Þriðjudagur, 20. mars 2007
Músíktilraunir, nokkrar minningar rifjaðar upp
Sá að músíktilraunirnar þetta árið eru að hefast. Það vakti upp ótal minningar frá árdögum hljómsveitarmennsku minnar.
Við félagarnir stofnuðum Bad Boys 1982 13 ára gamlir. Héldum þá í nóvember tónleika með frumsömdu efni í félagsmiðstöðinni. Tónleikarnir stóðu í um klukkustund og var það all gott afrek að ná að spila eingöngu frumsamið efni á þessum tíma. Ég man að ágóðinn - utan smá peningur til leigu á videotæki og spólum, rann til uppbyggingar félagsmiðstöðvarinnar.
Um vorið 1983 skelltum við okkur í músíktilraunakeppnina sem þá var haldin aðeins í annað skiptið. Við fengum að leika þrjú lög. Ef mig misminnir rétt voru það lögin Spurðu mig ei, Skandall - sem var instrumental og ........bara man ekki hvað þriðja lagið var. Hvort það var Línan. En alla vega við tókum þátt í keppninni. Það var fámennt í salnum. Pabbi hans Stjána og konan hans voru þarna auk nokkurra sem all flestir voru á okkar bandi. Við áttum við salinn og hvort sem það var því að þakka, þá komumst við í úrslit sem haldin voru á Kjarvalsstöðum. Stúlknahljómsveit að nafni Dúkkulísurnar höfðu helst vakið athygli þetta árið sem og Bláa bílskúrsbandið fyrir ótrúlegan gítarleikara sem rétt var 12 ára eða svo þarna. Þar var kominn Guðmundur Pétursson gítarsnillingur. Þegar við komum í Tónabæ á undanúrslitakvöldið heyrðum við þvílíku tónana að við vorum að hugsa um að snúa við og hætta við allt saman. Héldum við að þarna væru keppinautar okkar að æfa sig en svo var nú sem betur fer ekki. Þetta var hljómsveitin Pax Vobis sem var gestahljómsveit þarna en hana skipuðu fjórir drengir sem allir voru í FÍH. Geiri Sæm, Skúli Sverrisson, Þorvaldur Bjarni og Þorsteinn Gunnarsson. Okkur létti talsvert að vita að þeir væru bara gestahljómsveit. En svo fór að Dúkkulísurnar unnu þetta árið en við töldum okkur góða að hafa komist í úrslit. Það er til góð saga af því þegar Kiddi Balda hljóp um ganga gaggans morguninn eftir að við spiluðum á undankvöldinu og laug því að hann hélt, að við hefðum komist í úrslit. Það fréttist hins vegar ekki fyrr en seinna um daginn að það hefði orðið niðurstaðan. Hvort Kiddi hafði svona mikla trú á okkur skal ósagt látið, en hitt er þó líklegra að hann hafi ætlað að plata þarna hálfan skólann.
1986 hét hljómsveitin Metan. Um veturinn 85-86 greip um sig ósætti innan Bad Boys eins og gjarnan gerist í alvöru hljómsveitum. Stjáni og Birkir stofnuðu tölvupopphljómsveit með Óskari Páli en ég, Svabbi og Árni stofnuðum Metan og fengum til liðs við okkur Kristinn Baldvinsson hljómborðsleikara. Þetta ósætti varð nú skammvinnt. Hljómsveitirnar tvær urðu að einni, Metan og varð Kristinn þriðji hljómborðsleikarinn í sveitinni. En á þeim tíma þótti það talsvert gott að vera með þrjá hljómborðsleikara og við reyndum að útsetja lögin okkar með það í huga. Stjáni var líka farinn að bregða sér frá hljómborðinu sínu og fronta hljómsveitina í nokkrum lögum. En við skráðum okkur í músíktilraunirnar 1987 reynslunni ríkari og héldum í bæinn. Unnum undanúrslitakvöldið okkar og komumst í úrslit. Stuðkompaníið frá Akureyri var með í keppninni þetta árið með þá frændur mína Kalla og Alta Örvars fremsta í flokki og þeir unnu keppnina þetta árið. En okkar uppskera varð annað sætið og undum við því býsna vel. Mig minnir að þetta árið hafi Grafík verið gestahljómsveit á öðru hvoru kvöldinu og þar kynntu þeir til leiks nýja og sérstaka söngkonu, Andreu Gylfadóttur.
En þar með var okkar þátttöku ekki lokið. Kiddi Baldvins hætti í hljómsveitinni og við breyttum nafni okkar úr Metan í Herramenn sem síðan varð helsta nefn hljómsveitarinnar á næstu árum ef undan er skilið alla vega eitt ball, sem við hétum Danshljómsveit Birkis Guðmundssonar, af einhverju tilefni. En 1988 skráðum við okkur aftur til leiks í músíktilraunum og aftur komumst við í úrslitin. Við mættum í smóking fötum enda vart annað við hæfi þar sem hljómsveitin hét jú Herramenn. Í úrslitunum eygðum við góða von um sigur. Þar voru okkar helstu keppinautar Jójó frá Skagaströnd og svo fór að þeir unnu. Við hímdum inni á klósetti á meðan úrslitin voru kynnt og ætluðum vart að trúa því þegar við vorum lesnir upp í annað sætið. Gríðarleg vonbrigði og okkur fannst þetta súr í broti. En náðum samt að gefa út fjögur lög þetta árið og áttum eina vikuna tvö lög á vinsældalista rásar tvö; Nótt hjá þér sem var í öðru sæti og Í Útvarpi - oft verið talað um sem eitt versta popplag Íslandssögunnar, var í því ellefta.
En músíktilraunirnar hafa verið mörgum hljómsveitum dýrmæt lexía og það get ég vottað sjálfur og félagar mínir. Hins vegar veit ég ekki hvort að nokkur önnur hljómsveit - eða hópur sem skipti alltaf um nafn, hefur farið eins oft og við gerðum.
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að þessari lesningu þinni Kalli, þetta hafa verið skemmtilegir tímar. Hér á bæ er verið að búa bílskúrsbandið okkar Hip Razical til spila á undankvöldi næstkomandi fimmtudag, en þeir spiluðu í annarri mynd (með sama nafni samt:) árið 2005, en komust ekki upp úr undankvöldinu. Spennan er talsverð, þeir eru búnir að æfa stíft (nágrönnunum til mikillar gremju) og í gær fengu þeir meistara Guðbrand Ægi í skúrinn til að koma og gefa þeim góð ráð. En þar sem sunnanbönd eiga auðveldara með að smala sínu fólki í Loftkastalann eiga þeir nú líklega ekki von um að komast áfram nema dómnefnd velji þá besta band kvöldsins. En þetta er gríðarlega gaman fyrir okkur öll sem tengjumst þessu, hljómsveit, vini og vandamenn :)
Jón Þór Bjarnason, 20.3.2007 kl. 09:40
Þessi pistill fór með mann mörg ár til baka
ég heiti Friðrik Þór og var í hljómsveitinni Annexia sem keppti í músiktilraunum þegar Jójó vann. við komumst í úrslit á dómaravali úr síðasta kvöldinu. við vorum skólahljómsveit frá Laugum en vorum titlaðir frá Blönduósi vegna þess að trommarinn Ragnar Z (fjármálaspekulant í dag) skráði okkur og hann sagðist vera frá Blönduósi sem hann er.
ég man að bassafóturinn klikkaði eitthvað í einu laginu hjá þér.
þetta var eina keppnin hjá okkur þarna í músiktilraunum enda var sveitadrengir eins og við frekar til baka þarna innan um þessa unglinga þarna í borginni.
takk fyrir enn og aftur þessa upprifjun
fritz@mi.is
Friðrik Þór (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 20:01
Takk fyrir þetta Friðrik Þór, mig rámar í hljómsveitarnafnið ykkar. Já bassatrommupedallinn brast í miðju lagi hjá mér og sviðið allt vaðandi í reyk. Það sást því ekki í mig að sögn félaga minna, ég hætti bara allt í einu að spila og þeir vissu ekki neitt. Ég þurfti síðan að mása og blása og slá reykinn frá mér til að láta vita af mér. Ekki skemmtilegt og taugaspennan í hámarki.
Karl Jónsson, 21.3.2007 kl. 08:12
Massa góður pistill félagi. Gaman að sjá færsluna frá Friðrik Þór þar sem það vill svo til að við Raggi Z sparisjóðsstjóri erum í góðu sambandi og höfum oft spjallað um þessa sameiginlegu reynslu okkar sveitadrengjanna.
Er líka ánægður með að þeir piltar í Hip Razical skuli fara aftur - það er í anda skagfirskra poppara að gefast ekki upp við Músiktilraunir. Minnir líka að Snævar Jónsson (Nonna Pálma og Sigrúnar Öldu úr Háuhlíðinni) hafi fengið verðlaun sem besti bassaleikarinn síðast þegar þeir tóku þátt.
Árni Þór (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 17:15
Skemmtileg nostalgía Kalli. Svona er það þegar árin færast yfir og minningarnar fara að banka upp á.
Ég man vel eftir ykkur í Metan þegar ég kom fyrst á Krókinn og vakti athygli mína kraftuinn og áhuginn í þessum ungu strákum í Gagganum. Það sem við töluðum mest um félagarnir var ,,Limahl" útlitið á Stjána söngvara og svo að hljómborðsleikarnarnir voru þrír. Mætti í raun segja að þið hafið verið ,,hardcore eighties band" þar sem ófullkomin hljóðgervilssánd hafa oft verið nefnd sem einkenni þess tímabils.
Já, þetta með úrslitin í síðustu keppninni var mjög skrýtið. Ég var ekki á staðnum en var búinn að heyra í ykkur á æfingum áður en þið hélduð í keppnina (voruði þá með ,,Enginn Einhversson"?) og fannst það sem sigurhljómsveitin var með ekki vera að skáka því á neinn hátt.
En svona er lífið - sigrar og ósigrar - og menn hafa nú aldeilis ekki lagt árar í bát í þessum efnum við þetta og m.a.s. einn úr hópnum sem staðið hefur á sviði í Eurovision fyrir Íslands hönd, þ.e. litli ,,Limahlinn" sem við austfirðingarnir sáum fyrst á sviði á Bifröst á Sauðárkróki.
Sólmundur Friðriksson, 22.3.2007 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.