Færsluflokkur: Dægurmál

Vestfjarðaaðstoð STRAX!!

Loksins virðast menn vakna við vondan draum þessa dagana og átta sig á því að Vestfirðir hafa orðið algjörlega útundan í framþróun íslensks samfélags og atvinnulífs. Nú er beðið niðurstöðu ríkisstjórnarfundar um þetta málefni og ráðherrar keppast við að lýsa yfir því að nú verði eitthvað gert.

Þó fyrr hefði verið.

Ég hef reyndar dálitla trú á því að raunhæfar tillögur líti dagsins ljós, þar sem stutt er í kosningar. Það er í raun sorglegt að það þurfi kosningar til að koma mörgum framfaramálum sem setið hafa á hakanum í framkvæmd.

Samgöngur á Vestfjörðum eru sér kapítuli og með ólíkindum að ráðamenn þjóðarinnar hafi látið það viðgangast í áratugi að einangra Vestfirði með skammarlega lélegum samgöngum. Það hefur verið mín bjargfasta skoðun að síðustu 10 árin hafi menn einblínt of á styttingu leiðarinnar til Reykjavíkur, í stað þess að byggja um heilsárssamgöngur á milli norður- og suðursvæða Vestfjarða. Vestfirðingum hefur ekki einu sinni staðið það til boða að vinna saman innanfrá vegna þessa. Samstaða á einangruðu svæði eins og Vestfjörðum er lykilatriði í framþróun byggðar. Og í raun alveg ótrúlegt að sveitarstjórnarmenn og þingmenn á Vestfjörðum hafi barist fyrir því að Ísafjörður verði skilgreindur sem byggðakjarni en leggja ekki samtímis ofuráherslu á að hann geti staðið undir því nafni með því að standa suðursvæði Vestfjarða til boða hvað varðar verslun og þjónustu. Nei þess í stað hafa menn eytt öllu púðrinu í að telja kílómetrana til Reykjavíkur. Það er ein stærstu mistökin sem gerð hafa verið varðandi byggðaþróun á Vestfjörðum sl. 10 ár eða svo.

Það hefði fyrir löngu verið hægt að gera eitthvað í lækkun flutningskostnaðar. Verðskrá flutningafyrirtækjanna tekur m.a. mið af þeim vegum sem bílarnir þurfa að aka, til að koma vörum á áfangastað. Það að fara yfir fjölda erfiðra fjallvega og aka á vondum malarvegum hlýtur að slíta bílunum meira og þar af leiðandi þurfa flugningafyrirtækin að gera einhverjar ráðstafanir. Mér finnst fáránlegt þegar fólk er að blammera flutningafyrirtækin hvað þetta varðar, það væri nær að líta til ráðamanna þjóðarinnar, sérstaklega þeirra snillinga sem farið hafa með byggðamál. Það er hægt í dag að leggja fram fjármagn til að niðurgreiða flutningskostnað og gera hann jafnan á við það sem gerist til annarra landshluta. Þetta eru að vísu sértækar aðgerðir sem manni virðist oft að sjálfstæðismenn megi ekki heyra minnst á, en í guðana bænum, þetta er spurning um líf eða dauða fyrir þetta landsvæði.

Opinber störf geta aldrei orðið grundvöllurinn að atvinnulífi neinsstaðar og eiga ekki að vera. Ríkið getur hins vegar stutt atvinnulífið með tilfærslum á verkefnum og stofnunum. Í nútíma samfélagi og með tilliti til framtíðartækniframfara er vel hægt að staðsetja opinberar stofnanir og skrifstofur úti á landi. Nýleg dæmi um fæðingarorlofssjóð á Hvammstanga sanna þetta og eru til eftirbreytni. Samskipti á milli almennings og svona stofnana verða æ algengari með rafrænum hætti og því er alveg sama hvar þetta er staðsett. Vilji er allt sem þarf.

Eðlilegur aðgangur að fjármagni er eitt af þeim atriðum sem brýnt er að leysa úr. Síðan bankarnir voru einkavæddir og krafa um arðsemi orðið antí-landsbyggðarvæn, hafa þeir markvisst lokað á lán til atvinnusköpunar á Vestfjörðum. Þessu verður að breyta. Byggðastofnun verður að fá fjármagn til að lána til atvinnulífsins fyrir vestan og það fjármagn kemur bara frá ríkinu. Það er til fólk með hugmyndir fyrir vestan, vilja og kraft til að framkvæma, en þessu fólki verður að koma til aðstoðar með að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.

En nú verða menn að hysja upp um sig buxurnar og fara út í raunverulega aðstoð við byggðarlögin á Vestfjörðum. Þar er kraftmikið, hugmyndaríkt fólk sem þar býr, ég get upplýst fólk um að þar er gott að búa en menn hafa sofið á verðinum og það verður að koma Vestfjörðum til bjargar og hjálpa þeim að hjálpa sér sjálfum.


Körfuboltablogg

Spennandi lokaumferð í boltanum í gærkvöldi og all mörg lið færðust til um sæti. Óvænt úrslit hjá KR og Grindavík annars vegar og Skallgarími og ÍR hins vegar. Einhvern tímann hefðu það þótt óvænt úrslit að Snæfell legði Keflavík að velli í Sláturhúsinu en svo er ekki þetta tímabilið. Býst þó við Keflvíkingum beittum í úrslitakeppninni. Þór Þorlákshöfn féll því miður. Ekki að ég hefði óskað Bárði vini mínum þess að falla með Fjölnisstrákana sína, heldur er bara skemmtilegur körfuboltaandi í Þorlákshöfn og fengur að hafa þá uppi í deildinni.

Mínir menn í Tindastól sigldu lygnan sjó. Markmiðið náðist að halda sér uppi, en með eilítið betri varnarleik hefði liðið getað komist í úrslitakeppnina.

Mikið verið rætt um útlendinga í íslenska körfuboltanum undanfarið. Menn sem hafa tjáð sig um það eru oft illa upplýstir. Helsta ástæðan fyrir fjölda útlendinga hlýtur að vera skortur á frambærilegum íslenskum leikmönnum hjá þeim liðum sem hafa marga útlendinga. Þrír útlendingar viðrast vera orðnar forsendur margra íslenskra liða í úrvalsdeild og jafnvel víða. Veit að staðan hjá mörgum liðum úti á landsbyggðinni er sú að þeir verða að fá útlendinga til að geta telft fram liði yfir höfuð. Staðreyndin er líka sú að sum lið og meira að segja á suðurnesjunum, búa við manneklu. Menn fá sér ekki evrópska leikmenn nema af illri nauðsyn að mínu mati. Ef menn eiga frambærilega íslenska leikmenn er engin ástæða til þess að fá sér útlending til að láta hann sitja á bekknum.

Ég held að staðan sé ekki sú sem margir halda fram, að þessir útlendingar taki tíma frá íslenskum leikmönnum sem standa þeim jafnfætis í getu. Þeir taka tíma frá íslenskum leikmönnum sem eru slakari, held að það sé staðreynd.

KR er með þrjá útlendinga. Skallagrímur er með þrjá útlendinga. Njarðvík er með þrjá útlendinga, en af þeim er einn með íslenskan ríkisborgararétt. Þór Þorlákshöfn er með þrjá útlendinga, þar af einn með íslenskan ríkisborgararétt, Tindastóll er með þrjá útlendinga, Haukar með þrjá og hin öll með tvo að ég held. Þannig að þetta er komið til að vera og bara að sætta sig við þetta og reyna að vinna sem best úr því.

Við verðum stöðugt að efla unglingastarfið og aðeins með því gerum við útlendinga óþarfa hér í deildinni.

Úrslitakeppnin verður spennandi. Flest lið geta unnið hvort annað á góðum degi. Á þó von á því að líðin í efri hlutanum og þau með heimavallarréttinn, eigi sigur vísan í átta liða úrslitunum, þó er aldrei að vita hvernig Skallagrímur og Grindavík fara. Hrökkva Keflvíkingar í gírinn í úrslitakeppninni? Held að gríðarlega sterkur varnarleikur Snæfellinga, slái þá samt út af laginu.

Miðað við veturinn ættu Njarðvík og KR að spila til úrslita, en á maður ekki bara að spá djarft og því að það verði Vesturlandsslagur í úrslitaviðureigninni? Tæplega en aldrei að vita.


Línur teknar að skýrast í körfuboltanum

Ég hef nú ekki mikið bloggað um körfuboltann undanfarið en það er kannski tími til kominn að fara að sinna þessu einna helsta áhugamáli mínu.

Haukarnir fallnir, það var niðurstaða gærdagsins. Ég sá leik Tindastóls og Hauka eftir áramótin og ég verð að segja það að þetta var eitthvert slakasta Haukalið sem ég hef séð. Þarna eru þó góðir leikmenn inn á milli en þetta hefur ekki gengið hjá þeim. Lið í þessari stöðu hafa ekkert gott af því að lenda í botnbaráttu ár eftir ár og ná sífellt að bjarga sér á síðustu stundu. Það verður lítil framróun í slíkum liðum og stöðug varnarbarátta. Urðu í 10. sæti í fyrra, 9. árið áður og nú falla þeir. gefur þeim tíma til að endurskipuleggja hlutina upp á nýtt og mæta sterkir til leiks að ári.

Mínir menn í Tindastól sigla lygnan sjó. Gráta eflaust tapið gegn Hamri/Selfoss hér heima í janúar, það var alveg grátlegt að horfa upp á það. Að láta lið sem gefur sig út fyrir að spila göngubolta og drepa  niður hraða, skora á sig 58 stig í einum hálfleik er alveg ótrúlegt og miðað við leikjaprógrammið var þetta leikur sem þeir urðu að vinna til að eiga möguleika í úrslitakeppnina. Þar fór sá draumur. Markmiðið náðist að halda sér í deildinni, en það verður heldur betur að taka til í varnarleik liðsins, ef menn ætla sér stærri hluti. Að mínu mati ekki rétt að vera með þennan leikstjórnanda. Hann skemmdi meira í þeim leikjum sem ég sá en gerði gagn. Jú vissulega getur hann skorað 6-8 stig í röð þegar sá gállinn er á honum en hann hangir allt of mikið á boltanum og tekur oft rangar ákvarðanir að mínu mati. Mig minnir að í leiknum gegn Hamri hafi hann verið á bekknum í nokkrar mínútur og mjög gott flæði í sókninni, en hann var settur inn á og skoraði 6 stig í röð, en drap um leið allt þetta flæði sem var í sóknarleiknum.

En ég vil fyrir næsta tímabil hafa Evrópskan leikstjórnanda og miðherja, en fjölhæfan kana. Það er besta blandan af erlendum leikmönnum og hentar best íslenskum aðstæðum. Reyna svo að fá frambærilegan íslenskan strák í hópinn, gefa ungu strákunum fleiri mínútur og eins og ég sagði áður, þjálfa upp varnarleik. Það geta allir skorað og allir þjálfarar geta sett upp sóknir sem henta, en ef góður varnarleikur fylgir ekki, gengur dæmið ekki upp.

Fjölnismenn og Þórsarar í Þorlákshöfn berjast um hitt fallsætið og staða Fjölnis ekkert sérstaklega glæsileg ef úrslit fara eftir bókinni góðu. Tel þó að þeir vinni Tindastól sem hefur í raun að engu að keppa.

Keflvíkingar hafa verið í ótrúlegu ströggli og þó þeir hafi komið sterkir upp í úrslitakeppninni í gegn um tíðina, held ég að þeirra tími sé ekki núna og tel þá góða ef þeir komast í undanúrslitin.

Njarðvík, KR og Skallagrímur með bestu liðin í dag, þó Snæfell sé ekki langt undan með besta varnarliðið í deildinni. Varnarleikurinn gæti skipt sköpum þegar uppi er staðið, en Njarðvíkingar eru með besta heildarpakkann í dag og vandséð að við þá verði ráðið.

En meira síðar.


Kominn í ungmennafélagsandann

umsslogo 

Um helgina tók ég sæti í varastjórn Ungmennasambands Skagafjarðar. Gaf kost á mér í það eftir að til mín var leitað og þáði ég það í sjálfu sér með þökkum. Þar með er ég kominn með annan fótinn inn í ákaflega skemmtilegt umhverfi á nýjan leik, eftir að ég var framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga 2003 og fram í apríl 2004.

Það er til fólk í dag sem finnst þessi "ungmennafélagsandi" vera hallærislegur og byggir það í raun á misskilningi. Innan hreyfingarinnar er áherslan lögð á félagsmál, umhverfismál og ýmis samfélagsleg verkefni. Þegar íþróttirnar blandast saman við þessi atriði verður úr ákaflega skemmtilegur kokteill og andrúmsloftið verður æðislega skemmtilegt og uppbyggjandi. Jafnvel hörðustu "antí-ungmennafélagssinnar" hafa kokgleypt fordóma sína þegar þeir hafa fengið tækifæri til að kynnast þessu á eigin hátt. Þess má geta að UMFÍ á 100 ára afmæli á þessu ári. Ungmennafélagið Tindastóll, mitt gamla og góða félag, á einnig 100 ára afmæli. 2010 á síðan UMSS 100 ára afmæli þannig að það er hvert merkisárið sem rekur annað innan hreyfingarinnar í héraðinu á næstunni.

Þetta verður skemmtilegt ár í stjórn UMSS er ég viss um og ef mér skjátlast ekki mun áhugi minn á málefnum þess bara aukast með tímanum. Ég er þannig gerður að ég þrífst ákaflega vel í jákvæðu og uppbyggjandi starfi eins og innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Þar eru litlar áhyggjur af peningum, þar sem héraðs- og ungmennasambönd byggja sinn fjárhag að mestu leyti á föstum fjárframlögum, þar sameinast allir í ákveðnum verkefnum eins og landsmótum og slíku og andinn verður skemmtilegur og jákvæður. Við þátttöku í starfi íþróttafélaga snúast málin meira um peninga og þar getur því miður skapast neikvætt og þrúgandi andsrúmsloft þar sem stöðugt færri og færri fást til starfa. Þar fara málin líka að snúast um árangur á vellinum, mat einstaklinga á því hvað er árangur og hvað ekki og svo framvegis.

En ég er sem sagt mjög sáttur við þennan ráðahag og hlakka til að takast á við störf í stjórn UMSS. Þó ég sé aðeins varamaður vita þeir sem til þekkja að ég er ekki sú týpa sem sit bara og hlusta, ég vil gera eitthvað, koma einhverju í verk og leggja mitt af mörkum.


Nóg komið af helvítis skýrslum og nefndum

Það er dapurlegt að líta yfir farinn veg núverandi ríkisstjórnar í byggðamálum. Byggðamál eru raunverulegt viðfangsefni. Ekki bara vettvangur nefnda og skýrslugerðar hvað eftir annað.

Svör iðnaðar- og viðskitparáðherra á þingi í vikunni um þessi mál báru þess ekki vott um að fyrirhugað væri að setja kraft í þessi mál. Þar var enn verið að "fjalla" um málin í ráðuneytunum og "nefndir" að störfum og niðurstaðna að vænta fyrir árslok - eða einhvern veginn þannig hljómaði svarið. Þetta er bara sama svar og hefur heyrst undanfarin 10-12 ár. Það er alltaf verið að vinna að málunum, það er alltaf verið að skrifa skýrslur, það er alltaf verið að vinna að tillögum í hinum og þessum nefndum. En það er bara nóg komið og það fyrir löngu.

Ég verð alveg fokvondur þegar ég skoða þessi mál og það pirrar mig alveg svakalega að ekki skuli vera hægt að koma með lausnir sem raunverulega skipta máli.

Nýjustu fréttirnar af lokun Marels á Ísafirði sýna svo ekki verður um villst að samfélagið má ekki vera of háð fyrirtækjum sem í fyrsta lagi hafa höfuðstöðvar sínar annarsstaðar og í öðru lagi víla ekki fyrir sér að varpa samfélagslegri ábyrgð á haf út ef það hentar þeim í "hagræðingarskyni". Loforð gilda nákvæmlega ekkert í þessu sambandi. Hversu oft hefur fólk heyrt þegar stórfyrirtæki kaupa fyrirtæki í litlum samfélögum að það sé sko ekki verið að kaupa þetta til að leggja það niður. Menn lofa því eins og aular. Kannski erum við úti á landi helvítis aular að trúa því, ég veit það ekki.

Af hverju felst ekki byggðastefnan í því að veita einum milljarði t.d. til þeirra svæða sem hvað veikast eru sett og byggðastofnun í samráði við atvinnuþróunarfélög og fjórðungssambönd falið að vinna sem best úr þeim peningum? Þetta getur falið í sér uppbyggingu í atvinnulífi, niðurgreiðslu á flutningskostnaði svo framleiðslufyrirtæki geti komið afurðum sínum jafn auðveldlega á framfæri á stóra markaðnum fyrir sunnan og fleiri þáttum sem skipta lansdbyggðina einhverju máli. Það þarf ekki að vera sama lausn fyrir alla. Það hlýtur að mega taka hvern landshluta fyrir sig og fá heimamenn til að meta hvað henti þeim best. Það er raunveruleg byggðastefna.

Af hverju mega Vestfirðir og Norðurland Vestra ekki fá sértæk úrræði til að vinna upp hagvaxtarmínusinn á næstu árum. Austfirðingar fengu vrikjun og álver, nú geta þeir unnið úr því í framtíðinni og nú er bara komið að öðrum svæðum og þá sérstaklega þessum tveimur. Hvað skuldar ríkisstjórnin þessum svæðum í peningum talið borið saman við þau svæði sem hagnast hafa mest á undangengnum þenslutímum? Getur ekki einhver snillingur reiknað það út?

Það er komið að skuldadögum. Þessi ríkisstjórn ætlar í kosningaslaginn með þetta á bakinu, að hafa mismunað þegnum þessa lands er varðar möguleika til að draga fram lífið. Það er of stutt fyrir þá til að koma með drastískar aðgerðir úr þessu. Er þá ekki bara kominn tími til að skipta í brúnni og leyfa stjórnarandstöðunni að spreyta sig? Kannski verður það ekkert betra, en það er fullreynt með þetta lið við stjórn að mínu mati.

Setjið milljarð á Vestfirði og setjið milljarð á Norðurland Vestra og ég skal kjósa ykkur! Það er mitt tilboð.


Einn fremsti íþróttamaður landsins byrjar vel

Það verður ekki annað sagt en að Jón Arnór Stefánsson körfuknattleiksmaður hafi byrjað dvöl sína með stæl hjá nýja liðinu sínu Lottomatica Roma á Ítalíu. Hann mætti á eina skotæfingu fyrir leik liðisins gegn Pau Orthes í Meistaradeildinni í körfuknattleik, lék í 16 mínútur, skoraði 11 stig, fiskaði þrjár villur og stal tveimur boltum. Sannarlega góð byrjun og fékk hann sérstakt lof fyrir varnarleik sinn.

Við körfuknattleiksáhugamenn getum svo sannarlega verið stoltir af piltinum enda fyrsti íslenski leikmaðurinn til að taka þátt í meistaradeildinni í körfubolta sem er gríðarlega sterk.

Smellið hér til að skoða umfjöllun körfunnar.is um leikinn.

Hér er síðan viðtal við kappann á kr.is

Annars var athyglisvert að skoða launatölur þýsku heimsmeistraranna í handknattleik en þar kom í ljós að sá launahæsti er með um 2.6 milljónir á mánuði í þessari sterkustu handboltadeild heims. Jón Arnór er hins vegar talinn hafa gert samning upp á rúmelga 60 milljónir á ári.


Eiður Smári körfuboltans kominn í feitt

Það eru sannarlega stórtíðindi fyrir körfuboltamenn sem berast í dag, en Jón Arnór Stefánsson körfuknattleiksmaður er að fara að spila með Lottomatica Roma sem er eitt besta körfuknattleikslið Ítalíu og komið í 16-liða úrslit meistaradeildarinnar í körfuknattleik.

Það er sannarlega frábær árangur þegar íslendingur nær að komast í eitt af bestu liðum Evrópu í körfuknattleik. Körfuknattleikur er önnur útbreiddasta boltaíþróttin í heimi og gríðarlega vinsæl. Það að litla Ísland eigi fulltrúa í 16-liða úrslitum meistaradeildarinnar í körfuknattleik er frábær árangur og það vekur athygli að leikmaður frá litla Íslandi skuli ná svo langt.

Að teknu tilliti til útbreiðslu körfunnar á heimsvísu er það aðeins Eiður Smári sem toppar þetta.


Ert þú brottfluttur og langar aftur heim? Nú er tækifærið!!

Í blöðum helgarinnar var að finna heilsíðu atvinnuauglýsingu frá mörgum aðilum hér í Skagafirði, þar sem auglýst er eftir fólki í margvísleg störf. Óvenju fjölbreytt störf leyfi ég mér að segja og gott tækifæri fyrir háskólamenntað fólk jafnt sem ófaglært að finna eitthvað spennandi við sitt hæfi. Svona auglýsing segir meira en mörg orð um það sem er að gerast hér um slóðir. Hér finnur maður fyrir miklum krafti og uppgangi og margar hugmyndir eru uppi á borðum varðandi framtíðaruppbyggingu í atvinnulífinu.

 

Ég flutti aftur hingað á Sauðárkrók í desember sl. ásamt fjölskyldu minni og það kom mér þægilega á óvart hversu mikið og vel er unnið í að efla atvinnulífið. Ákvörðun okkar byggðist á fjölskyldulegum vangaveltum en okkur óraði ekki fyrir því að hér væri sá uppgangur sem fyrirsjáanlegur er í náinni framtíð. Það kom okkur skemmtilega á óvart að vera að flytja inn í frjótt samfélag þar sem menn vinna ötullega að því að efla og styrkja atvinnulífið. Það heyrist ekki mikið um þetta út á við.

 

Ég hef heyrt á mörgum brottfluttum sveitungum mínum að þeir hafi svo sem alveg áhuga á því að koma heim aftur, en hvað ættu þeir að fá að gera? Hafi staðan áður verið þannig að “ekkert” hafi verið hægt að fá að gera, sýnir umrædd atvinnuauglýsing að nú eru breyttir tímar. Mér er það til efs að í langan, langan tíma hafi annar eins fjöldi starfa verið í boði og nú og hlutfall starfa fyrir háskólamenntað fólk er hátt í þessum auglýsingum.

 

Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á því að snúa heim aftur, til þess að skoða þessar auglýsingar, hafa samband við þá aðila sem gefa nánari upplýsingar og fræðast nánar um ástandið hér um slóðir. Ég vil jafnframt fullvissa þá sem áhuga hafa á að skoða þetta og eru ekki gamlir Skagfirðingar, að þeir muni ekki sjá eftir því að skoða þennan möguleika af alvöru.

 

Það þarf oft á tíðum kjark til að synda á móti straumnum í ýmsu tilliti. Það á ekki síst við undir svona kringumstæðum þegar fólki langar aftur heim, en hefur einhverjar efasemdir um að það gæti gengið. Umræðan hefur verið neikvæð í garð landsbyggðarinnar um margra ára skeið og ekki síst gagnvart Norðvesturlandi. En það eru góðir hlutir að gerast og við þurfum fleira gott fólk til að hjálpa okkur í því að þoka málum hér fram á veginn. Tækifærin eru sannarlega fyrir hendi.

 

Ég hvet alla þá brott fluttu sem áhuga hafa á að skoða þetta, að gera það með opnum huga. Í mínum huga er það mjög skemmtilegt að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem hér er hafin og ég er ánægður með að fjölskyldan tók þá ákvörðun að flytja í Skagafjörðinn og við unum okkur hér vel í einstöku umhverfi.

Auglýsingin

 

Karl Jónsson

Verkefnastjóri hjá Gagnaveitu Skagafjarðar, sem ætlar að leggja ljósleiðara inn á hvert heimili á Sauðárkróki á þessu og næsta ári. Það er aðeins eitt af mörgum framfaraverkefnum sem í gangi og undirbúningi eru.


Enn af Norðurvegi - ekki bara umhverfis- og samgöngumál

Í gær lýsti ég áhyggjum mínum af stöðu byggðar sérstaklega í Húnavatnssýslum, verði hálendisvegur yfir Kjöl að veruleika.

Í morgun hlustaði ég á viðtal við Jóhannes Jónsson í Bónus, á Útvarpi Sögu og þar sagði hann fullum fetum að þessi vegur yrði ekki lagður í andstöðu við íbúa landsins. Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta að íbúar í Húnavatnssýslum geti mótmælt því við þetta einkahlutafélag að vegurinn verði lagður og þá verði hann ekkert lagður?

Ítreka það sem ég sagði í gær að ef leyfi verði veitt fyrir þessum framkvæmdum þurfi "stjórnvöld að koma að málinu" eins og klisjan segir.

Ég hef minni áhyggjur af Borgarfirði þó eflaust muni umferðin þar eitthvað minnka, en ég hef verulegar áhyggjur af stöðu Húnvetninga verði þetta að veruleika.

Hvar eru takmörkin fyrir því að stytta sér stöðugt leiðir til Reykjavíkur? Hvaða máli skiptir það þó að þú verðir þrjá tíma suður í stað fjögurra? Skiptir það öllu máli?

Þetta er ekki ekki bara samgöngu- og umhverfismál, heldur líka nútíma byggðamál.


BOSTON TAPAÐI EKKI Í NÓTT!!

 

Enda voru þeir ekki að keppa.

 

header_celtics_words480100

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband