KFÍ með fimm útlendinga næsta vetur - metnaður eða fífldirfska?

Jæja þá eru KFÍ-menn að styrkja sig enn meira með fimmta útlendingnum. Ljóst að liðið þeirra verður firnasterkt og þeir eru stórhuga Ingólfur og vinir mínir fyrir vestan. Eitthvað hlýtur þetta að kosta.

Eða hvað?

Þarna verður slegið met í fjölda erlendra leikmanna í einu körfuknattleiksliði á Íslandi og það er áhugavert að skoða þetta í sögulegu samhengi, því ég minnist þess ekki að fleiri útlendingar en þrír hafi verið í íslensku körfuknattleiksliði, eða kannski fjórir í einhverjum undantekningartilfellum.  

Ef allir þessir leikmenn væru með 150 þúsund á mánuði í 7 mánuði, erum vð að tala um bara launakostnað upp á meira en 5 milljónir. Þá á eftir að greiða ferðakostnað sem er ekki lítill. En ég hef líka heyrt að flestir þessara karla séu án launa frá félaginu og komi fyrir atvinnu og húsnæði.

Er þetta metnaður eða fífldirfska?

Ég bið fólk að taka þessum vangaveltum ekki illa, það er ekki meiningin að skjóta á einn eða neinn, en hérna erum við vissulega að tala um kaflaskil í íslenskri körfuknattleikssögu sem vert er að ræða aðeins um og skoða. Það sem vekur kannski mesta athygli er að þetta er lið í 1. deildinni. Sambönd sem félagið hefur fengið í gegn um frábæran þjálfara sinn Borce Ilievski eru ómetanleg og það sannast þessa dagana.

En hvað rekur félög til að fara þessa leið?

Er þetta svar landsbyggðarliða við fólksflótta og litlum vilja íslenskra leikmanna til að koma út á land og spila? Það hefur oft verið talað um að landsbyggðarlið eigi auðveldara með að ná í styrki og koma þau til með að nota þessa styrki í auknum mæli til að fá leikmenn að utan?

Hér á Sauðárkróki er svipaða sögu að segja, fáir leikmenn og þörf á að styrkja hópinn og bæta við leikmönnum. Íslenskir leikmenn tregir til að koma, það þykir ekki lengur spennandi að fara út á land að spila. Hingað hafa komið landsþekktir leikmenn í gegn um tíðina eins og Valur Ingimundarson, Pétur Guðmundsson, Páll Kolbeinsson, Sverrir Þór Sverrisson, Pétur R Guðmundsson og fleiri, en þetta er liðin tíð. Á Ísafjörð fóru leikmenn eins og Guðni Ólafur Guðnason, Hrafn Kristjánsson, Ósvaldur Knudsen, Ólafur Jón Ormsson, Halldór Kristmannsson, Sveinn Blöndal og fleiri snillingar.

Hver er ástæðan? Er það neikvæð umræða um landsbyggðina sem hefur áhrif á þetta? Eða sækja ungir leikmenn nám af meira kappi en áður þekktist og vilja því vera í hringiðu þess í háskólum í Reykjavík?

Í mínum huga er það orðin standard lausn að hafa þrjá erlenda leikmenn. Og ég skal ganga lengra og segja mína skoðun á því hvernig leikmenn það eiga að vera; evrópskur leikstjórnandi, evrópskur miðherji og fjölhæfur kani. En það er önnur saga.

Heilt byrjunarlið af útlendingum eru vissulega tíðindi, en körfuboltinn er mjög glóbalíseruð íþrótt og í velmegun okkar íslendinga er ekki ólíklegt að hingað komi leikmenn hreinlega í leit að betra lífi. Körfuknattleiksfélög eiga að grípa gæsina að mínu mati en gleyma samt ekki því sem skapar þetta allt; barna- og unglingastarfinu!! Það er efni í annan pistil.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu fyrir vestan, það verður gaman að sjá hvað t.d. Tindastóll verður með marga útlendinga næsta vetur og hver þróunin verður almennt hjá landsbyggðarliðum á næstu árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Sæll Kalli.

Það er rétt hjá þér að við erum nokkuð stórhuga hér fyrir vestan núna. Ég get samt lofað þér að við erum ekki að safna einni krónu í skuldir þó svo að veltan verði mikil. Á síðasta vetri var hagnaður af starfseminni þrátt fyrir marga útlendinga. Eins og þú veist vel þá er líka mikill metnaður í unglingastarfinu hjá okkur og þú tókst nú sjálfur þátt í nokkur ár að byggja upp unga menn sem voru tíu fyrir þremur árum, nú eru tveir eftir. Hvað er til ráða hjá okkur sem höfum gaman að þessari íþrótt þegar við sjáum fram á að hafa ekki lið ?

Í okkar augum eru fjórir af þessum mönnum bara einstaklingar sem koma frá austur Evrópu til að hafa atvinnu eins og þusundir annara austur Evrópubúa gera. Við höfum náð saman mjög öflugum hóp sem vinnur að hag körfunnar á Ísafirði og við ætlum okkur stóra hluti á komandi árum. Þar átt þú nokkuð stóran þátt félagi því að þú fannst Borce fyrir okkur, auk þess sem þú komst mér inn í þetta starf fyrir morgum"hárum".

Ingólfur H Þorleifsson, 26.7.2007 kl. 18:45

2 Smámynd: Karl Jónsson

Já Ingólfur þið eruð stórhuga, ekki spurning og gaman að því. Þetta er ykkar svar við manneklu því menn með metnað leita leiða til að leysa þau vandamál sem upp koma. Lykilmálið eru að þekkja rétta menn í réttu samböndunum og það hafið þið svo sannarlega gert.

Hlakka til að fylgjast með ykkur í vetur. Og nú verður Svenni karlinn að vera duglegur í endurhæfingu, því ef hann sinnir henni vel, gæti hann jafnvel komið sterkari til leiks en áður.

Karl Jónsson, 27.7.2007 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband