Samvinna skóla og íþróttahreyfingar

Ég er ákafur talsmaður þess að skólar - sér í lagi grunnskólar, og íþróttahreyfing taki upp mun meira samstarf en nú er. Þegar er farið að örla á þessu samstarfi í framhaldsskólum og þá á afreksstigum en það eru samskipti grunnskóla og íþróttahreyfingar sem þarf að skoða betur að mínu mati.

Aga- og hegðunarmál 

Ég hef tjáð mig á opinberum vettvangi um samstarf þessara aðila er lýtur að aga- og hegðunarmálum. Í mörgum skólum er að finna ýmsar áætlanir um viðbrögð við einelti og hegðunarvandamálum og er það vel. En þegar krakkarnir sem þátt taka í svona prógrammi koma út úr skólanum og fara á íþróttaæfingar, er þessum málum lítið sem ekkert fylgt eftir. Sá aðili sem fyrir einelti verður er í skólanum í vernduðu umhverfi, en um leið og hann kemur t.d. á íþróttaæfingu er enginn sem fylgir málunum eftir það. Auðvitað eru til undantekningar á þessu og sumir þjálfarar líta þessi mál alvarlegum augum, en ég held að það sé því miður undantekning að þeir vinni sín agamál í takti við það sem gerist í skólanum.

En í hvaða stöðu setur þetta krakkana þegar þau starfa eftir stífu prógrammi í skólanum en missa síðan þetta utanumhald þegar þau koma á íþróttaæfingu? Það gæti sett suma einstaklinga í ákveðin vandræði, sér í lagi þá sem þurfa á ákveðnum ramma að halda.

Hér þurfa þessir tveir aðilar að samræma vinnu sína, því það er ekki nóg að krakkar búi við þessar reglur í skólanum, þau þurfa einnig á því að halda í sínum tómstundum, í raun hvort sem um ræðir íþróttastarf eða annað tómstundastarf.

Skólaíþróttir - íþróttaæfingar

Annað sem ég tel að eigi að skoða í samvinnu þessara aðila, er hvort þörf sé á því að láta krakka sem stunda æfingar hjá sínu íþróttafélagi 3-5 sinnum í viku, jafnvel oftar, mæta í íþróttatíma í skólunum. Er ekki í lagi að meta þeirra framlag hjá íþróttafélaginu inn í matskerfi skólans og nota íþróttatímana frekar til að sinna þeim sem ekki stunda íþróttaæfingar og eiga hugsanlega við heilsufarsleg vandamál að stríða vegna hreyfingarleysis, en finna sig ekki í starfi hefðbundinna íþróttafélaga? Það er flötur sem alveg mætti skoða að mínu mati.

Heilsufar barna er að verða áhyggjuefni. Krakkar eru í allt of mörgum tilfellum hætt að fara "út að leika" þar sem þau hreyfa sig og eyða orku, en hafa þess í stað fært sínar tómstundir heim í stofu eða herbergi, fyrir framan tölvu eða sjónvarp.

Skólakerfið má ekki vera það stíft og niðurnjörvað að það megi ekki aðlaga það að breyttum aðstæðum. Offita og hreyfingarleysi barna- og unglinga eru eitt alvarlegasta heilsufarsvandamál sem við glímum við í dag og það á bara eftir að aukast verði ekkert að gert. Þið getið ímyndað ykkur ástandið þegar þessir krakkar verða orðin fullorðin, hvaða kvillar fara þá að herja á þau. Það verður að taka á þessu vandamáli strax.

Samvinna skóla og íþróttahreyfingar getur hér leikið lykilhlutverk - ásamt aðkomu foreldra, sem er í raun efni í annan pistil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Karl

Þú talar um að skólinn sé ,,verndað umhverfi'' fyrir nemendur gagnvart eineltismálum. En það er nú ekki alveg svona einfalt.  Flestir skólar gera mjög vel í að stemma stigum við einelti en þetta fyrirbæri er ansi erfitt við að eiga.  Börn stunda yfirleitt ekki einelti í tímum í skólunum eða á íþróttaæfingum þar sem fullorðinn kennari /þjálfari er með hópnum heldur þar sem ,,enginn sér''.  T.d. með sms sendingum á msn einnig á bloggsíðum.  Ef barn á í höggi við einelti eða foreldra e.t.v. grunar það þá ætti það fyrst og fremst að vera þeirra verk að hafa samband við þjálfara barnsins en ekki kennara.  Kennarar hafa meira en nóg á sinni könnu svo ekki sé verið að bæta þessu við.

Þú talaðir líka um að þér finndist athugandi að leyfa krökkum sem að æfa 3 - 5 sinnum í viku að sleppa við skólaíþróttir.  Ég er ekki sammála því.  Í fyrsta lagi eru þetta krakkar sem að myndu ekki vilja sleppa leikfimi því þau eru nokkuð undantekningalaust miklir íþróttaáhugamenn sem hafa gaman af því að hreyfa sig, þau eru þar af leiðandi afskaplega góðar fyrirmyndir fyrir hina í bekknum.  Það er oft mjög mikil hreyfing á þessum krökkum en ég hef ekki ennþá séð neinn sem að hefur ekki haft gott af því.  En ég skil hvað þú ert að fara með þessum vangaveltum.  Þannig er það ef að við erum með krakka sem að eiga erfitt með leikfimitímana sökum ofþyngdar eða einhverra annara hluta þá segjum við krökkunum að það megi leysa verkefnin á fleiri máta en einn þannig að verkefnin séu fyrir alla eða þá að láta þau gera allt annað en það sem að hinir eru að gera í tímanum sem hentar þeim betur.

Ég er sammála þér að heilsufar barna og holdafar sé áhyggjuefni.  En við verðum að gá að því að það er líka svo með holdafar fullorðinna.  Við fullorðna fólkið erum fyrirmyndirnar.  Ef við ætlumst til þess að börnin okkar velji hollan mat fram yfir óhollan og hreyfi sig reglulega þá verðum við að gera það sjálf. Það er fullorðna fólkið sem verslar matinn fyrir heimilið og nestar börnin í skólann (sem er því miður oft ansi óhollt nesti).  Það eru foreldrar sem eiga að stjórna því hversu löngum tíma börnin eyða í tölvunni og fyrir framan sjónvarpið.  Mér finnst þetta mál vera fyrst og fremst í höndum foreldra, það þyrfti að verða vitundarvakning þar á bæ. 

Ég fagna því að einhver skuli taka upp þessa umræðu það er löngu orðið tímabært.

Kv Sigríður H Gunnarsdóttir íþróttakennari við grunnskóla og foreldri barns í grunnskóla.

Sigríður H Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 11:43

2 Smámynd: Karl Jónsson

Takk kærlega fyrir þetta komment.

Það var kannski full mikil einföldun hjá mér að tala um skólana sem "verndað umhverfi" upp að vissu marki. En þar er reynt að gæta þess að þeim aðstæðum sem einelti þrífst í sé fækkað til muna. 'Eg veit um dæmi þar sem skólar hafa tekið mjög vel á einelti, en ég veit líka um skóla sem hafa gjörsamlega brugðist í sinni skyldu gagnvart því.

Sturtuklefar eru staðir þar sem einelti getur viðgengist. Í sumum íþróttamiðstöðvum er eftirlit í sturtuklefum mjög gott, en annars staðar mjög lélegt.

Íþróttaæfingum er oft stjórnað af unglingum sem hafa hvorki þroska eða reynslu til að takast á við svona aðstæður og sjá ekki hvað er í gangi. Ef kennari í skóla og íþróttaþjálfari vinna saman í svona vandamálum, aukst líkurnar á því að hægt verði að uppræta þennan ósóma.

Ég hef sjálfur á mínum 20 ára ferli sem þjálfari, átt þátt í að uppræta einelti. tvisvar sinnum. Ég notaði áhuga gerendanna á viðkomandi íþrótt, til að beina þeim frá þessari hegðun. Þolandinn var líka í æfingahópnum. Ég lagði áherslu á að allir í hópnum væru saman sem lið innan vallar sem utan og hver og einn ætti að gæta bróður síns í þeim efnum. Ég straffaði ákveðna einstaklinga frá æfingum í tímabundið, til að koma skilaboðum mínum almennilega til skila. Sumir foreldrar voru fúlir, sögðu það ekki á minni ábyrgð að taka á þessu, en ég sagði það rangt. Ég stæði fyrir stórum þætti þeirra í frístundaiðkun og af hverju ætti ég ekki að taka á þessu eins og skólinn reyndi að gera. En þetta tókst, eineltið hætti og viðkomandi þolandi var allt í einu orðinn jafnmikilvægur hinum.

Ég tala af eigin reynslu í þessum efnum og veit hvað hægt er að gera í þessum málum ef fólk vinnur saman á öllum stigum vandamálsins.

Varðandi mataræði að þá er það vissulega á ábyrgð foreldra, alveg eins og tölvunotkun. Á mínu heimili einskorðast tölvunotkun við tímann frá kl. 18 og fram að mat. Það sama á við um sjónvarpsgláp. Krakkarnir fá að gera hvorugt utan þessa tíma, það er meginreglan. Við höfum líka tekið verulega á í ávaxta og grænmetisáti á heimilinu og þar förum við foreldrarnir fremst í flokki. Þetta hefur orðið til þess að nú þykir krökkunum þessi fæða mjög góð. Í staðinn fyrir tvær ristaðar brauðsneiðar í kaffinu, er komin ein og svo einn ávöxtur svona sem dæmi.

En margir foreldrar í dag eru uppteknir af öðru en uppeldi barna sinna. Þetta bryjar og endar á heimilunum, við getum verið hjartanlega sammála um það.

En enn og aftur takk fyrir þessar línur. Þarna hitti ég á áhugasvið þitt og það er bara gaman.

Karl Jónsson, 12.6.2007 kl. 12:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband