Föstudagur, 12. janúar 2007
Einkennileg reynsla í nótt
Ég vissi ekki hvaða á mig stóð veðrið þegar konan fór að öskra og æpa upp úr svefni í nótt. Þetta byrjaði sem saklaust muldur eins og maður hefur nú heyrt áður, en síðan tóku leikar að æsast og hávaðinn sömuleiðis og allt endaði þetta í háværu öskri upp í eyrað á mér sem ég hélt að vekti allt hverfið. Þá var hana að dreyma að einhver væri að reyna að brjótast inn í kjallarann hjá okkur og hún var að fórna sér í að stöðva það. Virðingarvert en óþarfi svo sem að öskra upp í eyrað á mér.
En ekki tók mikið betra við. Þegar ég hafði hrist hana til meðvitundar tók við þetta lítla hláturskast sem varði í all langan tíma.
Ég er nú frekar fyrir hláturinn en um miðja nótt skammt á eftir öskri upp í eyrað, var þetta ekki fyndið og ég varð grömpí. En svo lagaðist þetta allt við fyrsta hanagal í morgun.
En sagan góð engu að síður.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Hitt og þetta - aðallega þetta
Ekki leiðinlegur leikur í gær hjá Arsenal. Það eru ekki mörg lið sem fara á Anfield með fjögurra daga millibili og skora 9 mörk. Ánægður með Baptista sérstaklega, hann fer kannski að finna sig úr þessu.
Erum að mála eldhúsið þessa dagana og ætlum að klára þær framkvæmdir fyrir helgina. Ætlum líka að rífa klæðningu af tveimur veggjum þar til að ná panelnum fram og þá verður eldhúsið okkar orðið voða kósí.
Framkvæmdir eru hafnar í kjallaranum. Þar var vatnstjón sem ekki lá fyrir þegar við fluttum inn og tryggingafélag fyrri eigenda klárar það mál. Þar þurfti að henda út trégólfi sem orðið var handónýtt og farið fúna vegna leka. Herbergið mun í framtíðinni hýsa trommusettið mitt og gesti þegar þá ber að garði.
Þegar búið verður að ganga frá kjallaranum, verður hann málaður og gerður vistlegri svo við getum farið þangað á sokkunum. Það er takmarkið að geta labbað þar um á sokkunum.
Það er ótrúlegt hvað maður getur þurft að bíða eftir að ná sambandi við bissí aðila fyrir sunnan. Ég er búinn að bíða eftir símtölum frá tveimur aðilum í stórum fyrirtækjum fyrir sunnan síðan í síðustu viku. Ég hringi, þeir eru uppteknir, ég skil eftir skilaboð. Ég sendi tölvupóst til að minna á mig, fæ þau svör að þeir hringi á morgun eða hinn, en ekkert gerist. Djöfull pirrandi.
Blað nr. tvö hjá Guðnýju kemur út í dag. Viðbrögðin frábær við fyrsta blaðinu, mikið talað um þessar breytingar og fólk mjög jákvætt. Nýjum áskrifendum fjölgar og ég spái því að þeim eigi eftir að fjölga enn frekar eftir annað blaðið. Fólk vill gjarnan sjá annað gott eintak áður en það tekur ákvörðun um að gerast áskrifandi.
Er að hugsa um að setja upp smá bissness með félaga mínum Borce Ilievski sem þjálfar hjá KFÍ núna. Þörfin fyrir reynda og góða þjálfara er mikil í körfunni á Íslandi og mig langar til að finna heppilega þjálfara og reyna að flytja þá inn, körfuboltanum í landinu til heilla. Sjáum hvað setur.
Jæja ég þarf að fara í símann og reyna að ná í hina háu herra fyrir sunnan!!
Hilsen
Mánudagur, 8. janúar 2007
Smá Arsenal-blogg
Við krakkarnir fórum til pabba að horfa á Arsenal-leikinn á laugardaginn. Æðislega sætur sigur gegn Liverpool. Rosicky fór á kostum og "Anrí" kláraði dæmið með einkennandi einstaklingsframtaki. Almunia mjög traustur í markinu og spurning hvort að Wenger sparar sér peninga með því að rétta honum keflið þegar Lem'ann hættir, líklega næsta sumar.
Annars er það athyglisvert að Arsenal spilar vel gegn þessum stóru liðum og ná góðum úrslitum gegn þeim, en gegn verkamönnunum gengur þeim bölvanlega í flestum tilfellum. Þeir verða að fara að ná tökum á spilamennskunni á móti liðum sem helst af öllu vilja spila lítinn fótbolta og sparka boltanum eins langt í burtu og þeir geta þegar þeir ná honum. En þessi lið eiga það sammerkt að vera föst fyrir, gróf og grimm og það hefur farið heldur illa í mína menn og er ég ekki sáttur við það. Ef menn ætla sér titla í þessari deild, verða þeir að taka á hvaða liði sem er með hörku.
Annars eru vangaveltur um að Ljungberg sé að fara frá liðinu. Sé það rétt bærast blendnar tilfinningar í mínu brjósti. Ljungberg hefur oft verið leikmaður sem komið hefur til skjalanna þegar mest hefur á reynt, en því miður hefur hann ekki náð að sýna sitt rétta andlit á þessu og síðasta tímabili og oftar en ekki verið meiddur. Nú eru leikmenn eins og Hleb og Walcott að koma sterkir inn á kantinn hægra megin og vinstra megin eru það Rosicky og hugsanlega Van Persie sem Ljungberg þarf að berjast við. Spurning hvort að hans tími sé kominn og ég held ég geti fallist á það. Hann er líka á mjög háum launum og það myndi losa eitthvað um pyngjuna að selja hann. Fínt að rýma til fyrir Ribery hinum franska sem ég trúi að komi til liðsins næsta sumar.
En nóg um það, á morgun er annar leikur milli Arsenal og Liverpool í deildarbikarnum, eða mikka mús-bikarnum eins og sumir kalla þá keppni vegna tilgangsleysis hennar og þá má búast við annarri liðsuppstillingu hjá Arsenal en á laugardaginn var.
Ég er að missa þolinmæðina gagnvart einum leikmanni. Það er Baptista sem alls ekki hefur náð að heilla mig. Hann segist fá fá tækifæri hjá Wenger, en þau sem hann hefur fengið hefur hann ekki nýtt að mínu mati. Hann er framliggjandi miðjumaður og spurning hvort að pláss sé fyrir hann í þeim hópi framsækinna miðjumanna sem Arsenal hefur yfir að ráða. En ég held að hann hafi hæfileika en hann verður að fara að sýna þá ef hann ætlar að festa sig í sessi þarna. Annars er bara að skila honum til Real Madrid og spara sér þann pening.
Varðandi vangaveltur um kaup á leikmönnum veit ég ekki alveg hvar á að drepa niður fæti. Helst er það markvörður sem liðinu vantar að mínu mati. Vinstri bakvörður gæti verið eitthvað sem Wenger vildi horfa á, þó Clichy sé ágætur þá er hann ekki þessi gæðaleikmaður sem liðið þarf á að halda, en gæti svo sem þróast í það með tíð og tíma enda ungur að árum. Gallas er of dýrmætur í miðvarðarstöðunni til að hann spili bakvörðinn en hins vegar verð ég að minnast á það að hann stóð sig frábærlega í þeirri stöðu fyrr á tímabilinu og virtist mun ánægðari í þeirri stöðu hjá Arsenal en hjá Chelsky. Hann fékk að fara fram yfir miðju með Arsenal og var oft á tíðum einn fremsti maður í sókn.
Toure, Senderos og Djurou eru fínir í miðvarðarstöðunni með Gallas. Hægri bakvarðarstaðan er vel mönnuð með Eboue og Lauren að koma til baka eftir meiðsli og svo hefur Hoyte sýnt góða takta bæði vinstra og hægra megin.
Erfitt að sjá miðjuna batna með einhverjum kaupum. Þó fer að líða að því að finna þurfi arftaka Gilbertos. Ég sé Flamini ekki taka við af honum, en hann er þó mjög góður bakk-upp leikmaður og í raun örlítið vanmetinn. Fabregast er framtíðarkóngurinn á miðjunni og síðan eru framliggjandi menn eins og Hleb, Rosicky, Ljungberg, Van Persie, Walcott, Baptista ef hann verður áfram og ljós að miðjan er vel skipuð. En ef Ljungberg og Baptista fara, þarf að bæta aðeins í hópinn og þá kemur Ribery sterkur inn.
Í framherjastöðunum er liðið ágætlega mannað að mínu mati. Kóngurinn "Anrí" er þar náttúrlega fyrstur á blaði og með honum hafa verið að spila þeir Adebayor eða Kanu tvö, eins og ég kalla hann og Van Persie. Walcott getur líka komið þar inn og aldrei að vita nema að Aliadére fari loksins að sýna eitthvað.
Sem sagt, ég dreg þá ályktun að það liggi mest á að kaupa markvörð, síðan vinstri bakvörð, þá varnarsinnaðan miðjumann.
Hilsen
Mánudagur, 8. janúar 2007
Bissí helgi
Við tókum rispu um helgina. Kláruðum að koma efri hæðinni í ásættanlegt horf, en þar var m.a. herebrgi sem fullt var af kössum og allskonar dóti sem við vissum vart hvar ætti að eiga heima. Það tókst þó með ágætum og við færðum þangað inn talsvert úr herbergi strákanna og nú hafa þeir og þau, tvö herbergi til að leika sér í. Kom bara vel út.
Því næst varð eldhúsið fyrir barðinu á okkur, við rifum gólfdúkinn af korteri fyrir kvöldmat í síðustu viku og í gær var frúin á fjórum fótum og hreindaði upp flísarnar sem voru undir og bónaði allan pakkann. Kemur skemmtilega út, þetta eru svona gamlar línolín-dúkaflísar eða eitthvað þannig, gráleitar.
Við pökkuðum öllu jólaskrauti niður í gær og gengið var samviskusamlega frá því niður í geymslu. Síðan voru settir upp hinir ýmsustu skrautmunir sem ekki hafa fyrr upp farið í þessu húsi. Þannig að þetta er allt að koma. Settum upp ljós í stofunum og eigum við þá eftir að setja upp ljós í eldhúsinu.
Í dag ætla ég síðan að rífa klæðningu af veggjum í borðkróknum eða innra eldhúsinu. Þar á bak við er forláta gamall panill sem við ætlum að ná fram og gera upp. Svo verður eldhúsið málað og við ætlum að klára þetta í vikunni. Dunda okkur við þetta. Svo verður tekið framkvæmdahlé út mánuðinn í það minnsta, nema þegar búið verður að skipta um gólf í kjallaranum og laga hann, þá ætlum við að mála þar. En það er bara smotterí.
Við feðgar fórum þrjár ruslaferðir á gámasvæðið, fengum lánaða kerru hjá Svabba og hreinsuðum út allt rusl sem eftir var að henda frá flutningunum.
Þetta var helgin okkar í hnotskurn.
Hilsen
Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Lífið í skorður
Það er fátt sem gleður mörlendinginn mig meira en jólahátíðin og allt sem hennir fylgir, nema ef vera skyldi sá tími þegar lífið kemst í fastar skorður á nýjan leik. Þó jólaundirbúningurinn hafi farið fram í miðjum búferlaflutningum þetta árið, lukkaðist hann þó all vel og þetta var góður tími. Samt er það þannig að strax eftir 3-4 daga í jólafríi, fer móri að láta á sér kræla og maður borðar of mikið einn daginn, sefur of mikið þann næsta og vill helst að þessu fari að linna. En það er alltaf gott að fá lífið í skorður aftur, krakkarnir farnir í skólann og lífið að ganga sinn vanagang.
Annars voru jólin sjálf frekar róleg hjá okkur. Krakkarnir voru í burtu, við borðuðum bara tvö heima á aðfangadag og fórum síðan upp á sjúkrahús og tókum upp jólapakkana með ömmu gömlu sem komst ekki úr húsi vegna slæmsku. Það eitt og sér var yndislegt, að geta verið henni félagsskapur og hún var afar þakklát fyrir. Ekki oft sem hún lætur slíkt í ljósi en hún var óvenju meyr og lítil í sér þennan aðfangadag.
Við fórum reyndar norður á Þorláksmessu og nutum frelsisins á Akureyri. Smá búðarráp, út að borða á Greifann og svo Irish á Kaffi Akureyri á eftir. Borðuðum hangikjöt hjá tengdó í hádeginu á aðfangadag og brenndum svo yfir.
Áramótin voru svo okkar aðfangadagur, skreyttir með eldspúandi sprengjum og ljósadýrð og sannkallað upplifelsi fyrir krakkana þegar við löbbuðum upp á Nafir fyrir ofan húsið okkar og horfðum yfir herlegheitin um miðnættið. Það er ekki dónalegt að borða góðan mat, taka upp jólapakka og sprengja síðan flugelda, allt sama kvöldið. En svona verður það um ókomin ár.
Í dag er ég mjög stoltur maður, því mín yndislega eiginkona á afmæli í dag og ofan á það kemur fyrsta Feykis-blaðið undir hennar stjórn út í dag og slær hún því tvær flugur í sama höfuðið í dag, eins og einhver sagði. Færði henni blóm í tilefni dagsins um hádegið og fékk Feyki glóðvolgan úr prentsmiðjunni og leist vel á. Þessar breytingar sem Guðný er að gera virka að mínu viti, en segi ekki meir, því nú verðið þið að útvega ykkur blað.
Guðný og Þuríður framkvæmdastjóri Nýprents með fyrsta blaðið.
Var á Ísafirði í gær og fyrradag. Var að klára starfslokasamninginn minn með heljarinnar vörutalningu. Var að til kl. tvö aðfaranótt gærdagsins og gekk helvíti illa að sofna eftir það. Leit síðast á klukkuna kl. hálf fjögur og vakti aðeins eftir það. Vaknaði svo all hress eða þannig, kl. hálf átta um morguninn og eyddi deginum með Jóa Torfa á lagernum og hjálpaði honum að komast inn í hlutina þar. Fékk lunda að borða í hádeginu, var búinn að panta hann fyrir jól og að sjálfsögðu brugðust þeir vel við vinir mínir í eldhúsinu þeir Gestur og Biggi. Leystu mig meira að segja út með lunda í brúnni í boxi sem ég át þegar ég kom heim í gærkvöldi. Agjört lostæti.
Annars hef ég átt erfitt með að gera upp tilfinningar mínar gagnvart Ísafirði frá því ég flutti. Þetta gerðist auðvitað allt á milljón eins og annað hjá okkur og hugsanlega hafði maður ekki tíma til að velta þessu fyrir sér. Ég vissi þó alltaf að mér leið vel fyrir vestan og eignaðist þar góða vini og kunningja en var duldið í lausu lofti yfir því hvaða tök Ísafjörður hafði á mér. En þegar ég renndi frá flugvellinum og inn í bæinn í fyrradag fann ég að Ísafjörður mun alltaf skipa heiðurssess í mínum huga. Þar á ég góða vini og kunningja, þaðan á ég góðar minningar og leið vel og staðinn verður alltaf gaman að heimsækja.
Ég er búinn að ákveða að leita mér lækninga. Tími til kominn segja sumir, þó fyrr hefði verið segja aðrir. En þetta á nú ekki við um ýmsa huglæga krankleika heldur helvítis hnéð á mér. Það er að segja það hægra, sem er talsvert verr á sig komið en það vinstra. Ég er kominn í samband við læknamiðstöð úti í San Francisco sem sérhæfir sig m.a. í því að byggja upp brjósk og liðþófa í ónýtum hnjám. Hér hafa sérfræðingar sagt mér að það næsta sé að skipta um hnjálið hjá mér, en það sé samt ekki hægt fyrr en ég verði orðinn gamall!! Halló, á ég þá bara 37 ára gamall að bíða og kveljast þangað til ég verði orðinn eitthvað gamall?? Að geta ekki stundað léttan körfubolta eða aðra líkamsrækt, að geta ekki leikið við börnin mín eins og ég vildi, að geta ekki farið í göngutúra með fjölskyldunni og ekki notið þeirra lífsins gæða sem felast í útiveru og hollri hreyfingu?? Ég ætla ekki að láta bjóða mér þessi svör og er að reyna að gera eitthvað í málinu. Sjáum hvað setur.
Verðum næst barnlaus um helgina 20. jan. og erum að velta fyrir okkur matarboði þá, aðeins að líta upp og gera okkur glaðan dag. Bjóðum kannski Herramönnunum í það gill eða einhverjum hér á heimavelli.
Hilsen
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Á leið til Ísafjarðar
.................ekki fluttur þó, heldur þarf ég að klára endanlega vinnuna mína þar og sjá þar um vörutalninguna á lagernum.
Það hefur verið rólegt yfir blogginu síðustu daga og verða þá allra næstu, en það verður bragarbót á því þegar ég kem til baka að vestan, í síðasta lagi á fimmtudaginn.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Ég eyðilagði jólin
Ég sendi vini mínum jólakveðju í sms-skilaboðum á aðfangadag. Ég eyðilagði fyrir honum jólin. Matseldin fór út um þúfur, rjúpan brann á pönnunni, það fóru appelsínur út í eplasalatið og sósan var of sölt. Hann neyddist til að panta Dominos-pizzur handa heimilisfólkinu. Allt út af því að ég kom honum úr jafnvægi með þessari jólakveðju. Skamm Kalli, það á ekki að senda fólki jólakveðjur með sms-skilaboðum.
En í alvöru, hvað er að fólki sem lætur svona koma sér úr jafnvægi. Það er talað um skandal og dulbúnar auglýsingar vegna þessa, en fólk ætti nú að "fá eitthvað viððessu" eins og amma segir, ef þetta hefur eyðilagt jólin fyrir þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. desember 2006
Sáði var óþekkastur
Þegar vel er að gáð er margt skondið og skoðunarvert í skáldskap um jólin og sýnist hverjum sitt. Við þekkjum vel argúmentið varðandi hið ástsæla lag "Jólasveinar ganga um gólf". Þar er rifist um hvort að menn eða könnur standi upp á hól eða stól. Og einnig hvort grýla hafi verið með gylltan staf í hendi eða gildan. Svona er það nú bara og ekki útlit fyrir að lát verði á þessum deilum.
Annað er þegar menn segja að jólasveinarnir séu 13 talsins, en á sama tíma er sungið lag um einn og átta. Hvaða jólasveina vantar þar? Ég kom nú með þá kenningu einu sinni að þetta lag um einn og átta vísaði í hæð þeirra. Að þeir séu í raun agnarsmáir og aðeins einn-núll átta á hæð, eða einn og átta. Þessi kenning mín hefur fallið í grýttan jarðveg víðast hvar, en eftir stendur spurningin um hvort þeir séu einn og átta, samtals níu, eða hvort þeir eru þrettán.
Einn er sá texti sem mér hefur fundist hvað skemmtilegastur. Adam átti syni sjö, eins og vel er vitað, en í textanum eru þeir ekki nefndir á nafn nema einn. Það er hann Sáði. Og trúlega hefur það verið vegna þess að hann var fyrirferðarmestur. Það var einmitt hann sem klappaði saman lófunum stappaði niður fótunum, ruggaði sér í lendunum og snér sér síðan í hring. Var líklega óþekkastur af þeim og því full ástæða til að yrkja sérstaklega um hann.
Og fyrst farið er að ræða um sáða, þá er hér einn góður frá kaffibrúsaköllunum. Þar var sagt frá einhverjum sem bananar voru farnir að vaxa út um eyrun á. Hann varð að vonum mjög svekktur, því hann sáði nefnilega eplafræjum!!
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 22. desember 2006
Allir komnir á sinn stað
Jæja nú eru allir komnir á sinn stað fyrir hátíðarnar.
Við erum búin að bera út börn síðan í fyrradag. Fórum norður á miðvikudaginn var. Helsti tilgangurinn var að fara með Hauk á flug suður og með Árdísi og Skírni til pabba síns. Á leiðinni fengum við þær upplýsingar að búið væri að aflýsa öllu flugi og ekki gott útlit með flug daginn eftir heldur. Þetta varð og til þess að pabbi Árdísar og Skírnis komst ekki norður, en hann var að koma frá London. Það varð úr að þau fóru til afa síns og ömmu og Haukur aftur með okkur til baka á Krókinn þar sem hann var nú kominn með hita og að verða lasinn. Ég skutlaði honum síðan í veg fyrir mömmu sína í Brú, en hún var á leið vestur til Bolungarvíkur þar sem þau verða yfir jólin. Þetta er aðeins lítið dæmi um hvað þetta getur nú allt verið snúið í þessari samsettu fjölskyldu. En það þýðir ekkert annað en að taka á þessum málum bara með bros á vör.
Erum sem sagt orðin ein í kotinu og verðum þangað til 28. des. Við fáum því kærkomna hvíld því við fundum það í gær að við erum orðin mjög langþreytt eftir at síðustu vikna og mánaða. Það eru ekki nema tveir og hálfur mánuður síðan við ákváðum að flytja hingað á Krókinn og sá tími hefur liðið hratt og á meðan höfum við safnað upp þreytu. Það er kannski ekki besti tími í heimi að flytja rétt fyrir jólin þar sem jólaundirbúningurinn hefur þurft að haldast í hendur við þá vinnu að koma sér fyrir í húsinu. En þetta hefur allt saman tekist með vinnu og því ekkert skrýtið að við séum orðin ansi þreytt. Ekki taka það því illa upp ef við svörum ekki í síma, við gætum hreinlega hafa gleymt að taka hann með okkur í lazy-boyinn og þá getur verið erfitt að standa upp aftur. Svo er bara að muna að taka fjarstýringarnar með þangað líka
Naumast flóðin út um allt. Eylendið hér í Skagafirðinum eins og fjörður á að líta og þeir hafa verið duglegir að bjarga hrossunum sem þar voru í vandræðum. Því ef hestum er ekki bjargað úr vandræðum í Skagafirði, hvar þá spyr ég?
Jæja nú er perrinn í Byrginu kominn í vond mál. Sá viðtal við stúlku í gær sem hafði lent í honum og fermingarbróðurnum. Sá hefur ruglað í hausnum á þessum greyjum. Þessi stúlka var alveg ótrúlega kúl í þessu viðtali og ég tek ofan fyrir henni fyrir að leggja í að lýsa þessu nánast í smáatriðum. Einu hjó ég þó sérstaklega eftir en hún sagði að konan hans, hefði sagt henni að hann hefði sagt svona við aðrar stúlkur í meðferðinni einnig. Hvernig á maður að túlka þetta? Að hún hafi verið að kóa með honum og hafi vitað af þessu? Skrýtið mál og málsvörn hans fokin út í veður og vind. Ásakanir um falsanir, burð eiturlyfja á viðmælendur Kompáss voru uppspuni og lygi manns sem var að reyna að halda andlitinu. Trúlega hefur hann haldið að þessar stúlkur sem hann misnotaði þyrðu ekki að koma fram og leggja fram kærur.
Ég vil skipta á Jóni Baldvin og Ingibjörgu Sólrúnu. Ég vil að Jón Baldvin verði aftur foringi jafnaðarmanna á Íslandi. Ekki yrði ég í vafa í næstu kosningum hvað ég ætti að kjósa ef það væri staðan. Ég er meira að segja á þeirri skoðun að Össur sé mun betri kostur en Ingibjörg og mér finnst hann vera allur að færast í aukana og er það vel. Kannski hjólar hann í svilkonu sína á næsta þingi Samfylkingarinnar? Veit ekki, en kerlingar greyjið er alveg handónýtur leiðtogi að mínu mati og þetta útspil hennar varðandi umhverfismálin, að smíða þessa fínu umhverfisstefnu Samfylkingarinnar án allrar umræðu og aðkomu grasrótarinnar er mikill afleikur. Ber keiminn af umhverfistefnu 101 Reykjavík, án alls tillits til þess fólks úti á landi sem þarf lausnir í sínum atvinnumálum og það fyrr en seinna.
Annars verð ég að hrósa Ágústi Ólafi þingmanni og varaformanni Samfylkingarinnar, mér finnst hann vera að taka á ýmsum góðum málum og leggja þeim lið. Efnilegur strákur sem ég hef mikla trú á í framtíðinni.
En nóg um það. Framundan er stjórnarfundur í Gagnaveitu Skagafjarðar, mikið að gerast þar og spennandi verkefni framunda.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. desember 2006
Sirrý í essinu sínu
Sirrý í Íslandi í bítið hefur átt vægast sagt dapra innkomu í annars ágætan þátt. Hún er eflaust fín í að stjórna vandamálaþáttum en þætti um þjóðmálaumræðuna á hún að láta vera. Efnistök þáttarins hafa líka breyst síðan hún byrjaði og í morgun fengum við t.d. að sjá og vita hvernig konur geta nú lyft barminum með nýjustu brjóstahöldurum. Og ég held að heilum 10 mínútum hið minnsta hafi verið eytt í það.
Mæli með því að hún verði send í frí.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar