Færsluflokkur: Dægurmál

Páskafríið framundan - ég hlakka til

Páskarnir eru einhvern veginn eina fríið sem hægt er að treysta á. Það eru alltaf þessir 5 dagar í beit og ekkert flakk á þeim.

Þessir páskar verða um margt sérstakir fyrir okkur fjölskylduna. Jú þetta verða fyrstu páskarnir í sögu þessara bráðum þriggja ára gömlu fjölskyldu sem við erum öll saman. Málið hefur nefnilega verið þannig að krakkarnir hafa verið hjá hinum foreldrum sínum yfir páskana, en við náðum að koma því réttlætismáli í gegn að við fáum að hafa þau aðra hverja páskahátíð. Þau hafa verið í burtu síðan í síðustu viku en koma heim á morgun.

Við hjónin höfum staðið sveitt yfir endurskipulagningu herbergja, málningarvinnu, húsgagnasamansetningum og fleiru sem fylgir. Strákarnir eru að fara í sitt hvort herbergið núna eftir að hafa deilt herbergi alla sína samtíð. Það hefur gengið mjög vel en nú er Haukur orðinn átta ára og Skírnir að verða sex og því kominn tími á þetta. Við náðum að gera agnarsmátt herbergi gríðarlega flott með Spidermanþema fyrir Skírni og erum ákaflega stolt af okkur. Árdís fékk herbergið sem strákarnir voru í og við höfum verið að taka það í gegn líka og nú er það svona mitt á milli þess að vera barnaherbergi og unglingaherbergi enda er skvísan að verða tíu ára. Við klárum herbergið hans Hauks í dag, það verður hvítt og Arsenal-rautt og í Arsenal þema. Það verður bara frábært að fá liðið heim aftur.

Annars er föstudagurinn langi ákaflega sérstakur dagur, því þá hittumst við Guðný í fyrsta skiptið á dansleik í Hnífsdal með Írafári, á tónleikatúr sem hét "Nýtt upphaf" veit ekki hvort það var eitthvað táknrænt. Sérstök stund þegar við horfðumst í augu í fyrsta skiptið frammi í anddyrinu á félagsheimilinu. Þetta var 2004.

Við eigum von á gestum því Björg systir, Simmi og Bjarki ætla að koma á föstudaginn og vera fram á sunnudag. Kærastan hans Bjarka verður frumsýnd þessa helgi. Verð að hemja mig í að hrella hana ekki. Ekki mikið alla vegaWink

Svo er að semja ratleikinn fyrir páskaegg krakkanna, þau verða send á allar hæðir og jafnvel út ef því er að skipta.

Ég óska öllum gleðilegra páska og vona að þeir verði ánægjulegir í alla staði. Tek til við blogg að nýju eftir hátíðina.


Lifi rokkið!!

Keith Richards, gítarleikari Rolling Stones, viðurkenndi í blaðaviðtali að hann hefði tekið ösku föður síns og blandað við kókaín sem hann tók síðan í nefið. Aðspurður sagði hann að blandan hefði ekki verið slæm - hann væri jú ennþá á lífi. Faðir Keiths dó árið 2002. Enn fer engum sögum af viðbrögðum móður Keiths við fréttunum.

Einhvern veginn kemur þetta ekkert rosalega á óvart.

En aldrei gæti ég tekið gamla í nefið.


Niðurstaðan í Hafnarfirði kallar á önnur álver annarsstaðar

Það eru sumir sem halda því fram að Hafnfirðingar hafi markað stefnu landsmanna í stóriðjumálum með því að hafna stækkun álversins í Straumsvík. Því fer býsna víðs fjarri að mínu mati. Uppbygging stóriðju hefur verið helsta ástæða þenslu hér á landi undanfarin ár og nú þegar Straumsvík er úr leik æsast aðrir stóriðjustuðningsmenn sem því nemur. Þeir geta nú bent á að ein af þeim álversframkvæmdum sem jafnvel voru fyrirhugaðar sé nú úr leik og því hljóti aðrar eins og Helguvík og Húsavík að færast ofar í röðinni.

Nú fer ballið rétt að byrja.


Verður ekki bara gjaldþrota

Það verða nú fleiri þrot hjá honum eftir leikinn á morgun blessuðum nojaranum.
mbl.is John Arne Riise lýstur gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rooooosalegur leikur á morgun!!

Já nú bara verð ég aðeins að tjá mig um enska boltann. Á morgun verður nefnilega leikur Liverpool og Arsenal hádegisleikurinn í úrvalsdeildinni. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið, sem freista þess að reyna að ná Chelsea í öðru sætinu og sleppa þar með við þátttöku í undankeppni meistaradeildarinnar. Arsenal er eins og stendur í þriðja sæti, stigi á undan Liverpool og eiga auk þess leik til góða. Það væri auðvitað ákjósanlegast að þeir myndu vinna og komast þar með fjórum stigum frá þeim og vinna síðan leikinn til góða og auka muninn í sjö. Bolton er í fimmta sæti með 67 stig og ef Liverpool tapar leiknum og Bolton vinnur, verður aðeins fjögurra stiga munur á þeim og upp úr því getur allt gerst.

Þannig að sigur er mjög mikilvægur fyrir bæði liðin. Þó ég sé ekkert sérstaklega mikill aðdáandi Adebayor þá er gleðilegt að hann sé kominn aftur í liðið eftir heimskupörin gegn Chelsea í úrslitum deildarbikarsins en eftir þau lenti hann í fjögurra leikja banni blessaður.

Henry meiddur, Van Persie meiddur, Walcott meiddur. Þannig að frammi verða þá líklega Adebayor og Baptista. Clichy og Eboue eru báðir búnir að ná sér af meiðslum og verða því væntanlega í bakvarðarstöðunum, sem þýðir að vörnin kemur nú aftur til með að líta út eins og alvöru vörn með þá Toure og Gallas í miðvarðarstöðunum. Í bakvarðarhallærinu hefur Wenger verið að setja Djorou í hægri bakvörðinn og jafnvel Toure og sett Gilberto í miðvörð.

Miðja ætti að geta orðið mjög sterk. Gilberto er að vísu eitthvað smá meiddur en búist við að hann spili samt sem áður. Þá verða hann og Fabregas líklega á miðri miðjunni og Hleb alveg örugglega úti hægra megin og annað hvort Ljungberg eða Rosicky úti vinstra megin.

Liðið verður þá svona:

Helvítið hann Jens í markinu, Eboue, Toure, Gallas og Clichy í vörninni, Hleb, Gilberto, Fabregas og Rosicky á miðjunni og Baptista og Adebayor frammi.

Úrvalið á bekknum verður líklega all gott. Miðað við þessar væntingar mínar um byrjunarliðið verður þá Ljungberg á bekknum ásamt, Aliadére, Diaby, Senderos og hinum ástsæla varamarkverði Almunia.

Ég hvet fólk til að setjast niður fyrir framan sjónvarpið á morgun í hádeginu og sjá stórslag þessara toppliða frá Anfield kl. 11.45.


mbl.is Adebayor með Arsenal gegn Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins, loksins!!

Þá er loksins búið að afgreiða úr ríkisstjórn tillögur varðandi ferðasjóð íþróttafélaga. Mikið hefur verið rætt og ritað um ferðakostnað íþróttafélaga í gegn um árin og klárt að þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál íþróttafélaga úti á landi.

Bíð þó eftir nánari útfærslum, ÍSÍ hefur verið falið að halda utan um sjóðinn en það hlýtur að eiga eftir að smíða regluverk í kring um sjóðinn og trúi ég að þeir félagar Ólafur Rafnsson og Stefán Konráðsson vinni það af stakri snilld eins og flest annað sem þeir hafa komið nálægt.

Nú er spurningin hvort að Reykjavíkurfélögin sem oft hafa kvartað mikið yfir því að þurfa að fara út á land að spila 2-3 á ári, geri tilkall í sjóðinn en ég neita að trúa því að þegar menn skoði hlutfall á milli ferðakostnaðar landsbyggðarliða og liða á höfuðborgarsvæðinu, reynist grundvöllur fyrir því að styrkja höfuðborgarfélög með þessum hætti.


mbl.is 90 milljónir settar í ferðasjóð íþróttafélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppáhalds fréttamaðurinn minn er Gissur Sigurðsson

Það eru fáir sem standast Gissuri Sigurðssyni fréttamanni snúning að mínu mati. Hann hefur ekki aðeins viðkunnalega rödd heldur tekst honum á einstakan hátt að koma fréttum sínum á framfæri. Á morgnana kemur hann fram í Íslandi í bítið og setur þá skemmtilegan persónulegan vinkil á fréttaflutninginn. Í morgun brá svo við að hann fór að rifja upp martraðir sínar tengdar fréttamennskunni og voru þær helstar á þann veg að hann kæmi ekki upp hljóði þegar hann væri kominn í hljóðverið og græna ljósið hefði kvikað, að stafirnir rynnu allir saman og hann gæti ekki lesið handritið og ýmislegt svoleiðis. Það var gaman að hlusta á þetta.

Um daginn kom hann svo móður og másandi inn í stúdíóið að hann kom vart upp orði og maður hélt að hann væri að deyja karlinn. En svo gerði hann bara hlé og sagði að þetta gengi ekki upp og hann myndi bara flytja fréttirnar í næsta fréttatíma. Eitt sinn heyrði hann ekki í neinum og alls ekki sjálfum sér og vissi því ekki hvort hann væri í loftinu eða ekki. Afsakaði það bara og kvaddi.

Svona mætti lengi telja. Gissur er minn maður, það er alveg ljóst og einn af þeim fréttamönnum sem lífgar upp á daginn.

Áfram Gissur!!


Gleraugun fuku - í orðsins fyllstu!! Gleraugnaharmsaga

Ég varð fyrir einkennilegri reynslu nú í eftirmiðdaginn. Svo einkennilegri að ég bara verð að deila henni með ykkur.

Ég var að fara út með ruslið eins og góðum húsbónda sæmir. All hvasst var úti, sunnan helvítis rok og það gekk á með all snörpum hviðum. Ekki var þetta þó það slæmt að ég haggaðist en þeir vita sem þekkja, að það þarf meira en stormviðvörun til að lyfta mér frá jörðu.

En þar sem ég lýk við þann hreinlætisgjörnin að fleygja pokunum ofan í ruslatunnuna, sný ég frá og loka hliðinu. Þegar ég er síðan á gangi norðan megin við húsið og á leið inn, bregður svo við að heljarinnar vindhviða gengur yfir. Ekki vill betur til en svo að vindurinn kemst inn fyrir gleraugun mín og sviptir þeim af kartöflunni í einu vetfangi. Skiptir engum togum að gleraugun fjúka af andlitinu á mér, niður á jörðina og taka skrið niður götuna á ógnarhraða. Ég stóð sem stjarfur eftir og trúði varla mínum eigin augum og allra síst náttúrlega eftir að gleraugun voru fokin. Ég sé í móðu þar sem gleraugun fljúga í áttina að Aðalgötunni á fleygiferð. Ég bregst snarlega við og tek á rás á eftir þeim. Þá vill ekki betur til en svo að þau fara yfir snjó og klaka og eru þar með horfin sjónum mínum (ekki það að ég sæi neitt vel sko), því þau voru glær í gegn, engin umgjörð eða neitt þannig sem skorið gæti þau úr í snjónum. Ég svipaðist um þarna í dágóða stund, en sá ekki neitt - hafi einhver haldið það.

Við tók brjálæðislegur hlátur og ég hló og hló í langan tíma á eftir. Þetta var bráðfyndið þegar öllu er á botninn hvolft þó missirinn sé talsverður. Þegar konan kom heim útskýrði ég fyrir henni hvað hafði gerst. Hún hló ívið meira en ég, gekk þarna niður eftir og svipaðist um eftir gleraugunum en fann ekki neitt þó alsjáandi sé. Nokkra linsugarma átti ég í baðskápnum og fóru tvær þeirra forgörðum áður en ég kom öðrum tveimur í augun nokkuð skammlaust. Var ég þá orðinn rauðeygður og illa særður á báðum augum við að troða þessu helvíti í andlitið á mér. Kvíði all mikið fyrir morgninum.

Þessi atburður rifjaði upp annað atvik sem gerðist að mig minnir 92 eða 93. Þá fór ég á körfuboltaæfingu eins og maður gerði á hverjum degi á þeim árum. Ég fór inn, klæddi mig í æfingaföt og fór á æfingu. Eftir æfinguna þegar ég var að klæða mig seildist ég í buxnavasann til að sækja þáverandi gleraugu. Ekki voru þau þar og í hvorugum vasanum. Heldur ekki í jakkanum sem ég var í. Ég hugsaði með mér að ég hlyti þá að hafa tekið þau af mér í bílnum. Og ég fer út í bíl. Sest inn og svipast um eftir gleraugunum. Engin finn ég gleraugun og fóru nú að renna á mig tvær. Ég fer aftur inn í íþróttahús, spyr húsverðina, leita betur en án árangurs. Djöfullinn hafi það, hugsaði ég með mér, ekki fór ég gleraugnalaus að heima áðan. En það þýddi ekkert að velta sér upp úr þessu. Það skal tekið fram að ég er með mínus 1.5 í sjón og hef verið það síðan ég byrjaði að nota gleraugu 80 og eitthvað.

En hvað um það, ég sest upp í bíl, set í gang og bakka frá. Þegar ég er búinn að bakka svo sem hálfa bíllengd frá, sé ég glampa á eitthvað á jörðinni fyrir framan bílinn. Ég stekk út, fer fyrir framan bílinn og viti menn!! Þar voru helvítis gleraugun gjörsamlega í spaði enda var ÉG SJÁLFUR BÚINN AÐ KEYRA YFIR ÞAU!! Hvað ætli það séu margir sem hafi keyrt yfir gleraugun sín.

Ég hugsaði með mér, það var bara eins gott að ég var ekki með þau á hausnum þegar þetta gerðist!!


Músíktilraunir, nokkrar minningar rifjaðar upp

Sá að músíktilraunirnar þetta árið eru að hefast. Það vakti upp ótal minningar frá árdögum hljómsveitarmennsku minnar.

Við félagarnir stofnuðum Bad Boys 1982 13 ára gamlir. Héldum þá í nóvember tónleika með frumsömdu efni í félagsmiðstöðinni. Tónleikarnir stóðu í um klukkustund og var það all gott afrek að ná að spila eingöngu frumsamið efni á þessum tíma. Ég man að ágóðinn - utan smá peningur til leigu á videotæki og spólum, rann til uppbyggingar félagsmiðstöðvarinnar.

Um vorið 1983 skelltum við okkur í músíktilraunakeppnina sem þá var haldin aðeins í annað skiptið. Við fengum að leika þrjú lög. Ef mig misminnir rétt voru það lögin Spurðu mig ei, Skandall - sem var instrumental og ........bara man ekki hvað þriðja lagið var. Hvort það var Línan. En alla vega við tókum þátt í keppninni. Það var fámennt í salnum. Pabbi hans Stjána og konan hans voru þarna auk nokkurra sem all flestir voru á okkar bandi. Við áttum við salinn og hvort sem það var því að þakka, þá komumst við í úrslit sem haldin voru á Kjarvalsstöðum. Stúlknahljómsveit að nafni Dúkkulísurnar höfðu helst vakið athygli þetta árið sem og Bláa bílskúrsbandið fyrir ótrúlegan gítarleikara sem rétt var 12 ára eða svo þarna. Þar var kominn Guðmundur Pétursson gítarsnillingur. Þegar við komum í Tónabæ á undanúrslitakvöldið heyrðum við þvílíku tónana að við vorum að hugsa um að snúa við og hætta við allt saman. Héldum við að þarna væru keppinautar okkar að æfa sig en svo var nú sem betur fer ekki. Þetta var hljómsveitin Pax Vobis sem var gestahljómsveit þarna en hana skipuðu fjórir drengir sem allir voru í FÍH. Geiri Sæm, Skúli Sverrisson, Þorvaldur Bjarni og Þorsteinn Gunnarsson. Okkur létti talsvert að vita að þeir væru bara gestahljómsveit. En svo fór að Dúkkulísurnar unnu þetta árið en við töldum okkur góða að hafa komist í úrslit. Það er til góð saga af því þegar Kiddi Balda hljóp um ganga gaggans morguninn eftir að við spiluðum á undankvöldinu og laug því að hann hélt, að við hefðum komist í úrslit. Það fréttist hins vegar ekki fyrr en seinna um daginn að það hefði orðið niðurstaðan. Hvort Kiddi hafði svona mikla trú á okkur skal ósagt látið, en hitt er þó líklegra að hann hafi ætlað að plata þarna hálfan skólann.

1986 hét hljómsveitin Metan. Um veturinn 85-86 greip um sig ósætti innan Bad Boys eins og gjarnan gerist í alvöru hljómsveitum. Stjáni og Birkir stofnuðu tölvupopphljómsveit með Óskari Páli en ég, Svabbi og Árni stofnuðum Metan og fengum til liðs við okkur Kristinn Baldvinsson hljómborðsleikara. Þetta ósætti varð nú skammvinnt. Hljómsveitirnar tvær urðu að einni, Metan og varð Kristinn þriðji hljómborðsleikarinn í sveitinni. En á þeim tíma þótti það talsvert gott að vera með þrjá hljómborðsleikara og við reyndum að útsetja lögin okkar með það í huga. Stjáni var líka farinn að bregða sér frá hljómborðinu sínu og fronta hljómsveitina í nokkrum lögum. En við skráðum okkur í músíktilraunirnar 1987 reynslunni ríkari og héldum í bæinn. Unnum undanúrslitakvöldið okkar og komumst í úrslit. Stuðkompaníið frá Akureyri var með í keppninni þetta árið með þá frændur mína Kalla og Alta Örvars fremsta í flokki og þeir unnu keppnina þetta árið. En okkar uppskera varð annað sætið og undum við því býsna vel. Mig minnir að þetta árið hafi Grafík verið gestahljómsveit á öðru hvoru kvöldinu og þar kynntu þeir til leiks nýja og sérstaka söngkonu, Andreu Gylfadóttur.

En þar með var okkar þátttöku ekki lokið. Kiddi Baldvins hætti í hljómsveitinni og við breyttum nafni okkar úr Metan í Herramenn sem síðan varð helsta nefn hljómsveitarinnar á næstu árum ef undan er skilið alla vega eitt ball, sem við hétum Danshljómsveit Birkis Guðmundssonar, af einhverju tilefni. En 1988 skráðum við okkur aftur til leiks í músíktilraunum og aftur komumst við í úrslitin. Við mættum í smóking fötum enda vart annað við hæfi þar sem hljómsveitin hét jú Herramenn. Í úrslitunum eygðum við góða von um sigur. Þar voru okkar helstu keppinautar Jójó frá Skagaströnd og svo fór að þeir unnu. Við hímdum inni á klósetti á meðan úrslitin voru kynnt og ætluðum vart að trúa því þegar við vorum lesnir upp í annað sætið. Gríðarleg vonbrigði og okkur fannst þetta súr í broti. En náðum samt að gefa út fjögur lög þetta árið og áttum eina vikuna tvö lög á vinsældalista rásar tvö; Nótt hjá þér sem var í öðru sæti og Í Útvarpi - oft verið talað um sem eitt versta popplag Íslandssögunnar, var í því ellefta.

En músíktilraunirnar hafa verið mörgum hljómsveitum dýrmæt lexía og það get ég vottað sjálfur og félagar mínir. Hins vegar veit ég ekki hvort að nokkur önnur hljómsveit - eða hópur sem skipti alltaf um nafn, hefur farið eins oft og við gerðum.


Hvar eru Suðurfirðingarnir í Vestfjarðanefndinni?

Það vekur athygli mína að enginn skuli hafa verið tilnefndur í Vestfjarðanefndina af suðursvæði Vestfjarða. Það virðist vera sem svo að vandamál landsfjórðungsins einskorðist við norðursvæðið en því er nú ekki að heilsa. Samgöngumálin hafa verið í molum sunnan megin einnig og hár flutningstkostnaður hefur reynst mönnum erfiður þar ekki síður en norðanmegin.

Það býr eitthvað einkennilegt að baki því að enginn fulltrúi skuli vera frá suðursvæðinu. Það hefði nú ekki verið mikið vandamál að bæta við einum stól og fá fram sjónarmið þeirra einnig. Eða er þessi nefnd kannski óþarfa biðleikur? Liggja ekki fyrir tillögur sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum um aðgerðir? Til hvers þá að vera að setja saman þessa nefnd?

Sveitastjórnarmenn á norðanverðum Vestfjörðum hafa því miður lagt ofuráherslu á að telja kílómetrana til Reykjavíkur í stað þess að sína áhuga á að byggja upp heilsárssamgöngur yfir á suðursvæðið. Það eru mikil mistök og ég hef áður lýst því að það eru að mínu mati, ein mestu mistökin sem gerð hafa verið sl. 10 ár í byggðaaðgerðum vestra. Að gefa fólki ekki tækifæri til að byggja sig upp innanfrá og standa þannig saman sem ein heild er háalvarlegt mál. Það hefði átt að byrja á þessu fyrir löngu, löngu síðan, eða í kjölfarið á Vestfjarðagöngunum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband