Jólin koma og fleira

Fínasta helgi að baki. Náðum nokkuð langt í jólaundirbúningi, það var bakað, laufabrauð steikt og gjöfum pakkað inn. Erum í raun komin ótrúlega langt miðað við að vera nýflutt. Hengdum upp myndir um helgina líka og vorum svo heppin að geta notað nagla sem fyrir voru. Fundum svo tíma til að skella okkur í sund á laugardagsmorguninn, alveg ljómandi góðir heitir pottar hér við sundlaugina, en ekki eins góðir og þessir á pallinum hjá okkur.

Fór á jarðarförina hjá Gústu frænku á laugardaginn. Amma gamla var seig og skellti sér líka. Fór ekki í erfidrykkjuna þar sem allt var á fullu við laufabrauðsgerð. Öll fjölskyldan sat og skar út laufabrauð í tvo tíma, hlustuðum á jólalög og átum smákökur, alveg topp jólastemning. Meira að segja krakkarnir höfðu áhuga á þessu og skáru og fléttuðu laufabrauðið af hjartans list.

Tvíreykta hangikjötið er komið upp í eldhúsinu, hangir þar á krók. Jólasveinarnir eru duglegir að fá sér bita á nóttunni þegar þeir koma með skógjafirnar. Reyndar fékk húsbóndinn athugasemd um að kjötið yrði nú búið af lærinu fyrir jólin með þessu áframhaldi.

Vorum með Katrínu Mjöll í heimsókn um helgina. Nýorðin þriggja ára skessan og eins og fram kom í síðasta bloggi höfum við ákveðið að taka hana til okkar helgi og helgi til að auðvelda mömmu hennar aðeins lífið. Kúkur, piss og æla var pakkinn, en hún var mjög góð og dugleg sú stutta, en hún hefur ekki umgengist okkur mikið og hvað þá gist mikið utan heimilis. Var harðákveðin í því að koma einhverntímann aftur.

Amma Stína og gamla settið úr Holtateig kom og sótti Katrínu Mjöll í gær. Fínt að fá þau í heimsókn og þeim líst vel á slotið okkar. Gerðu reyndar athugasemdir við gardínustangir í svefherbergi okkar hjóna en ég bað fólk að missa sig ekki yfir því, því við myndum redda þessu!! .....eins og öllu. Þau þáðu kaffi og meððí og það var mjög gaman að fá þau í heimsókn.

Engu líkara en við séum komin í nafla alheimsins, því Jón Brynjar frændi og Berglind ætla að koma í heimsókn í dag. Stöðugur gestagangur, enda var það tilgangurinn að færa sig aðeins um set á landinu til að auðvelda fjölskyldunni að kíkja á okkur. Það var fullreynt þarna fyrir vestan.

Átti að fara í próf í morgun í bókhaldi, en vegna tæknilegra örðugleika var því frestað til kl. 13. Tek það heima við eldhúsborðið í gegn um tölvuna og vonandi gengur það allt saman vel þrátt fyrir frekar lítinn undirbúning upp á síðkastið.

Var á góðum stjórnarfundi á föstudaginn og kominn með álitlegan verkefnalista eftir hann. Sannarlega spennandi verkefni í nýju vinnunni og það verður gríðarlega gaman að taka þátt í þessu mikla framfaraverkefni.

Jólabréfið er orðið klárt og nú vantar aðeins herslumuninn á að koma því út til valinkunnra vina og ættingja. Við höfum haft þann háttinn á að skrifa jólabréf þar sem við förum yfir árið. Fleiri og fleiri eru að taka þennan sið upp og skreyta þetta gjarnan með myndum. Skemmtilegur siður að mínu mati.

Það verður gaman að sjá hvað gerist í málefnum Byrgisins eftir Kompásþátt gærkvöldsins. Alveg ótrúlegt dæmi og karlinn í þvílíkt vondum málum sé þetta allt rétt. Búinn að fá fjárframlög frá ríkinu til að halda starfseminni úti og hef ég í það minnsta borið virðingu fyrir því sem hann var að gera. En ef þetta reynist síðan skálkaskjól fyrir pervertíska hugaróra mannsins þar sem hann hefur tælt stúlkur til kynlífsleikja er það auðvitað stóralvarlegt mál. Ég trúi því ekki að svo vandaðir aðilar eins og Sigmundur Ernir og fleiri á fréttastofu 365 færu að skella þessu í loftið nema að hafa konkret sannanir fyrir þessu. Þetta leiðir hugann að ábyrgð þeirra aðila sem skammtað hafa starfseminni fjármagn en ekki staðið sig í eftirlitsskyldu sem skildi. Erlendis væri þetta brottrekstrarsök embættismanna og jafnvel ráðherra, en hér á landi er siðferði pólitíkusa ekki á mjög háu stigi og sjaldan þurfa þeir að taka ábyrgð á gjörðum sínum eða sinna.

Mikið er ég rosalega feginn að við skulum ætla að fara í varnarsamstarf við Dani. Búnir að tala við Norðmenn og til að toppa varnir okkar legg ég til að Færeyingar verði kallaðir til leiks einnig. Þetta vekur allt saman mikla öryggistilfinningu.

Hef aðeins verið að fylgjast með fjárhagsáætlunarumræðum bæði hér í Skagafirði og fyrir vestan. Á báðum stöðum telja menn sig geta sparað í skólamálum, með sameiningu skólaeininga. Þetta er alltaf viðkvæm umræða en ég er persónulega á þeirri skoðun að "kostir fámennra skóla" séu stórlega ofmetnir og sérstaklega sú fullyrðing að kennarinn hafi þá bara "meiri tíma fyrir hvern og einn". Það hlýtur að vera betra faglega séð fyrir krakka að vera í bekk þar sem kennt er sama efnið fyrir stærri hóp heldur en að vera í fámennum skóla þar sem mörgum árgöngum er kennt í einu, mismunandi fög. Að ekki sé minnst á félagslega þáttinn og þann möguleika sem krakkarnir hafa á þeim vígstöðvum í stærri skóla. Meira um að vera og fjölbreyttara félagslíf. En þetta er bara mín skoðun. Það er líka eitt að færa kennsluleg rök fyrir svona breytingum, en hitt er að aka þarf börnunum um víðsjálverð svæði m.a. með tilliti til snjóflóðahættu og þar má ekki tefla á tvær hættur.

En það er deginum ljósara að staða sveitarfélaga í dag er þannig að menn hreinlega verða að taka sársaukafullar ákvarðanir og skera niður þar sem það er hægt. Íbúar geta ekki endalaust krafist þess að hafa alla þjónustu í topplagi og eins og hún gerist best á meðan sveitarfélagið safnar skuldum. Á meðan ríkið kemur ekki betur og stórmannlegar að málefnum sveitarfélaga verður að skera niður einhversstaðar. Það er alltaf erfitt og sársaukafullt. Trikkið fyrir pólitíkusa er að taka svona ákvarðanir á fyrsta ári kjörtímabils, því þegar kemur að næstu kosningum er líklegt að kjósendur verði búnir að "gleyma" eða búnir að sætta sig við og/eða aðlagast þeim niðurskurði.

Hilsen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heyrðu drengur hvað er málið ....ertu hættur að hafa skoðanir, alltaf að röfla um báðar hliðar viðkvæmra mála til að særa nú ekki neinn....ertu að fara í framboð eða.....

Var að hlusta á Mogo Pogo í dag. Voru þeir ekki með okkur í músíktilraunum um árið...og voru þeir ekki frekar asnalegir gaurar. Allavega var lagið sem ég datt niður á alveg eðal-hallæri.

Búinn að kaupa bók...

kveðja

áddni

Árni litli (IP-tala skráð) 19.12.2006 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband