Áskriftarsjónvarp

Ég hef verið að velta áskriftarsjónvarpsstöðvum mikið fyrir mér upp á síðkastið. Sér í lagi Stöð 2 og Sýn. Ef ég kaupi báðar sjónvarpsstöðvarnar fæ ég einn myndlykil og það er ekki hægt að horfa á nema aðra þessa stöð í einu. Ég get hins vegar leigt mér aukalykil sem getur leyst þetta vandamál, en það kostar að sjálfsögðu peninga.

Er eitthvað réttlæti í því að kaupa sér tvær sjónvarpsstöðvar og geta ekki fengið fullan aðgang að þeim? Er réttlætanlegt að kaupa aðgang að tveimur sjónvarpsstöðvum en geta aðeins horft á aðra í einu og ekki sett hina í önnur sjónvörp í húsinu?

Ég segi nú bara eins og einn ágætur bloggari hér í þessu samfélagi:

Þegar stórt er spurt.....

Hilsen


Akureyri í dag

Við ætlum að skreppa nokkrir á Akureyri í dag og skoða ljósleiðaramál þar. Þar er frumkvöðull sem hefur lagt ljós í bænum og reyndar víða. Við þurfum að skoða helst allt sem að þessu kemur og meta reynslu annarra og læra af henni líka.

Fór reyndar á Akureyri í fyrradag til að sækja Hauk. Gömlu í Holtateig sóttu hann á völlinn og hann var svo syfjaður af bílveikitöflunni sem hann fékk fyrir flugið að hann svaf í eina tvo tíma þangað til ég kom.

Kom þá við í Tónabúðinni og keypti mér trommusett. Ætlaði reyndar að kaupa mér ýmsa fylgihluti á gamla settið, en þegar upphæðin var komin upp í 45 þúsund og nýtt Pearl-sett á tilboði kostaði 75 þúsund og var með öllu því sem mig vantaði, þá var það ekki spurning. En ég er nú ekki vanur að eiga dýr áhugamál, ekki er ég í skotveiði, ekki er ég í stangveiði og ekki er ég í snjósleðasporti eða einhverju sem kostar hellings pening. Þetta er bara spurning um gott sett í kjallarann og þá er ég glaður.

Já handboltinn er á fullu þessa dagana. Íþróttalegt afrek unnið í fyrradag með sigri á Frökkunum. Svona geta íþróttirnar verið, en það þarf réttan kall í brúnna til að rífa menn upp og það hefur Alli frændi svo sannarlega. En nú byrjar þetta fyrir alvöru, leikur við Túnis sem spilar óútreiknanlegan handbolta og þá gæti illa farið ef menn eru ekki á tánum.

Tindastóll hefur átt góða daga í úrvalsdeildinni upp á síðkastið, hafa unnið tvo síðustu leiki sína, gegn Þór í Þorlákshöfn og ÍR hér heima í fyrradag. Nú fer maður að kíkja á fleiri leiki, því nú fer þetta að vera spennandi og spurning um að komast í úrslitakeppnina og í hvaða sæti menn ná þar og svo framvegis.

Annars vona ég að allir eigi bara góðan dag og kveð í bili.

Hilsen


Er "Fagra Ísland" ekki svo fagurt eftir allt saman?

Samfylkingin er á húrrandi niðurleið þessa dagana. 21% í könnun Fréttablaðsins. Fer að nálgast gamla Alþýðuflokkinn. Það eru margir að bollaleggja um ástæður þessa og ég ætla hér að varpa fram minni sýn á því, eða að minnsta kosti stórum faktor í þessu fylgishruni.

Forystumenn Samfylkingarinnar drifu sig og hentu upp framtíðarstefnu um hið "Fagra Ísland", eins og allir vita. Þar komu þeir illilega aftan að sínu fólki í grasrótinni, sér í lagi í Þingeyjarsýslu og í Skagafirði. Á báðum þessum stöðum eru til umræðu verkefni sem skipt geta gríðarlegu máli fyrir bæði byggðarlögin. Annars vegar álver við Húsavík og hins vegar virkjun Héraðsvatna, ef sá möguleiki verður settur á skipulag.

Eftir því sem ég hef lesið mér til um og skoðað, var þessi fagra-íslandsstefna ekki unnin í samvinnu við flokksmenn í grasrótinni, heldur var það unnið að frumkvæði formanns og unnið af núverandi forystumönnum og þingflokki. Um svona veigamikil mál verður að fara fram umræða í grasrótinni. Þú setur ekki fram yfirgripsmikla og afdrifaríka stefnu öðruvísi en að félögin út um land fái tækifæri til að ræða hana og gera við hana athugasemdir.

Á sama tíma og verið er að skoða þann möguleika að setja virkjunarkosti á skipulag hér í Skagafirði, kemur þingmaður Samfylkingarinnar sem er Skagfirðingur og segir fullum fetum að ekki verði virkjað í Skagafirði, punktur og basta. Þetta var í senn klaufalegt hjá viðkomandi þingmanni og gæti hafa haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir hana í prófkjöri sem á eftir fylgdi.

Það gengur ekki að forystumenn hvaða flokka sem er, setjist niður og smíði stór og afdrifarík stefnumál án þess að grasrótin hafi eitthvað um hana að segja. Það er hreint og beint illa gert gagnvart því fólki sem á stórra hagsmuna að gæta í þeim málaflokki sem um ræðir.

Ég er hlynntur því að sá möguleiki verði fyrir hendi í framtíðinni að hægt verði að virkja í Skagafirði. Ég vil að við eigum þann möguleika til að geta nýtt orkuna í uppbyggingu á atvinnu hér heima í héraði. Ég er hins vegar alfarið á móti virkjun ef fyrirsjáanlegt er að orkan eigi að fara til annarra verkefna en hér heimavið.

Forysta Samfylkingarinnar verður að starfa í takt við fólkið í grasrótinni. Hún verður að vita fyrir hverja hún starfar og til hvers er ætlast af henni. Forysta sem ekki gerir það, fær einfaldlega rauða spjaldið og er skipt út. Byggðapólitíkin hefur verið nær handónýt á Íslandi í mörg ár og loksins þegar menn sjá fram á að eitthvað geti hugsanlega rofað til í atvinnumálum á þessum svæðum sem hér um ræðir og eiga í vök að verjst, koma menn fram með svona hugmyndir sem ganga þvert ofan í áhuga og vilja heimamanna.

Í þessu liggur einn af meginvandamálum Samfylkingarinnar, að forystan er ekki í tengslum við grasrótina.

Hilsen


Lífleg skrif um þorrablótið í Bolungarvík - stóralvarlegt mál!!

Þetta hófst allt hér með grein óánægðar húsfreyju, sem ég held þó að eigi rétt á setu á blótinu en átti það ekki áður, þegar hún var kona einsömul http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93670

Síðan kom Kata Gunn sterk inn og reit grein á einhverskonar forníslensku og vísar væntanlega hinar fornu hefðir og upplýsir jafnframt þjóðina um karlamálin sín http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93765

Þá kom öflug varnarræða þar sem m.a. er bent á að ekki átti fólk nú miða vísann á árshátíð Lions hér í denn, nema að þekkja einhvern í klúbbnum, hafiði það !! http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93806

Svo er hér ein frekar kaldhæðin þar sem tekin eru raunveruleg dæmi um stöðu margra einstaklinga sem ekki fá að sitja blótið góða, ég meina hvað á homminn að gera? http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93810

Og að lokum ein sem spyr margra spurninga um þetta háalvarlega mál, ef við ætlum að breyta þessu hvaða girðingar á þá eiginlega að setja?  http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=94046

Þeir sem halda að ég sé eitthvað að grínast með þetta ættu að skammast sín því þarna er um háalvarlegt mál að ræða sem þjóðin þarf að fá botn í. Þeir sem íhuga það að flytja til Bolungarvíkur hugsa sig nú tvisvar um er ég hræddur um. Alla vega þeir sem eru einsamalir. Og ekki getur hjóna- eða sambúðarfólk hugsað sér að flytja þangað, því ef upp úr slitnar er ekki möguleiki að fá miða á blótið.

Hilsen


Farsi á Alþingi

Ég ætlaði að hlusta í beinni útsendingu frá utandagskrárumræðum frá Alþingi um málefni Byrgisins sem átti að hefjast kl. 10.30. Nú er kl. 11.07 og umræðan ekki hafin ennþá.

Þess í stað hófust umræður um "störf þingsins" eins og það heitir. Þar voru menn að karpa um framkvæmd umræðu um ríkisútvarpsfrumvarpið. Svo þegar tíminn var búinn til að ræða störf þingsins bjóst maður við að utandagskrárumræðan hæfist, en viti menn. Þá var hægt að taka til máls um fundarstjórn forseta og það er hreinn brandari að hlusta á það. Þar eiga menn að ræða um fundarstjórn forseta, en umræðan um ríkisútvarpsfrumvarpið hélt áfram á svipuðum nótum. Þegar menn misstu sig greip forseti frammí og minnti menn á að það ætti ekki að ræða efnistök frumvarpsins heldur um fundarstjórn forseta.

Ég ætla að fara út á leikskóla núna á eftir og hlýða þar á mun gáfulegri umræður leikskólakrakka í sandkassanum.

Hilsen


Fáránleikinn uppmálaður

Ef þið haldið að það sé ekkert að gera hjá mér í vinnunni þá er það rangt. Ég er að bíða. Bíða eftir svörum og drögum að samningum og hinu og þessu.

Þá fer maður að skoða bloggin og það blogg sem ég fer oft inn á er hjá Steingrími Sævarri.  Tékkið á þessu http://saevarr.blog.is/blog/saevarr/?nc=1 og sjáið fáránleikann í sinni björtustu mynd.

Kaktus Ylur kveður.

Hilsen


Takk fyrir!

Hver hefur ekki verið á fyrirlestri eða fundi þar sem glærur eru notaðar? Oft fer maður á flotta fyrirlestra með flottum glærum og svo kemur sú síðasta; "Takk fyrir!" Mér finnst þetta svo hallærislegt að ég bara verð að koma orðum að því. Það er eins og ekki sé hægt að þakka fyrir sig nema að setja það á glæru og svona til að undirstrika að glærushowið sé nú búið og allir taki eftir því!

 Ég segi bara:

takk fyrir

.....svona til að tryggja að allir sjái að ég ætli ekki að blogga meira um þetta.


Pólitískar vangaveltur almúgamanns

Já það er ýmislegt að gerast í pólitíkinni þessa daga. Núna er genginn í garð sá tími sem ráðherrar skrifa undir allskonar samninga hér og þar um fjárveitingar í hin ýmsustu verkefni. Sum þeirra og líklega flest ákaflega þörf. Það er í raun hægt að korleggja kjörtímabil ríkisstjórna og sveitastjórna líka á þann hátt að á fyrstu tveimur árunum eru teknar erfiðar og oft sársaukafullar ákvarðanir, en á síðasta árinu er peningum dreift vinstri hægri til að mýkja lýðinn upp aftur fyrir kosningar, hent í okkur bitlingum hér og þar. En þetta er víst gangurinn.

Ég er spenntur yfir prófkjöri Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og ég er líka spenntur að sjá hvað Kiddi sleggja gerir á kjördæmisþingi Framsóknarmanna hér í Norð-vesturkjördæmi um næstu helgi. Sættir hann sig við þriðja sætið, eða tilkynnir hann að hann hyggist hætta í framsóknarflokknum og stofna sérframboð? Spennó.

Það eru ýmsar bollaleggingar um næstu ríkisstjórn þegar farnar að koma fram. Nú ætla ég bara að vera heiðarlegur og hreinskilinn. Samfylkingin hefur valdið mér vonbrigðum. Ég ól þá von í brjósti að sá ágæti flokkur yrði þessi dæmigerði sósíaldemókratíski flokkur, eilítið hægrisinnaður, sem verði og byggði upp ákveðið markaðshagkefri, en á hinn bóginn stæði vörð um þá sem minnst mega sín. Ómarkviss málflutningur og of vinstrigræn stefna í umhverfismálum m.a. hefur hins vegar valdið því að ég hef orðið fyrir vonbrigðum og myndi ekki finna mig sem félaga þar. En þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir að listi þeirra í Norðvesturkjördæmi sé nánast handónýtur, gæti farið svo að ég kysi Samfylkinguna. Af hverju? Jú, því ég vil sjá næstu ríkisstjórn skipaða sjálfstæðisflokknum og samfylkingu. Af hverju? Jú, ég treysti ekki stjórnarandstöðunni til að viðhalda hér hagvexti og svona semí-stöðugleika í efnahagslífinu, en ég treysti sjálfstæðisflokknum heldur ekki til að bæta hag þeirra sem minnst mega sín. Samfylkingin gæti komið með ákveðið jafnvægi og nýjar áherslur í félagsmálapakkann sem þörf er á að taka til í. Á sama tíma væri hagstjórnin í höndum þess flokks sem ég hef trú á að geri minnstu vitleysurnar. Þannig sé ég þetta bara. Og af hverju kýs ég þá ekki sjálfstæðisflokkinn bara? Jú, af því að ég vil frekar fá samfylkinguna í ríkisstjórn en aðra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu, að ógleymdum framsóknarflokknum sem á í mikilli tilvistarkreppu nú um stundir. Í mínum huga er þetta bara spurningin um hvaða flokkur fer með sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn og þá reyni ég að styðja þann sem ég vil sjá með honum. Eða svona er staðan alla vega í dag.

Hvað ætli Árni Þór segi núna?Smile

Hilsen


Annasöm helgi - nema hvað?

Jæja gott fólk. Smá fréttir að norðan um það sem við höfum verið að bardúsa síðustu daga.

Nýtt eldhús leit dagsins ljós á föstudaginn og erum við bara helv... ánægð með útkomuna. Panellinn á bak við klæðningarnar reyndist bara svona ljómandi fínn og hann setur skemmtilegan svip á eldhúsið. Við máluðum allt saman og settum síðan nýjar höldur á alla skápa, höldur sem við erum búin að flytja með okkur frá Svíþjóð og síðar frá Ísafirði. Keyptum þær í Turkish house verslun í Stokkhólmi.

Var að argast í morgun í tryggingakallinum hjá VÍS um að drífa nú í að klára kjallarann, steypa nýtt gólf í stað þess sem var ónýtt og steypa í götin sem þurfti að grafa til að laga biluðu lögnina. Síðan verður tekist á um það hvort að ónýt klæðning í kjallaranum sé afleiðing af umræddum leka og höldum við fast í að svo sé.

Stína tengdó kom í heimsókn um helgina og sló í gegn að venju. Mætti á svæðið vopnuð saumavél sem kólnaði lítið um helgina. Hún gerði við ónýt hné og klof á buxum, græjaði forláta prjónapils sem hún prjónaði á Guðnýju og var bara í aksjón frá því hún kom og þangað til hún fór. En það svo sem skiptir ekki máli hvað hún gerir, heldur aðallega að hún bara komi og eyði smá tíma með okkur. Elduðum lambalæir og naut á laugardagskvöldið og gamli kom í mat. Við Stína tókum svo úr einni rauðvín yfir heimildarmyndinni um Jón Pál. Mér fannst myndin mjög skemmtileg og talsvert önnur sýn á karlinn en maður hafði hér í denn. Krakkarnir höfðu gaman af því að horfa á skemmtikraftinn Jón Pál, enda var hann það fram í fingurgóma. Líklega höfum við íslendingar ekki gert okkur grein fyrir því hversu dáður hann var erlendis fyrr en þessi mynd kom fram.

Á sunnudaginn fórum við í að flytja ömmu gömlu á milli hæða á dvalarheimilinu. Hún flutti af dvalarheimilinu þar sem sjálfbjarga fólk dvelur og upp á hjúkrunardeildina þar sem hún verður í umönnun allan sólarhringinn. Hún var eiginlega orðin hálf ófær um að sjá um sig sjálf hvað mat og drykk varðar og var farin að gleyma að taka lyfin líka. Þá er eiginlega kominn tími á að gera eitthvað í málinu og okkur tókst að sannfæra hana um það. Fínt herbergi sem hún fékk og við náðum að gera það bara mjög vistlegt. Sú gamla var frekar neikvæð í gær en þakkaði okkur samt afskaplega vel fyrir þetta allt saman þegar við kvöddum hana. Nú er bara eitt herbergi á milli hennar og mömmu og mér hlýnar svolítið að vita af því, því amma var ekkert alltaf í standi til að fara upp og heilsa upp á mömmu.

Í gærkvöldi brá síðan svo við að við hjónin gátum sest niður í rólegheitunum þegar krakkarnir voru farnir að sofa og horft saman á sjónvarpið. Það fullyrði ég að hafi ekki gerst síðan við fluttum og var býsna kærkomið. Gretti fannst tími kominn á þetta líka og kom sér vel fyrir á milli okkar. En það var hann vanur að gera fyrir vestan þegar ró var komin á húsið, að kúra með okkur í sófanum og fá klapp og klór með reglulegu millibili.

Hilsen


Ég er klikkaður

Vaknaði kl. hálf sjö í morgun, 20 mínútum á undan vekjaraklukkunni. Þá var um tvennt að ræða. Að liggja og hanga þangað til hún hringdi eða fara að gera eitthvað.

Ég tók síðari kostinn, fór að gera eitthvað og skellti málningu á einn vegg í eldhúsinu. Þetta þýðir það að ég þarf ekki að gera það þegar ég kem heim í dag og við getum farið að taka til í eldhúsinu og koma öllu fyrir aftur.

Þannig að þetta margborgaði sig, þó einhverjar spurningar vakni um geðheilsu mína að mati einhverra.

Hilsen


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband