Miðvikudagur, 21. mars 2007
Gleraugun fuku - í orðsins fyllstu!! Gleraugnaharmsaga
Ég varð fyrir einkennilegri reynslu nú í eftirmiðdaginn. Svo einkennilegri að ég bara verð að deila henni með ykkur.
Ég var að fara út með ruslið eins og góðum húsbónda sæmir. All hvasst var úti, sunnan helvítis rok og það gekk á með all snörpum hviðum. Ekki var þetta þó það slæmt að ég haggaðist en þeir vita sem þekkja, að það þarf meira en stormviðvörun til að lyfta mér frá jörðu.
En þar sem ég lýk við þann hreinlætisgjörnin að fleygja pokunum ofan í ruslatunnuna, sný ég frá og loka hliðinu. Þegar ég er síðan á gangi norðan megin við húsið og á leið inn, bregður svo við að heljarinnar vindhviða gengur yfir. Ekki vill betur til en svo að vindurinn kemst inn fyrir gleraugun mín og sviptir þeim af kartöflunni í einu vetfangi. Skiptir engum togum að gleraugun fjúka af andlitinu á mér, niður á jörðina og taka skrið niður götuna á ógnarhraða. Ég stóð sem stjarfur eftir og trúði varla mínum eigin augum og allra síst náttúrlega eftir að gleraugun voru fokin. Ég sé í móðu þar sem gleraugun fljúga í áttina að Aðalgötunni á fleygiferð. Ég bregst snarlega við og tek á rás á eftir þeim. Þá vill ekki betur til en svo að þau fara yfir snjó og klaka og eru þar með horfin sjónum mínum (ekki það að ég sæi neitt vel sko), því þau voru glær í gegn, engin umgjörð eða neitt þannig sem skorið gæti þau úr í snjónum. Ég svipaðist um þarna í dágóða stund, en sá ekki neitt - hafi einhver haldið það.
Við tók brjálæðislegur hlátur og ég hló og hló í langan tíma á eftir. Þetta var bráðfyndið þegar öllu er á botninn hvolft þó missirinn sé talsverður. Þegar konan kom heim útskýrði ég fyrir henni hvað hafði gerst. Hún hló ívið meira en ég, gekk þarna niður eftir og svipaðist um eftir gleraugunum en fann ekki neitt þó alsjáandi sé. Nokkra linsugarma átti ég í baðskápnum og fóru tvær þeirra forgörðum áður en ég kom öðrum tveimur í augun nokkuð skammlaust. Var ég þá orðinn rauðeygður og illa særður á báðum augum við að troða þessu helvíti í andlitið á mér. Kvíði all mikið fyrir morgninum.
Þessi atburður rifjaði upp annað atvik sem gerðist að mig minnir 92 eða 93. Þá fór ég á körfuboltaæfingu eins og maður gerði á hverjum degi á þeim árum. Ég fór inn, klæddi mig í æfingaföt og fór á æfingu. Eftir æfinguna þegar ég var að klæða mig seildist ég í buxnavasann til að sækja þáverandi gleraugu. Ekki voru þau þar og í hvorugum vasanum. Heldur ekki í jakkanum sem ég var í. Ég hugsaði með mér að ég hlyti þá að hafa tekið þau af mér í bílnum. Og ég fer út í bíl. Sest inn og svipast um eftir gleraugunum. Engin finn ég gleraugun og fóru nú að renna á mig tvær. Ég fer aftur inn í íþróttahús, spyr húsverðina, leita betur en án árangurs. Djöfullinn hafi það, hugsaði ég með mér, ekki fór ég gleraugnalaus að heima áðan. En það þýddi ekkert að velta sér upp úr þessu. Það skal tekið fram að ég er með mínus 1.5 í sjón og hef verið það síðan ég byrjaði að nota gleraugu 80 og eitthvað.
En hvað um það, ég sest upp í bíl, set í gang og bakka frá. Þegar ég er búinn að bakka svo sem hálfa bíllengd frá, sé ég glampa á eitthvað á jörðinni fyrir framan bílinn. Ég stekk út, fer fyrir framan bílinn og viti menn!! Þar voru helvítis gleraugun gjörsamlega í spaði enda var ÉG SJÁLFUR BÚINN AÐ KEYRA YFIR ÞAU!! Hvað ætli það séu margir sem hafi keyrt yfir gleraugun sín.
Ég hugsaði með mér, það var bara eins gott að ég var ekki með þau á hausnum þegar þetta gerðist!!
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir skemmtilega lesningu...
Fishandchips, 21.3.2007 kl. 21:51
Takk fyrir yndislega fyndnar gleraugnasögur, alveg óborganlegt og mjög myndrænt! Sá þetta alveg fyrir mér, hlaupandi hálf blindur eftir fjúkandi gleraugum :) Þetta síðastnfefnda hefur reyndar verið gert, man ekki hvaðan úr sveitinni hann var sá, en hann var að horfa aftur með bílnum í snjóskafli og ófærð þegar ekki vildi betur en hann datt út og ók yfir hausinn á sér. Sagan segir að það hafi verið mjúkt undir og hann ekki versnað mikið við óhappið :)
Jón Þór Bjarnason, 21.3.2007 kl. 22:04
Þá er bara að drífa sig í svona lazer aðgerð. Ég sé að það er verið að auglýsa svona aðgerðir í Bretlandi á um 100.000 fyrir bæði augu. Ef ég man rétt kostar þetta 3-400.000 á Íslandi. Semsagt góður hagnaður af því að láta laga augun og fara á völlinn í leiðinni. Ég hef nú samt ekki þorað ennþá
Unnar Rafn Ingvarsson, 21.3.2007 kl. 22:29
Jú bródir sæll mikill er máttur vindsins á skerinu. Vildi bara minna tig á ad einu sinni vard svo hvasst á Kjalarnesinu fordum ad tar fauk járnkall.
En tad var nú gott ad tad voru adeins gleraugun sem tú keyrdir yfir tarna um árid en ekki hausinn eins og kom nú fyrir ónefndan orginal á króknum hér fordum daga.................
Fridrik Jónsson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 13:09
Þetta er kannski skagfirskt fyrirbæri, rok sem rífur af fólki gleraugun. Ég veit ekki hvort ég á að segja frá því en þetta kom fyrir dóttur mína útá Hofsós - gleraugun fuku af nefinu á henni á leiðinni úr Höfðaborg útí Grunnskóla og hafa ekki sést síðan þau fleyttu kellingar út götuna og stefndu í sjó fram. Annars er auðvitað alltaf blessuð blíða hér í Skagafirði...
Guðrún Helgadóttir, 23.3.2007 kl. 13:52
Held að þú hefðir bara átt að halda þig í logninu hér fyrir vestan
Ingólfur H Þorleifsson, 25.3.2007 kl. 17:39
Vindheld gleraugu eru svarið, gleraugu sem þola íslenska veðráttu. Ef þið setjið ykkur í spor gleraugna á Íslandi er það örugglega ekkert sældarlíf. Sama daginn að þurfa kannski að þola norðan garra og snjókomu um morguninn, sem síðan þróast hægt og rólega yfir daginn í sunnan rok og rigningu. Svona er að vera gleraugu á Íslandi.
Karl Jónsson, 26.3.2007 kl. 08:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.