Lífið í skorður

Það er fátt sem gleður mörlendinginn mig meira en jólahátíðin og allt sem hennir fylgir, nema ef vera skyldi sá tími þegar lífið kemst í fastar skorður á nýjan leik. Þó jólaundirbúningurinn hafi farið fram í miðjum búferlaflutningum þetta árið, lukkaðist hann þó all vel og þetta var góður tími. Samt er það þannig að strax eftir 3-4 daga í jólafríi, fer móri að láta á sér kræla og maður borðar of mikið einn daginn, sefur of mikið þann næsta og vill helst að þessu fari að linna. En það er alltaf gott að fá lífið í skorður aftur, krakkarnir farnir í skólann og lífið að ganga sinn vanagang.

Annars voru jólin sjálf frekar róleg hjá okkur. Krakkarnir voru í burtu, við borðuðum bara tvö heima á aðfangadag og fórum síðan upp á sjúkrahús og tókum upp jólapakkana með ömmu gömlu sem komst ekki úr húsi vegna slæmsku. Það eitt og sér var yndislegt, að geta verið henni félagsskapur og hún var afar þakklát fyrir. Ekki oft sem hún lætur slíkt í ljósi en hún var óvenju meyr og lítil í sér þennan aðfangadag.

Við fórum reyndar norður á Þorláksmessu og nutum frelsisins á Akureyri. Smá búðarráp, út að borða á Greifann og svo Irish á Kaffi Akureyri á eftir. Borðuðum hangikjöt hjá tengdó í hádeginu á aðfangadag og brenndum svo yfir.

Áramótin voru svo okkar aðfangadagur, skreyttir með eldspúandi sprengjum og ljósadýrð og sannkallað upplifelsi fyrir krakkana þegar við löbbuðum upp á Nafir fyrir ofan húsið okkar og horfðum yfir herlegheitin um miðnættið. Það er ekki dónalegt að borða góðan mat, taka upp jólapakka og sprengja síðan flugelda, allt sama kvöldið. En svona verður það um ókomin ár.

Í dag er ég mjög stoltur maður, því mín yndislega eiginkona á afmæli í dag og ofan á það kemur fyrsta Feykis-blaðið undir hennar stjórn út í dag og slær hún því tvær flugur í sama höfuðið í dag, eins og einhver sagði. Færði henni blóm í tilefni dagsins um hádegið og fékk Feyki glóðvolgan úr prentsmiðjunni og leist vel á. Þessar breytingar sem Guðný er að gera virka að mínu viti, en segi ekki meir, því nú verðið þið að útvega ykkur blað.

guðny Guðný og Þuríður framkvæmdastjóri Nýprents með fyrsta blaðið.

Var á Ísafirði í gær og fyrradag. Var að klára starfslokasamninginn minn með heljarinnar vörutalningu. Var að til kl. tvö aðfaranótt gærdagsins og gekk helvíti illa að sofna eftir það. Leit síðast á klukkuna kl. hálf fjögur og vakti aðeins eftir það. Vaknaði svo all hress eða þannig, kl. hálf átta um morguninn og eyddi deginum með Jóa Torfa á lagernum og hjálpaði honum að komast inn í hlutina þar. Fékk lunda að borða í hádeginu, var búinn að panta hann fyrir jól og að sjálfsögðu brugðust þeir vel við vinir mínir í eldhúsinu þeir Gestur og Biggi. Leystu mig meira að segja út með lunda í brúnni í boxi sem ég át þegar ég kom heim í gærkvöldi. Agjört lostæti.

Annars hef ég átt erfitt með að gera upp tilfinningar mínar gagnvart Ísafirði frá því ég flutti. Þetta gerðist auðvitað allt á milljón eins og annað hjá okkur og hugsanlega hafði maður ekki tíma til að velta þessu fyrir sér. Ég vissi þó alltaf að mér leið vel fyrir vestan og eignaðist þar góða vini og kunningja en var duldið í lausu lofti yfir því hvaða tök Ísafjörður hafði á mér. En þegar ég renndi frá flugvellinum og inn í bæinn í fyrradag fann ég að Ísafjörður mun alltaf skipa heiðurssess í mínum huga. Þar á ég góða vini og kunningja, þaðan á ég góðar minningar og leið vel og staðinn verður alltaf gaman að heimsækja.

Ég er búinn að ákveða að leita mér lækninga. Tími til kominn segja sumir, þó fyrr hefði verið segja aðrir. En þetta á nú ekki við um ýmsa huglæga krankleika heldur helvítis hnéð á mér. Það er að segja það hægra, sem er talsvert verr á sig komið en það vinstra. Ég er kominn í samband við læknamiðstöð úti í San Francisco sem sérhæfir sig m.a. í því að byggja upp brjósk og liðþófa í ónýtum hnjám. Hér hafa sérfræðingar sagt mér að það næsta sé að skipta um hnjálið hjá mér, en það sé samt ekki hægt fyrr en ég verði orðinn gamall!! Halló, á ég þá bara 37 ára gamall að bíða og kveljast þangað til ég verði orðinn eitthvað gamall?? Að geta ekki stundað léttan körfubolta eða aðra líkamsrækt, að geta ekki leikið við börnin mín eins og ég vildi, að geta ekki farið í göngutúra með fjölskyldunni og ekki notið þeirra lífsins gæða sem felast í útiveru og hollri hreyfingu?? Ég ætla ekki að láta bjóða mér þessi svör og er að reyna að gera eitthvað í málinu. Sjáum hvað setur.

Verðum næst barnlaus um helgina 20. jan. og erum að velta fyrir okkur matarboði þá, aðeins að líta upp og gera okkur glaðan dag. Bjóðum kannski Herramönnunum í það gill eða einhverjum hér á heimavelli.

Hilsen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband