur ferðafólk. Auk þessa er all mikil menningardagskrá í gangi á sumrin og Við greiddum 6300 krónur fyrir þessa tvo sólarhringa og innifalið í því var rafmagn, aðgangur að sturtum, heitum potti og minigolfi einu sinni á dag. Og maður fær vel fyrir peninginn það er nokkuð ljóst.

Við vorum að vísu all óheppin með staðsetningu, því á sama svæði og við hópaðist stór fjölskylda eða ættleggur og nánast umkringdi okkur. Þetta fólk sat síðan að sumbli allt of langt fram eftir nóttu og hafði hátt. Svo er fólk að tala um unglingafyllerí, mér finnst það ábyrgðarhlutur þegar fullorðið fólk safnast saman með börn á öllum aldri og drekkur sig fullt. Það er í góðu lagi að sitja úti og fá sér 1-2 öllara yfir grillinu og svoleiðis létt, en með börnin í útlegu á maður ekki að fara á fyllerí.

Þið getið séð þetta nánar á slóðinni www.steinsnar.is

En sem sagt, þarna eru tvö fín tjaldsvæði sem óhætt er að mæla með.

Um næstu helgi verður farið í útilegu enn á ný og kannski kem ég með pistil um ákvörðunarstaðinn okkar þá.

Bendi hér á gæðaflokkun Ferðamálastofu fyrir tjaldsvæði.

Á leið okkar suður renndum við á Hvammstanga og skoðuðum þar Selasetrið og mjög skemmtilegt gallerí sem Bardúsur reka í gömlu uppgerðu pakkhúsi við höfnina. Hvort tveggja áhugavert og þó Selasetrið sé gert í kring um ákveðinn afmarkaðan hlut ná þeir að taka ýmsa skemmtilega vinkla á líf "og störf" sela sem nóg er af á Vatnsnesinu og víðar þarna í kring um Hvammstanga.


Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband