Suðs við förum!

Jæja, við tókum þá ákvörðun áðan hjónin að skella okkur suður á bóginn. Fara á Skagann í kvöld og gista þar og halda síðan áfram í borg óttans á morgun. Hitta vini og vandamenn og bara leika okkur fjölskyldan. Fara í húsdýragarðinn á laugardaginn og skemmta okkur áhyggjulaus. Það er orðið allt of langt síðan við gerðum það síðast og síðustu vikur og mánuðir verið ansi strembnir. Við teljum okkur því eiga það inni að gera þetta.

Þannig að Suðvestlendingar varið ykkur á sveitinni sem er á leið suður.

Bloggið fer þá í hvíld þangað til á mánudaginn.


Kosningar eru hátíð barnanna

Já eins skrýtið og það hljómar þá eru kosningar að mörgu leyti hátíð barnanna. Ég geystist á milli kosningaskrifastofa með börnin á laugardaginn og þar á bæ hittu þau gjafmilt fólk sem gaukaði að þeim barmmerkjum, pennum og blöðrum og krakkarnir alsæl. Þau meta það úr frá gjafmildi og fegurð gjafanna hvaða flokkur sé nú bestur og sýndist sitt hverjum. Framsóknarkaffið heillaði þau upp úr skónum, barmmerkin hjá Sjálfstæðisflokknum og pennarnir hjá Samfylkingunni voru líka flott og nú svífa um húsið blöðrur í öllum regnbogans litum.

Svona eru kosningarnar í huga barnanna og gott að tengja eitthvað jákvætt við þær svona snemma, því það er ekki hvar sem er sem fólk hefur þann rétt að geta kosið.

Niðurstöður kosninganna komu ekkert sérlega á óvart og í samræmi við skoðanakannanir síðustu dagana fyrir kosningar.

Ég skil samt varla hvað Framsóknarflokkurinn er að hugsa með að ætla að fara í ríkisstjórn enn og aftur. Það er alveg ljóst að flokkurinn þarf á algjörri hreinsun að halda innan frá og það verða einhver læti og það er ekki gott þegar flokkur þarf að ganga í gegn um slíkt, að eiga sæti í ríkisstjórn, ég get bara ekki séð það. Og ekki hafa þeir mikið að bjóða það er alveg á hreinu og ekki fá þeir marga ráðherra. Hverjir fá þá ekki stóla? Verður Siv kastað út eins og venjulega? Missir Magnús stól á kostnað varnarsigurs Valgerðar í NorðAust? Jón Sig og Guðni verða pottþétt ráðherrar og ég veðja á Valgerði sem þriðja ráðherrann. Held að Framsókn geti varla treyst á fleiri stóla. Annars er Magnús búinn að standa sig vel í erfiðu ráðuneyti og það yrði sjónarsviptir af honum.

En það er svo sem ekki búið að kvitta undir neitt ennþá, þetta gæti farið á hvorn veginn sem er, en ljóst að Geir Haarde hefur alla þræði í hendi sér. Mín óskastjórn er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, frjálslynd velferðarstjórn, en við sjáum til.


Pabbi gamli sjötugur í dag

Mig langar til að nota þennan vettvang til að óska föður mínum til hamingju með 70 ára afmælið í dag.

Í kvöld verður veisla honum til heiðurs á Sunnuhvoli, nautasteik og tilheyrandi. Mamma verður síðan sjötug þann 3. júlí n.k. og þá verður aftur slegið upp gleðskap af einhverju tagi.

En til hamingju með daginn elsku pabbi, mér þykir vænt um þig gamli pungur og vonast til að njóta samveru við þig lengi í viðbót.


Til hvers að taka þátt í Eurovision - Ísland á ALDREI eftir að komast upp

Niðurstaðan í Eurovisionkeppninni í gærkvöldi eru ekki bara vonbrigði heldur endurspeglar hún líka þá staðreynd að Ísland á ALDREI eftir að komast upp úr undankeppninni, ef fjöldi laga frá A-Evrópu verður slíkur sem hann var í gær.

Þetta snýst ekki um gæði tónlistar því þarna fóru inn lög sem bæði voru slök og þar sem söngurinn var hreinlega rammfalskari en nokkur réttarsöngur í Skagafirði. Búgaría sem dæmi, fyrsta lagið, var hrein hörmung og ég vorkenndi stelpugreyinu gaulandi rammfalskt þarna á sviðinu. En bíddu við, af því að Búlgaría er umlukin vinveittum þjóðum þá að sjálsögðu komust þeir áfram. Niðurstaðan er að þau komust ekki áfram á gæði lags eða flutnings.

Danir og Norðmenn áttu sína fulltrúa þarna og Danskurinn var svo illa falskur líka að það var hreinlega ekkert skrýtið að hann kæmist ekki áfram. En Norðmenn með fínt lag og góðan flutning komust heldur ekki áfram.

Það er maðkur í mysunni og það er vert að spyrja sig hvort að það sé þess virði að eyða tugum milljóna til að keppa í keppninni úti. Höldum frekar góða keppni hér heima hér eftir sem hingað til en látum þar við sitja.


Kosninga- og júróvisjónhátíðir framundan

Það er óhætt að segja að það séu skemmtilegir tímar framunda. Tónlistaráhugamaður eins og ég hef alltaf haft gaman af Evróvisionkeppninni og þegar krakkarnir hafa svona gaman af þessu líka myndast skemmtileg fjölskyldustemning í kring um þennan viðburð. Ég man það í fyrra að krakkarnir spiluðu evróvisiondiskinn fram eftir öllu sumri og voru farin að kunna mörg lög utan að, að sjálfsögðu án þess þó að vita um hvað þau voru að syngja, en það er nú önnur saga.

Ég man eftir skemmtilegum evróvisionleik sem ég fór í á Ísafirði í góðra vina hópi hjá Rúnari Rafnssyni sem var mixermaður og sérlegur aðstoðarmaður okkar í 80's ballprógramminu í hljómsveitinni Eidísi. Þá fengum við blað þar sem við áttum að gefa hverju lagi einkunn frá 1-10. En það var ekki bara lagið sem átti að fá einkunn, heldur líka söngurinn, búningarnir og sviðsframkoman. Stigin voru svo talin saman og þá kom í ljós í hvaða sæti lögin röðuðust. Spurning um útfærslu á þessum leik í undankeppninni í kvöld.

Þó held ég að ef Eiríkur kemst ekki áfram verði spennan hjá mér ívið minni á laugardaginn, og mun ég þá spennast upp fyrir kosningaúrslitin fyrr en óhætt gæti talist. Og ég er reyndar mjög svartsýnn á að Ísland komist áfram, atkvæðagreiðslan er eitthvað dularfull og skiptir engu máli þó lagið sé gott eður ei.

Ég er algjört kosninganörd, ég er þessi týpa sem skrifa niður nýjustu tölur og spái og spekúlera í þeim þangað til þær næstu koma.

Þannig að þegar allt er tekið saman, verður veisla næstu daga. Góða skemmtun!!


Fjarnám - þvílík snilld, prófdagur í dag

Ég sit hérna fyrir framan tölvuna mína og bíð eftir að próf í áfanganum Rekstur smáfyrirtækja hefjist í Háskólanum á Hólum. Það opnar á netinu kl. 09.00 og verður opið til kl. 10.30.

Fyrir þá sem ekki vita þá stunda ég fjarnám í ferðamálafræði vði Háskólann á Hólum. Ég var í nokkur árin búinn að leita fyrir mér að námi sem gæti hentað mér, bæði mínu áhugasviði og því daglega lífi sem ég lifi í dag. Ég datt síðan niður á þetta nám í fyrra og skráði mig til leiks í haust og sé ekki eftir því. Ég er mikill áhugamaður um ferðaþjónustu, vann um árabil á Hótel Stykkishólmi og fannst það mjög skemmtilegt. Ég hef hug á því að fara út í sjálfstæðan rekstur einn góða veðurdag og þá er alveg ljóst að þetta nám kemur til með að styðja mig vel í því.

Hægt er að taka fyrsta árið í fjarnámi og eftir að því er lokið getur maður útskrifast með svokallaða diplomagráðu. Hún gefur mér t.d. réttindi staðarvarðar, hefi ég áhuga á því. En ég þarf að taka verknám líka og stefni á að gera það næsta sumar.

Námið er mjög hagnýtt. Mér býðst í diplomanáminu að taka t.d. kúrs í bókhaldi, rekstri smáfyrirtækja, markaðsfræði og allt yfir í göngustígagerð. Síðan skipar umhverfisfærði veglegan sess í málinu og þar fær maður að kynnast málefnum umhverfisins og lærum um skipulag ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Ég mæli hiklaust með þessu námi, það er vel skipulagt og vel fram sett fyrir okkur fjarnema og með skipulagningu gengur þetta allt upp með fullri vinnu og stóu heimili. Nánari upplýsingar má sjá hér.

En nú ætla ég að hella meira kaffi í bollann, setja mig í stellingar og skella mér í prófið.


Valgerður búin að tapa kosningunum í hjarta sínu

Yfirlýsing Valgerðar um að Framsóknarflokkurinn fari ekki í ríkisstjórn verði kjörfylgið með þeim hætti sem skoðanakannanir lýsa þessa dagana, hefur vakið nokkra athygli. Ekki verða svona úrslit gott veganesti fyrir nýja formanninn að taka með sér í flokksstarfið eftir kosningar.

Ég held að Valgerður sé búin í hjarta sínu að tapa kosningunum og sætta sig við dapra niðurstöðu því hún er með plan. Hún getur þá með góðri samvisku gagnrýnt núverandi forystu flokksins og hrundið af stað hallarbyltingu. Þar ætlar hún sér veglegan sess hef ég trú á. Hún er farin að hugsa um lífið eftir kosningar. Það væri erfiðara að gera hallarbyltingu ef flokkurinn væri í ríkisstjórn og honum mikið í mun að halda andlitinu þar.

En ef Framsóknarflokkurinn ætlar einhvern tímann að ná sínu "gamla og góða" fylgi, verða þeir að endurnýja kynni sín við grasrótina í flokknum sem þeir hafa yfirgefið og traðkað á undanfarin ár. Hvort Valgerður sé rétta manneskjan í það skal ósagt látið, en ég er viss um að hún gerir atlögu að flokksforystunni verði niðurstaðan slök.


Norðurland á að vera eitt kjördæmi

Þessi kjördæmaskipan finnst mér arfavitlaus. Manni finnst að hagsmunir landssvæða eigi að ráða mestu í skiptingu kjördæma úti á landi, því atkvæðavægi og fleiri tæknilegar útfærslur er alltaf hægt að sansa til.

Samgöngur og samgangur á að vera eitthvað sem býr til kjördæmi. Ef við lítum á samgöngur þá eiga Vestlendingar og Vestfirðinga miklu meiri sameiginlegra hagsmuna að gæta en Vestfirðingar og Norðvestlendingar. Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum koma til með að aka í gegn um Hólmavík, eftir Tröllatunguvegi og yfir í Dalina á leið sinni til Reykjavíkur innan fárra ára. Suðurfirðingar taka annað hvort Baldur yfir Breiðafjörð eða aka landveginn í gegn um Dalina á leið sinni suður. Með þessu móti tengjast þessi tvö byggðarlög í nútíð og framtíð og samgangur milli Vestfirðinga og Vestlendinga á eftir að aukast með þessu móti.

Akureyri er skilgreind sem byggðakjarni sem ber að styrkja skv. byggðaátælunum. Gott og vel. Norðvestlendingar og Þingeyingar eiga að eiga sinn þátt í þeirri uppbyggingu með því að sækja þangað vörur og þjónustu sem ekki er að finna á heimavelli. Með norðurkjördæmi yrði Akureyri miðpunkturinn í því kjördæmi og norðlendingar gætu þá sameinast um hann sem höfuðstað norðurlands beggja vegna hans.

Burt með þessa kjördæmaskipan sem fyrst, stokkum hana upp og setjum landsvæði saman í kjördæmi sem sameiginlegra hagsmuna eiga að gæta.


Alvöru vélhjólabraut á Króknum

Sannarlega ánægjulegar fréttir fyrir vélhjólaáhugamenn og aðra íþróttaunnendur að nú er komin alvöru motocrossbraut á Króknum. Heljar æfingar voru þar nú um helgina og í júlí er áætlað að halda bikarmót. Þá kemur fullt af fólki í bæinn því svona keppni fylgir alveg ótrúlegur fjöldi fólks. Gott fyrir ferðaþjónustuaðila en það er vonandi að það verði pláss fyrir þetta fólk í gistingu. Annars er það bara tjaldstæðið.

Hvet ykkur til að lesa þessa frétt HÉR á skagafjörður.com


Now we're talking!

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leita eftir viðræðum við ríkisvaldið um að hefja starfsemi meðferðarheimilis að Núpi í Dýrafirði. Þetta er "win-win-win" staða ef svo má segja, eflir atvinnuna á svæðinu, nýtir byggingarnar að Núpi og kemur fleiri börnum og unglingum í meðferð.

Þarna er um raunverulegan kost að ræða að mínu mati. Náttúran í kring um Núp er ákaflega falleg, þarna er friðsælt og byggingarnar bjóða sannarlega upp á þenna möguleika.

Vona að þetta hljóti hljómgrunn.

Sjá nánar á bb.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband