Fleiri myndir og fréttir af aurflóðinu

Á www.skagafjordur.com eru nú komnar fleiri myndir af aurflóðinu. Jón Þór Bjarna er líka búinn að setja inn myndir hér.

Miklar aurskriður á Króknum - mikið eignatjón

Einn góður sagði við mig í morgun þegar ég stóð og virti fyrir mér afleiðingar aurskriðunnar, - fluttir þú ekki að vestan til að losna við þetta?

Farið hér inn og skoðið myndirnar sem teknar voru í morgun. Svakalegt dæmi alveg.


Af hverju er ég áhugalaus um greinaskrif frambjóðenda?

Ég sá áhugaverðan titil á blaðagrein um daginn. Hún fjallaði um málefni sem ég hef áhuga á. En þegar ég fór að skoða nánar hver var að skrifa, missti ég áhugann. Þetta var nefnilega frambjóðandi til Alþingis. Eflaust hinn mætasti maður, ekki spuring, en að hann skyldi vera að skrifa um þetta málefni sem frambjóðandi fannst mér gjaldfella greinina. Ef "X-fræðingur" hefði ritað téða grein, hefði ég eflaust lesið hana af áhuga.

Þetta hljómar kannski ósanngjarnt af minni hálfu, að ég skuli ekki gefa þessum tiltekna aðila tækifæri til að tjá sig um viðkomandi málefni. En af hverju sló þetta mig á þennan hátt? Var ég hræddur við að lenda í atkvæðagildru þessa einstaklings og láta spyrjast um mig að ég félli fyrir hans skoðunum? Eða hef ég bara minni trú á frambjóðendum við að tjá sig í aðdraganda kosninga ?

Greining óskast á þessum einkennum mínum.

Annars óska ég öllum góðrar helgar.


Páll Vilhjálmsson

Ég lauk í gærkvöldi við að lesa bókina um Pál Vilhjálmsson eftir Guðrúnu Helgadóttur fyrir strákana mína. Snilldarbók eftir frábæran rithöfund. Ég man eftir Palla í sjónvarpinu hér í denn og fékk bókina í jóla- eða afmælisgjöf um það leyti og á hana enn. Hún er hins vegar orðin mjög slitin, hangir saman á teipi en mér þykir það vænt um hana að ég tími ekki að henda henni. Við vorum síðan stödd á bókamarkaði um daginn hér í Skagafirði og keyptum þá nýslegið eintak.

Strákarnir sem eru 6 og 8 ára hafa haft óskaplega gaman af sögunni, ekki síður en ég og við höfum oftsinnis allir þrír skellt upp úr. Helst fannst þeim fyndið annars vegar þegar verið var að útskýra fyrir þeim félögum Palla og Varða, að þegar fólk dæi færi það upp til Guðs. "Mig langar ekkert þangað", sagði Varði þá og þetta fannst þeim bræðrum ekkert smá fyndið.

Það ætlaði síðan allt um koll að keyra í gærkvöldi þegar Palli var að segja frá 1. maí göngu sem þeir félagarnir fóru í, en þá söng Varði Ryksugan á fullu á meðan allir aðrir sungu Öxar við ána. Þetta fannst þeim alveg meiriháttar og ég þurfti að lesa þessar setningar fyrir þá margsinnis.

Annars hef ég fundið mikla ánægju við að lesa fyrir strákana svona á kvöldin. Þetta eru afskaplega gefandi stundir og þeir hafa mjög gaman af þessu.

Ætli það verði ekki Salómon svarti sem verði næstur á dagskrá?


RSS straumar - hvernig í andsk..................!!

Ég er búinn að vera að reyna að koma rss-straumi inn á bloggið mitt. Getur einhver aðstoðað mig með hvernig á að gera það? Hef reynt að styðjast við hjálpina í kerfinu; búið til lista og sett inn rss slóðina og allt. Einnig farið í stillingar og fært RSS box yfir á virka svæðið en ekkert gerist.

AAARRRG!!!


Samtök heimfluttra/aðfluttra - raddir íbúanna

Ég hef mikið verið að velta fyrir mér hvort að grundvöllur væri fyrir því að stofan einskonar samtök þeirra sem eru aðfluttir eða heimfluttir hingað á Krók eða í Skagafjörð. Það er nefnilega þannig að það er hægt að koma málum á framfæri með ýmsum hætti. Ef við ætlum að koma því á framfæri hvað sé gott að búa hér er ekki sama hvernig það er gert og margir verða að koma þar að málum til að það megi teljast trúverðugt. Opinberir aðilar eins og sveitarfélagið geta komið mjög ábyrgum upplýsingum á framfæri og það er í raun hlutverk þess, en það hefur alltaf yfir sér auglýsinga-/kynningarásjónu sem að sjálfsögðu er gott mál samhliða. En það eru raddir fólksins sem býr hér sem mest er mark takandi á gagnvart fólki sem gæti hugsað sér að flytjast hingað búferlum. Hvort sem það eru "nýbúar" eða brottfluttir sem snúa vilja heim.

Þessi samtök, eða hópur, eða hvað menn vilja kalla þetta, geta haft starfsemi sína á bloggsíðu sem þessari og skipst á að skrifa inn á hana reynslusögur úr hinu daglega lífi sem allar eiga það sameiginlegt að lýsa hér hinu daglega lífi og ekki síst m.a. túlka ástæður þess að fólk ákvað að flytja hingað, hvort sem það var aftur eða í fyrsta skiptið.

Við sjáum hvað verður úr þessum pælingum.


Allt að gerast í ferðaþjónustunni fyrir vestan

Bendi á tvær skemmtilegar fréttir á bb.is þar sem fjallað er um stóra og mikla uppbyggingu á ferðaþjónustu á Norðanverðum Vestfjörðum.

Klasaverkefnið "Sjávarþorpið Suðureyri" er mjög áhugavert verkefni sem gaman er að fylgjast með. Ég bloggaði um það hér og benti á heimasíðu verkefnisins.

En þessar fréttir má sjá hér:

Hvíldarklettur kaupir 22 sjóstangveiðibáta og 12 sumarhús

Framleiðsluvörur frá Suðureyri fá nýjan búning


Páskafríið framundan - ég hlakka til

Páskarnir eru einhvern veginn eina fríið sem hægt er að treysta á. Það eru alltaf þessir 5 dagar í beit og ekkert flakk á þeim.

Þessir páskar verða um margt sérstakir fyrir okkur fjölskylduna. Jú þetta verða fyrstu páskarnir í sögu þessara bráðum þriggja ára gömlu fjölskyldu sem við erum öll saman. Málið hefur nefnilega verið þannig að krakkarnir hafa verið hjá hinum foreldrum sínum yfir páskana, en við náðum að koma því réttlætismáli í gegn að við fáum að hafa þau aðra hverja páskahátíð. Þau hafa verið í burtu síðan í síðustu viku en koma heim á morgun.

Við hjónin höfum staðið sveitt yfir endurskipulagningu herbergja, málningarvinnu, húsgagnasamansetningum og fleiru sem fylgir. Strákarnir eru að fara í sitt hvort herbergið núna eftir að hafa deilt herbergi alla sína samtíð. Það hefur gengið mjög vel en nú er Haukur orðinn átta ára og Skírnir að verða sex og því kominn tími á þetta. Við náðum að gera agnarsmátt herbergi gríðarlega flott með Spidermanþema fyrir Skírni og erum ákaflega stolt af okkur. Árdís fékk herbergið sem strákarnir voru í og við höfum verið að taka það í gegn líka og nú er það svona mitt á milli þess að vera barnaherbergi og unglingaherbergi enda er skvísan að verða tíu ára. Við klárum herbergið hans Hauks í dag, það verður hvítt og Arsenal-rautt og í Arsenal þema. Það verður bara frábært að fá liðið heim aftur.

Annars er föstudagurinn langi ákaflega sérstakur dagur, því þá hittumst við Guðný í fyrsta skiptið á dansleik í Hnífsdal með Írafári, á tónleikatúr sem hét "Nýtt upphaf" veit ekki hvort það var eitthvað táknrænt. Sérstök stund þegar við horfðumst í augu í fyrsta skiptið frammi í anddyrinu á félagsheimilinu. Þetta var 2004.

Við eigum von á gestum því Björg systir, Simmi og Bjarki ætla að koma á föstudaginn og vera fram á sunnudag. Kærastan hans Bjarka verður frumsýnd þessa helgi. Verð að hemja mig í að hrella hana ekki. Ekki mikið alla vegaWink

Svo er að semja ratleikinn fyrir páskaegg krakkanna, þau verða send á allar hæðir og jafnvel út ef því er að skipta.

Ég óska öllum gleðilegra páska og vona að þeir verði ánægjulegir í alla staði. Tek til við blogg að nýju eftir hátíðina.


Lifi rokkið!!

Keith Richards, gítarleikari Rolling Stones, viðurkenndi í blaðaviðtali að hann hefði tekið ösku föður síns og blandað við kókaín sem hann tók síðan í nefið. Aðspurður sagði hann að blandan hefði ekki verið slæm - hann væri jú ennþá á lífi. Faðir Keiths dó árið 2002. Enn fer engum sögum af viðbrögðum móður Keiths við fréttunum.

Einhvern veginn kemur þetta ekkert rosalega á óvart.

En aldrei gæti ég tekið gamla í nefið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband