Föstudagur, 29. júní 2007
Vikufrí framundan
Eftir vinnudaginn í dag fæ ég alveg heila viku í sumarfrí. Við stefnum á útliegu viku, fellihýsaþeysireið um landið. Rebekka Rán kom í gærkvöldi og verður með okkur í viku.
Ljóst að lítið verður um blogg á meðan fríinu stendur.
Lfið heil.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. júní 2007
Ray Allen í Boston búning
Þá liggur niðurstaða leikmannavalsins fyrir í NBA, Boston skipti á fimmta valrétti sínum, Delonte West og Wally Szczerbiak fyrir Ray Allen og valrétt nr. 35, þar sem þeir tóku Gabe Pruitt.
Nánari upplýsingar á heimasíðu Celtics.
Sakna ennþá Evrópsks "touch" í Celtics, það vantar einhvern Evrópskan haus í liðið.
En ég kem til með að tjá mig um þetta draft síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 28. júní 2007
Hvað gerir Boston Celtics í nýliðavalinu í kvöld?
Spennan vex með hverjum klukkutímanum fram að NBA-leikmannavalinu sem verður í kvöld, eða nótt að íslenskum tíma. Allir helstu spekingarnir eru vissir um að Greg Oden og Kevin Durant verði þeir tveir fyrstu sem valdir verða, en eftir það er allt opið.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hið forna stórveldi Boston Celtics í kringum leikmannavalið. Margt grænt Boston hjartað sló ört þegar happdrættið fór fram í maí, sem skar úr um röð liðanna í leikmannadrættinum. Boston með slakasta árangurinn í Atlantshafsdeildinni átti ágæta möguleika á að lenda nr eitt eða tvö, en heilladísirnar voru ekki á bandi okkar grænleitu aðdáenda því liðið lenti í 5. sæti.
Strax og þetta varð ljós fóru allskonar sögur í gagn. Reyndar hafa sögurnar af Danny Ainge leitandi að skiptum með valréttinn farið eins og eldur í sinu um NBA-heiminn og nokkuð víst að karlinn hefur reynt ýmsar leiðir til að vinna með það.
Boston átti að vera eitt þeirra liða sem kom að hugmyndum um tilfærslu Kevins Garnetts frá Minnesota, en hann afþakkaði það tækifæri pent og samkvæmd fjölmiðlum og spekingum vestan hafs er hann trúlega á leið í Lakers.
Fleiri tilraunir á Ainge að hafa gert til að skipta á valréttinum plús 1-3 leikmönnum í viðbót fyrir reyndan leikmann, alvöru leikmann, en hann hefur ekki haft erindi sem erfiði. Hugsanlega skiptir þar mestu máli að hann sé ekki tilbúinn að gefa frá sér einn efnilegasta leikmann sem klæðst hefur Boston treyjunni í árafjöld, Al Jefferson. Hann er 22 ára og lauk sínu öðru ári með Celtics nú á vordögum (eða var það fyrr, þeir voru svo langt því að komast í úrslitakeppnina!) og er ein helsta vonarstjarna liðsins. Heyrst hafa sögur um að viðskipti með valréttinn hefðu verið möguleg við ýmis lið ef Jefferson hefði fylgt með í pakkanum, en blessunarlega virðist Ainge hafa skellt símtólinu á þá aðila sem það vildu.
Hugmyndir að skiptum á Paul Pierce til annars liðs hafa líka verið viðraðar af spekingum vestanhafs, en menn virðast ekki tilbúnir að taka hann til sín, finnst hann einfaldlega ekki nógu góður og Boston eru ekki líklegir til að hagnast á viðskiptum með hann. Mörgum finnst hann ofmeta sjálfan sig og í viðtali um daginn sagðist hann vonast til þess að Celtics næði í co-star fyrir sig, en talaði ekki um all-star leikmann, heldur co-star. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum fjölmiðlamanninum í Bandaríkjunum og fannst þeim þetta viðhorf lýsa ákveðnum hroka og ofmati á eigin ágæti. Pierce þykir bara hreinlega ekki vænn kostur í leikmannaskiptum.
Jermaine O´Neal hjá Indiana hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur leikmaður fyrir Boston, ég hugsa að hann gæti vel komið að notum fyrir liðið, en ekki í skiptum fyrir Jefferson. Auk þess sem talið var að orðaskipti milli hans og Ainge í vetur hafi ekki verið til þess fallin að liðka til fyrir slíkum samningum. Ainge sagði honum að hætta að væla þó komið væri við hann og O´Neal svaraði því til að Ainge ætti að einbeita sér að því að gera það sem hann ætti að gera, ekki veitti nú af. Líklega hefur Larry Bird glott í laumi yfir þessum orðaskiptum.
Ofan á allar vangaveltur um skipti Boston á fimmta valréttinum bætist það að félagið býr einfaldlega ekki yfir sama aðdráttarafli og það gerði hér á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda, tímabil sem oft er kennt við Larry Bird, þann mikla snilling. Þetta fornfræga félag varð síðast meistari 1986 og komst síðast í úrslitaseríu ári síðar. Dæmalaus óheppni elti liðið um árabil, t.d. þegar Len Bias sem liðið valdi í nýliðavalinu 86, lést aðeins tveimur dögum eftir að hann var valinn, 23 ára gamall, Reggie Lewis ein helsta stjarna liðsins eftir að Bird hætti, lést úr hjartaáfalli 1993 aðeins 28 ára gamall og fleira mætti tína til. Árin eftir þetta voru ýmsar skrýtnar ákvarðanir teknar á skrifstofu félagsins, bæði varðandi leikmannamál og þjálfararáðningar og má segja að félagið hafi vart borið barr sitt síðan af neinu viti.
Þeir félagar Paul Pierce og Antoine Walker kepptust síðan um það á tímabili hvor þeirra skaut meira og var það mál manna að Boston liðið hefði þurft tvo bolta til að spila með þegar stjörnur þeirra skinu sem hæst.
En eins og staðan er í dag, eru mestar líkur á því að Boston Celtics nýti valrétt sinn í nótt, að þeir velji nr. 5 eins og áætlað var og þar eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Ég panta hér með Kínverjann Yi Jianlian sem telur ein sjö fet upp í loftið en hefur skot á við mýksta bakvörð og býr yfir góðum hraða miðað við stærð.
En eins og áður koma mínar hugmyndir vart til álita frekar en fyrri daginn, ekki frekar en þegar ég vildi á sínum tíma ráða Bird sem þjálfara Celtics. Öll vötn runnu í þá átt og helstu spekingar, þar á meðal ég, bentu á þennan augljósa möguleika, en þess í stað ákváðu forráðamenn félagsins að leita ráða hjá Bird sem móðgaðist að sjálfsögðu og benti þeim á Rick Pitino til að hefna sín, en það má í það minnsta ímynda sér miðað við árangurinn sem sá ágæti þjálfari náði.
En við Boston menn snúum ekki baki við okkar ástsæla liði, við stöndum með því í gegn um súrt og sætt.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. júní 2007
Paul Pierce hittir Mini-Me á götu
Rakst á skemmtilegt myndbrot með Paul Pierce helstu stjörnu Boston Celtics, þar sem hann hittir fyrir á götu hinn smávaxna leikara sem lék Mini-Me svo eftirminnilega í Austin Powers myndunum.
Skoðið þetta hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 25. júní 2007
Vannýtt mannvitsbrekka
Loksins hafa menn opnað augun fyrir því að David Beckham getur bjargað heiminum með knattspyrnunni.
Það hlaut að koma að þessu!!
Legg til að Dennis Rodman verði fenginn til að halda næsta fyrirlestur í þessum ágæta háskóla.
![]() |
David Beckham flytur háskólafyrirlestur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Ein gömul saga úr brannsanum
Við Herramenn vorum eitt sinn að spila á balli í Búðardal að mig minnir. Við áttum oft fín böll í Dölunum og á Ströndum. Yfirleitt hvar sem við vorum að spila rötuðu inn á böllin náungar sem vor í leðurdressi frá toppi til táar, sítt hár, eyrnalokka og voru þessar týpísku þungarokkaratýpur. Þeir stilltu sér gjarnan upp aftarlega í salnum og horfðu með mikilli vanþóknun á þessa léttpoppuðu danshljómsveit. Oftar en ekki komu þessir náungar upp að sviðinu og báðu um svakalega hevímetal óskalög sem við sjaldnast gátum orðið við. Fengum yfirleitt kalt augnaráð fyrir vikið frá þessu piltum.
En aftur að ballinu í Búðardal. Það komu inn tveir svona hevímetalgæjar, í leðurjökkum og með allar græjur, hölluðu sér upp að súlu á dansgólfinu og mældu okkur út. Við hugsuðum allir, að nú væri þess ekki langt að bíða að þeir spígsporuðu að sviðinu og bæðu um óskalag, eflaust með Metallicu eða slíkum sveitum.
Jújú, það stóð á heima, þeir komu upp að sviðinu á milli laga, kölluðu í Stjána og báðu um óskalag. Fullur tortryggni sagði Stjáni það auðsótt mál ef við gætum spilað það. Sjáum við síðan hvað mikill undrunarsvipur færist yfir andlit Stjána sem síðar breytist í breitt bros og hlátur. Lagið sem þeir þungarokksbræður báðu um var "Lóa litla á Brú"!!!
Við tókum það að sjálfsögðu og þeir félagarnir flösuþeyttu sem aldrei fyrr.
Svona var nú þetta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Gagnaveita Skagafjarðar í risastórt verkefni
Þetta er fyrirtækið sem ég vinn hjá. Ég réðst til starfa sem verkefnastjóri um síðustu áramót og við erum að fara að hleypa af stokkunum stóru og umfangsmiklu verkefni sem hefur það markmið að koma Skagfirðingum í fremstu röð í möguleikum á nýtingu upplýsingatækni.
Nú á næstunni munum við hefja framkvæmdir við lagningu ljósleiðara inn á hvert heimili á Sauðárkróki. Samhliða því ætlum við að byggja upp háhraðatengingar í dreifbýli Skagafjarðar og tengja þessi tvö kerfi saman.
Þetta er mjög stórt verkefni sem keyrt verður í gegn á næstu tveimur árum og það er virkilega spennandi að taka þátt í þessu.
Vinir og ættingjar hafa spurt mig mikið um þetta verkefni og ef þið viljið fræðast nánar um það þá getið þið heimsótt heimasíðu Gagnaveitu Skagafjarðar á slóðinni www.skv.is/gagnaveita
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júní 2007
Svabbi á afmæli í dag
Jæja þá er kvenréttindadagurinn runninn upp. Hann er mér persónulega nú ekki minnisstæðastur fyrir það heldur í dag á Svavar vinur minn Sigurðsson afmæli. Hann er 38 ára í dag. Hann er ostameistari í Mjólkursamlagi Skagfirðinga, skrautfiskaræktandi og meindýraeyðir, fer vel saman er það ekki? Svavar á trillu og mótorhjól og líka stóra og yndislega fjölskyldu.
Ég gæti ritað hér heillanga afmælisfærslu til heiðurs afmælisbarninu, enda frá mörgu að segja, en læt það vera að þessu sinni. Til hamingju með daginn elsku karlinn minn.
Ég á slatta af myndum af Svabba, set þær kannski inn síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 15. júní 2007
Alveg ótrúlegt
Ég trúði vart mínum eigin augum í morgun þegar ég renndi yfir moggann með morgunkaffinu.
Sigmundur Steinarsson, einn helsti vörður handknattleiksins meðal fjölmiðlamanna á Íslandi, kemur þar sínum persónulegu skoðunum á framfæri um heiðursformann HSÍ á heilli síðu.
Fínt að hafa útbreitt morgunblað til að að koma svona persónulegum skoðunum á framfæri.
Af hverju bloggar maðurinn ekki eins og við?
![]() |
Fyrirgefðu – Jón Hjaltalín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
"Þetta er mín fjósalykt"
Gærdagurinn var hreint ótrúlegur hér á Krók.
Vaknaði upp í 5 gráðu hita og skýjuðu veðri, en seinni partinn var komið alveg magnað veður og sannkallaður hitapottur á pallinum góða. Konan fór í heita pottinn, sem mér fannst vera of heitur til að fara í miðað við lofthitann og fór frekar að vökva blómin. Ég er ekki alltaf þessi týpa sem getur legið kyrr í sólbaði.
Í gærkvöldi fórum við hins vegar að veiða niður í fjöru. Niður á sand eins og við köllum þessa paradís. Fullt, fullt af fiski þó við höfum aðeins náð einum vænum, 2-3 punda sjóbirting. Það var allt morandi af fiski í sjónum. Logn og sjórinn nær spegilsléttur og dásamlegt að vera þarna. Eyjarnar fögru úti á firði og náttúra Skagafjarðar skartaði sínu fegursta. Yndislegur sjávarilmur umlék okkur, vélarhljóð úr siglandi trillum í fjarska, kríurnar stungu sér niður á æti, æðarfulginn tók ungviðið í sundæfingu og mávarnir syntu um lygnan sjóinn. Eitthvað fannst konunni þessi sjávarlykt ekki neitt sérstök, en eins og margir vita rennur sveitablóð í hennar æðum. Ég sagði þá bara við hana; "Þetta er mín fjósalykt" og hún skildi alveg hvað ég átti við.
Eftir veiðitúrinn skruppum við hjónin upp á Nafir, sem er sveitin okkar bæjarbúa, þar hittum við fyrir ansi hreint gæft folald og var ekki laust við að elsku sveitakonan mín fyndi til uppruna síns þarna.
En þetta er sælan á Króknum, fiskur í fjörunni og folöld og lömb á Nöfunum.
Í gær fann ég strákinn í mér, ég rifjaði upp allar veiðiferðirnar niður í fjöru og gönguferðirnar upp á Nafir. Það var ánægjulegt að kynna þennan heim fyrir konunni og ég get ekki beðið eftir því að krakkarnir komi aftur, þá get ég sýnt þeim þennan heim sem átti stóran þátt í að móta mig þegar ég var barn. Þá lærði ég að meta hvaða lífsgæði felast í því að búa hér, hingað er ég aftur kominn og hér ætla ég að njóta þess að búa og vera til.
Annars er stefnan sett á fyrsta fellihýsaferðalagið um næstu helgi, ætlum í Eyjafjörðinn, hirðum krakkana upp þar og ætlum að eyða tímanum í faðmi góðra vina og fjölskyldumeðlima og njóta náttúrunnar í sveitinni okkar þar. Þar gefst konunni tækifæri til þess að finna stelpuna í sér og hrífa okkur með í bernskuminningum sínum.
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar