Þriðjudagur, 31. júlí 2007
Garnett til stórveldisins?
Þau tíðindi berast úr NBA að Boston Celtics, stórveldið, og Minnesota Timberwolves séu við það að ganga frá leikmannaskiptum milli félaganna sem senda Kevin Garnett í stórveldisátt og Al Jefferson, eina helstu vonarstjörnu liðsins, ásamt fleiri leikönnum og valréttum, til Minnesota.
Þessar vangaveltur voru uppi í kring um nýliðavalið og sýndist þá sitt hverjum. Garnett sjálfur tók þá af skarið og sagði þvert nei við þeim vistaskiptum. Boston var einnig ekki alveg tilbúið í að senda Jefferson frá sér, enda stráksi gríðarlegt efni, aðeins 22 ára og á framtíðina fyrir sér.
En eitthvað hefur breyst undanfarið. Líkur leiða að því að tilkoma Ray Allen hjá stórveldinu hafi gert liðið áhugaverðara í augum Garnetts og að hann sjái sjálfan sig í sterkum hópi leikmanna eins og Ray Allen og Paul Pierce.
Það er líkla talið að nú sé verið að ræða langtímasamning Garnetts og að hann muni réttlæta skiptin á Jefferson en fyrr í sumar var talið að Boston hefði enga tryggingu fyrir því að Garnett yrði lengur en eitt ár og það er auðvitað óásættanlegt að senda ungstirni í skiptum fyrir aðeins eitt ár.
En verði þetta raunin og með því að fleiri leikmenn fari í vesturátt, hefur Boston aðeins níu leikmenn á leikmannalistanum sem verður að telja 12 leikmenn við upphaf tímabilsins. Til reynslu eru hjá þeim núna Gabe Pruitt og Glen Davis sem þeir völdu í annarri umferð nýliðavalsins, en sá síðarnefndi hefur vakið athygli í sumardeildunum þar úti.
En með Garnett innanborðs til lengri tíma, fer liðið úr því að vera ungt, efnilegt botnlið, í það að verða lið sem raunverulega getur farið að keppa að sæti í úrslitakeppninni og jafnvel austurdeildartitli.
En við sjáum til, hugsanlega verður Garnett á fjölunum 2009 þegar ég áforma mína fyrstu pílagrímaferð til Boston!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
KFÍ með fimm útlendinga næsta vetur - metnaður eða fífldirfska?
Jæja þá eru KFÍ-menn að styrkja sig enn meira með fimmta útlendingnum. Ljóst að liðið þeirra verður firnasterkt og þeir eru stórhuga Ingólfur og vinir mínir fyrir vestan. Eitthvað hlýtur þetta að kosta.
Eða hvað?
Þarna verður slegið met í fjölda erlendra leikmanna í einu körfuknattleiksliði á Íslandi og það er áhugavert að skoða þetta í sögulegu samhengi, því ég minnist þess ekki að fleiri útlendingar en þrír hafi verið í íslensku körfuknattleiksliði, eða kannski fjórir í einhverjum undantekningartilfellum.
Ef allir þessir leikmenn væru með 150 þúsund á mánuði í 7 mánuði, erum vð að tala um bara launakostnað upp á meira en 5 milljónir. Þá á eftir að greiða ferðakostnað sem er ekki lítill. En ég hef líka heyrt að flestir þessara karla séu án launa frá félaginu og komi fyrir atvinnu og húsnæði.
Er þetta metnaður eða fífldirfska?
Ég bið fólk að taka þessum vangaveltum ekki illa, það er ekki meiningin að skjóta á einn eða neinn, en hérna erum við vissulega að tala um kaflaskil í íslenskri körfuknattleikssögu sem vert er að ræða aðeins um og skoða. Það sem vekur kannski mesta athygli er að þetta er lið í 1. deildinni. Sambönd sem félagið hefur fengið í gegn um frábæran þjálfara sinn Borce Ilievski eru ómetanleg og það sannast þessa dagana.
En hvað rekur félög til að fara þessa leið?
Er þetta svar landsbyggðarliða við fólksflótta og litlum vilja íslenskra leikmanna til að koma út á land og spila? Það hefur oft verið talað um að landsbyggðarlið eigi auðveldara með að ná í styrki og koma þau til með að nota þessa styrki í auknum mæli til að fá leikmenn að utan?
Hér á Sauðárkróki er svipaða sögu að segja, fáir leikmenn og þörf á að styrkja hópinn og bæta við leikmönnum. Íslenskir leikmenn tregir til að koma, það þykir ekki lengur spennandi að fara út á land að spila. Hingað hafa komið landsþekktir leikmenn í gegn um tíðina eins og Valur Ingimundarson, Pétur Guðmundsson, Páll Kolbeinsson, Sverrir Þór Sverrisson, Pétur R Guðmundsson og fleiri, en þetta er liðin tíð. Á Ísafjörð fóru leikmenn eins og Guðni Ólafur Guðnason, Hrafn Kristjánsson, Ósvaldur Knudsen, Ólafur Jón Ormsson, Halldór Kristmannsson, Sveinn Blöndal og fleiri snillingar.
Hver er ástæðan? Er það neikvæð umræða um landsbyggðina sem hefur áhrif á þetta? Eða sækja ungir leikmenn nám af meira kappi en áður þekktist og vilja því vera í hringiðu þess í háskólum í Reykjavík?
Í mínum huga er það orðin standard lausn að hafa þrjá erlenda leikmenn. Og ég skal ganga lengra og segja mína skoðun á því hvernig leikmenn það eiga að vera; evrópskur leikstjórnandi, evrópskur miðherji og fjölhæfur kani. En það er önnur saga.
Heilt byrjunarlið af útlendingum eru vissulega tíðindi, en körfuboltinn er mjög glóbalíseruð íþrótt og í velmegun okkar íslendinga er ekki ólíklegt að hingað komi leikmenn hreinlega í leit að betra lífi. Körfuknattleiksfélög eiga að grípa gæsina að mínu mati en gleyma samt ekki því sem skapar þetta allt; barna- og unglingastarfinu!! Það er efni í annan pistil.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu fyrir vestan, það verður gaman að sjá hvað t.d. Tindastóll verður með marga útlendinga næsta vetur og hver þróunin verður almennt hjá landsbyggðarliðum á næstu árum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 25. júlí 2007
Allur fjandinn
Það er fátt markvert í umræðunni þessa dagana. Fjölmiðlar velta sér upp úr málefnum sem þeir annars myndu ekki gera, en gúrkutíðin fræga ríður nú yfir og fátt svona sem gleður eyrað að ráði.
Ingibjörg Sólrún hefur farið hamförum í Palestínu og Ísrael og ekki annað að heyra á henni en að hún og við íslendingar séum hreinlega lykilinn að lausn þessarar djúpstæðu og flóknu deilu. Annars er ég nú sammála henni í því að líklega eru Bandaríkjamenn eitt stærsta vandamálið þarna niður frá.
Þetta leiðindalið í Saving Iceland, heldur áfram að setja sjálft sig og annað fólk í hættu. Með þvílíkt hallærislegum mótmælaaðgerðum. Þegar fólk getur ekki tjáð sig svo skiljist, eða vantar hæfileikana til þess, verður það jú að grípa til annarra ráða til að vekja athygli á málstað sínum. En það eina sem þetta gerir er að pirra hinn almenna borgara og manni finnst þetta vera hálf hallærislegt allt saman.
Jú bíddu, Árni Johnsen gefur nú ekki mikið fyrir þessa verkfræðivitleysinga sem gerðu skýrsluna um Eyjagöngin. Lætur þá heyra það í blöðunum í dag. Árni fékk pólitíska endurfæðingu út á þetta mál og slæmt fyrir karlinn að fá svona raunsæja skýrslu í andlitið.
Menn tala mikið um hátt verð á enska boltanum. Ég var að greiða um 2.200 krónur fyrir hann síðasta vetur án þess að þurfa að hengja mig á neitt annað prógramm hjá sama aðila. En nú ber svo við að ef maður ætlar að fá sér stakan mánuð kostar hann 4.300 krónur. En við erum áskrifendur að Stöð 2 og því fáum við boltann á 2.700 eða þar um bil. Þetta er talsverð hækkun og ég þarf að vera tengdur öðrum miðlum sama batterís til að fá þetta "góða" verð. Mér finnst að þarna sé verið að troða inn í þennan pakka allskonar aukaefni sem aðeins lítill hluti "nörda" hefur áhuga á. Ég hef gaman af því að setjast niður um helgar og horfa á mína menn í Arsenal spila og jafnvel aðra áhuagverða leiki, en ég hef engan áhuga á þessum aukaþáttum sem verið er að bjóða. Mér segir svo hugur að þeir hafi fengið slatta af prógrömmum í kaupbæti fyrir aðalpakkann, þ.e. hafi ekki þurft að borga fyrir aukaþættina sem þeir síðan selja okkur. Og dónsaskapurinn nær hámarki með því að maður þurfi að binda sig í 12 mánuði þegar enski boltinn er spilaður frá ágúst og fram í maí. Ef við hefðum ekki verið áskrifendur að Stöð 2 fyrir, efast ég stórlega um að hafa tekið enska boltann inn.
Annars erum við hjónin að fara til Danmerkur 5. ágúst n.k. Ætlum að heimsækja stóra bróður sem býr fyrir utan Köben, versla fatnað á fjölskylduna og drekka soldinn bjór. Mér finnst verslunarferðir alveg æðislegar í útlöndum. Mörg, mörg pit-stopp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 20. júlí 2007
Tony Blair hreinsaður af áburði
Ég man einu sinni þegar ég var í unglingavinnunni hér á Krók að hafa útbýjað mig í áburði.
Þá fór ég heim og mamma hreinsaði mig af áburði.
Sjá nánar þessa frétt hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Vinnur þetta málstaðnum fylgi?
![]() |
Umhverfisverndarsinnar loka veginum upp á Grundartanga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 16. júlí 2007
Líflegur stjórnmálamaður fallinn frá
Það var einhvern veginn þannig að maður lagði alltaf við hlustir þegar Einar Oddur tjáði sig um málefni líðandi stundar. Það eru því miður all margir stjórnmálamenn sem hreyfa akkúrat ekkert við manni, en Einar Oddur var sannarlega ekki einn af þeim.
Hann var rökfastur, samkvæmur sjálfum sér og hafði sjálfstæðar skoðanir á málunum og kom þeim á framfæri.
Pabbi og hann þekktust síðan í verkalýðsbaráttunni hér í denn. Báru mikla virðingu hvor fyrir öðrum, það var greinilegt á máli þeirra beggja.
Ég minnist þess þegar ég var að vinna á Hótel Stykkishólmi að mig minnir sumarið 2002, en þá hélt þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þingflokksfund í Stykkishólmi. Einar Oddur og Sigrún Gerða dvöldu þar á hótelinu eins og aðrir, en voru nokkra daga í viðbót þar sem framundan var norrænn þingmannafundur sem einnig var haldinn á hótelinu. Einar Oddur var tíður gestur í lobbýinu hjá mér og við tókum oft tal sama. Eitt sinn var hann að rifja upp samskipti hans og pabba, segja sögur úr samningaviðræðum fyrri ára, þó sér í lagi í kring um þjóðarsáttarsamningana. Ég spurði hann að því hvort að þeir hefðu ekki tekist hart á? "Kalli minn, við tókumst ekki á, við sömdum", sagði hann þá og bætti við að menn hefðu lagt sig fram um að finna lausnir, ekki deila.
Einar Oddur var ötull talsmaður Vestfjarða, vestfirðingar áttu þar hauk í horni og hann lagði sig fram um að halda umræðunni um vanda svæðisins á lofti, en var samt laus við slagorðapólitík og popúlisma í málflutningi sínum.
Það er sjónarsviptir af honum karlinum og ég votta Sigrúnu Gerðu og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Eru gúrkunni og kolefnisjöfnunarruglinu engin takmörk sett??!!
Ég sit hér í sófanum og var að horfa á alla vega 10 mínútna innslag í Íslandi í dag þar sem rætt var um hinn gífurlega mengunarvald SLÁTTURVÉL og hvort að ekki væri rétt að kolefnisjafna þann andskota.
Kommon, er ekki hægt að finna eitthvað áhugaverðara til að fjalla um um hásumar. Og er þessi kolefnisjöfnunarumræða ekki komin út í algjörar öfgar?
Verður ekki næsta ruglið að menn fari að skikka bændur til að kolefnisjafna beljurnar og hemja fretið í þeim!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Skynsöm afstaða bæjarstjórans til olíuhreinsunarstöðvar
Í frétt á bb.is er að finna tilvitnanir í bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar vegna málefna olíuhreinsunarstöðvar. Hann segir þar að hann styðji byggingu stöðvar á Vestfjörðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fyrir mig opnaði þetta sýn. Ég hafði ekki hugmynd hverju ég átti von á. Nú hef ég séð hvernig þessar verksmiðjur líta út og hvernig byggðin er nálægt þeim, bæði í Rotterdam og Leipzig. Ég fór út með því hugarfari að hugsanlega kæmi ég til baka og segði nei takk. Þetta er ekki eitthvað sem við viljum. Ég hélt að þetta væri sóðalegt og maður sæi olíu einhvers staðar. Þetta minnir meira á orkuverið í Svartsengi, sagði Halldór.
Um staðarval segir hann þetta: "Það skiptir ekki máli hvort hún verði þá reist í Ísafjarðarbæ eða Vesturbyggð. Ég hef engan áhuga á að fara í reiptog um það því störfin munu verða til á öllu svæðinu".
Þetta er skynsamleg afstaða, landrými er ekki mjög mikið fyrir verksmiðju af þessari stærðargráðu fyrir vestan og því mega menn ekki fara að togast á um staðarvalið og láta það eyðileggja þennan möguleika. Þegar upp verður staðið verður það fyrirtækið sjálft sem ákveður hvar byggja skuli hreinsunarstöðina upp og þá ákvörðun taka þeir að undangengnum miklum rannsóknum. Hvort að sveitarstjórnarmenn á sitt hvorum endanum leggja fram ákveðnar lóðir og staðsetningar til að skoða betur er síðan annað mál, en allt þarf þetta að vinnast í sátt.
Staðsetning miðsvæðis á milli norður- og suðursvæðanna hlýtur að vera ákjósanleg, þá verða bæði atvinnusvæðin í jöfnum tengslum við starfsemina. En með bættum samgöngum hins vegar, munu þessi svæði sameinast í eitt atvinnusvæði og með boðuðum flýtiframkvæmdum í samgöngumálum getur það orðið að veruleika um svipað leyti og olíuhreinsunarstöð tæki til starfa.
Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ er jákvæður á þessa hugmynd og hann getur ekki verið annað því þarna er mögulega komin framtíðarlausn af atvinnuvandamálum Vestfirðinga þar sem útgerð og fiskvinnsla hefur verið að dragast saman og gerir það í fyrirsjáanlegri framtíð. Eigi Vestfirðir að þrífast, þarf öflug grunnatvinnustarfsemi að koma í staðinn og þegar um er að ræða allt að 500 störfum geta menn ekki annað en skoðað það alvarlega og það sýnist mér menn vera að gera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. júlí 2007
Bændablaðið
Ég verð að koma því á framfæri að eitt alskemmtilegasta blað sem ég les er Bændablaðið. Ekki einvörðungu vegna þess að eiginkonan sé búin að kynna mig fyrir sælu sveitanna og heldur ekki af því að eitt uppáhalds lagið mitt þessa dagana sé "Svarfdælskir bændur og búalið" með Rögnvaldi gáfaða og félögum í Hvanndalsbræðrum, heldur vegna þess að blaðið er stútfullt af skemmtilegu efni.
Þar er mikið verið að segja frá nýsköpun og frumkvöðlum til sveita og mjög skemmtilegur vinkill tekinn á lífið í dreifbýlinu sem margir halda að sé ein flatneskja út í gegn.
Það hefðu allir gott af því að taka sér blaðið í hönd næst þegar það kemur og lesa það í gegn og fræðast um lífið til sveita og sjá hvað fólkið þar er ekki síður hugmyndaríkt og framsækið en við sem búum í þéttbýlinu.
Mæli með Bændablaðinu!!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. júlí 2007
Mæli með þessum tjaldsvæðum
Við fjölskyldan dvöldum að mestu í útilegu þessa fríviku okkar sem lauk á laugardaginn. Við vorum fyrr hluta vikunnar á Hrafnagili í Eyjarfirði þar sem fín aðstaða er. Svæðið stendur norðan við Hrafnagilsskóla, á nokkuð miklu bersvæði við bakka Eyjarfjarðarárinnar. Þar má finna rafmagn fyrir hjólhýsi og fellihýsi, sturtur og góða hreinlætisaðstöðu, fótboltavöll og leiktæki fyrir krakkana og svo er sundlaugin stórfín þarna við svæðið. Stutt er í gróðurskálann Vín þar sem finna má góðan ís og Jólagarðinn sem alveg magnað er að koma í, ekki síst um hásumar. Það sem helst vantar er kannski skjólbelti sem mætti rækta upp meða hraða, því svæðið er nokkuð berskjaldað fyrir norðanáttinni. En þarna var mjög gott að vera. Borguðum 2600 krónur fyrir sólarhringinn, með rafmagni sem er nokkuð vel í lagt að mínu mati, þar sem þjónustan þarna er lítil sem engin, en það sem er fyrir hendi er vissulega fínt og nákvæmlega það sem maður þarf á að halda.
Á fimmtudaginn undum við okkar kvæði í kross og héldum í Borgarfjörðinn, nánar til tekið á Fossatún á bökkum Grímsár. Það er svæði sem hinn fyrrum tónlistarútgefandi Steinar Berg Ísleifsson og kona hans, hafa byggt upp af gríðarlega miklum myndarskap. Þetta er fimm stjörnu tjaldsvæði skv. skilgreiningu Ferðamálastofu. Þar má finna topp hreinlætisaðstöðu, frábær leiktæki fyrir krakkana (þar á meðal 5 trampólín og stóran leikkastala), minigolf, fótboltavöll, fallegar gönguleiðir, aðgang að rafmagni, veitingarstað og fleira og fleira. Ofan á þetta er toppþjónusta, salerni þrifin nokkrum sinnum á dag og fyllt á pappír og slíkt. Stórbrotið útsýni er af útipalli við veitingastaðinn yfir Tröllafossa, sem eru litlir fossar og flúðir í ánni. Gaman að sitja þar úti yfir kaffibolla eða öli og njóta þess. Lítið er í ánni sem gerir fossana og fúðirnar stærri og þó veiðimenn fíli það ekki, þá er það bónus fyrir okkur ferðafólk. Auk þessa er all mikil menningardagskrá í gangi á sumrin og Við greiddum 6300 krónur fyrir þessa tvo sólarhringa og innifalið í því var rafmagn, aðgangur að sturtum, heitum potti og minigolfi einu sinni á dag. Og maður fær vel fyrir peninginn það er nokkuð ljóst.
Við vorum að vísu all óheppin með staðsetningu, því á sama svæði og við hópaðist stór fjölskylda eða ættleggur og nánast umkringdi okkur. Þetta fólk sat síðan að sumbli allt of langt fram eftir nóttu og hafði hátt. Svo er fólk að tala um unglingafyllerí, mér finnst það ábyrgðarhlutur þegar fullorðið fólk safnast saman með börn á öllum aldri og drekkur sig fullt. Það er í góðu lagi að sitja úti og fá sér 1-2 öllara yfir grillinu og svoleiðis létt, en með börnin í útlegu á maður ekki að fara á fyllerí.
Þið getið séð þetta nánar á slóðinni www.steinsnar.is
En sem sagt, þarna eru tvö fín tjaldsvæði sem óhætt er að mæla með.
Um næstu helgi verður farið í útilegu enn á ný og kannski kem ég með pistil um ákvörðunarstaðinn okkar þá.
Bendi hér á gæðaflokkun Ferðamálastofu fyrir tjaldsvæði.
Á leið okkar suður renndum við á Hvammstanga og skoðuðum þar Selasetrið og mjög skemmtilegt gallerí sem Bardúsur reka í gömlu uppgerðu pakkhúsi við höfnina. Hvort tveggja áhugavert og þó Selasetrið sé gert í kring um ákveðinn afmarkaðan hlut ná þeir að taka ýmsa skemmtilega vinkla á líf "og störf" sela sem nóg er af á Vatnsnesinu og víðar þarna í kring um Hvammstanga.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar