Færsluflokkur: Dægurmál

Fékk tölvupóst frá Captain Morgan

Það eru ótrúlegir póstar sem detta inn í tölvuna þessa dagana. "Nígeríupóstarnir" svokölluðu koma reglulega þar sem maður er beðinn um að bjarga peningum fyrir afríska aðila út úr landinu. Viagra auglýsingar dúkka líka reglulega upp, kjarakaup segja þeir en í morgun var nú toppuð þessi della.

Þá fékk ég póst frá Captain Morgan, sem ég hef nú bara drukkið hingað til:

 With due respect, pardon me for this letter. This is a genuine matter of utmost
importance and immense mutual benefit which must be kept highly confidential. It
is with genuine interest and trust that I have contacted you.........

On the 30th day of November 2006, we were alerted on the sudden presence of some
Terrorists camping in a suburb not too far from Karbala here in Iraq . After im
mediate intervention, we captured three (3) of the Terrorists, twenty-six (26) w
ere killed leaving seven (7) injured....

Svo kemur eitthvað bull um að þeir hafi komist yfir pening sem þeir þurfi að koma úr landi. Og þar sem ég sé alveg “Reliable and "Trustworthy” person þá leiti hann til mín.

Og undirrskriftin er;

Sincere regards,

Captain Scott Morgan

      USMC.

Við Captain Morgan höfum staðið saman í gegn um tíðina og veitt hvor öðrum félagsskap af og til, en ég er bara ekki tilbúinn að gera þetta fyrir hann karlgreyjið.

Hilsen



 


Jólin koma og fleira

Fínasta helgi að baki. Náðum nokkuð langt í jólaundirbúningi, það var bakað, laufabrauð steikt og gjöfum pakkað inn. Erum í raun komin ótrúlega langt miðað við að vera nýflutt. Hengdum upp myndir um helgina líka og vorum svo heppin að geta notað nagla sem fyrir voru. Fundum svo tíma til að skella okkur í sund á laugardagsmorguninn, alveg ljómandi góðir heitir pottar hér við sundlaugina, en ekki eins góðir og þessir á pallinum hjá okkur.

Fór á jarðarförina hjá Gústu frænku á laugardaginn. Amma gamla var seig og skellti sér líka. Fór ekki í erfidrykkjuna þar sem allt var á fullu við laufabrauðsgerð. Öll fjölskyldan sat og skar út laufabrauð í tvo tíma, hlustuðum á jólalög og átum smákökur, alveg topp jólastemning. Meira að segja krakkarnir höfðu áhuga á þessu og skáru og fléttuðu laufabrauðið af hjartans list.

Tvíreykta hangikjötið er komið upp í eldhúsinu, hangir þar á krók. Jólasveinarnir eru duglegir að fá sér bita á nóttunni þegar þeir koma með skógjafirnar. Reyndar fékk húsbóndinn athugasemd um að kjötið yrði nú búið af lærinu fyrir jólin með þessu áframhaldi.

Vorum með Katrínu Mjöll í heimsókn um helgina. Nýorðin þriggja ára skessan og eins og fram kom í síðasta bloggi höfum við ákveðið að taka hana til okkar helgi og helgi til að auðvelda mömmu hennar aðeins lífið. Kúkur, piss og æla var pakkinn, en hún var mjög góð og dugleg sú stutta, en hún hefur ekki umgengist okkur mikið og hvað þá gist mikið utan heimilis. Var harðákveðin í því að koma einhverntímann aftur.

Amma Stína og gamla settið úr Holtateig kom og sótti Katrínu Mjöll í gær. Fínt að fá þau í heimsókn og þeim líst vel á slotið okkar. Gerðu reyndar athugasemdir við gardínustangir í svefherbergi okkar hjóna en ég bað fólk að missa sig ekki yfir því, því við myndum redda þessu!! .....eins og öllu. Þau þáðu kaffi og meððí og það var mjög gaman að fá þau í heimsókn.

Engu líkara en við séum komin í nafla alheimsins, því Jón Brynjar frændi og Berglind ætla að koma í heimsókn í dag. Stöðugur gestagangur, enda var það tilgangurinn að færa sig aðeins um set á landinu til að auðvelda fjölskyldunni að kíkja á okkur. Það var fullreynt þarna fyrir vestan.

Átti að fara í próf í morgun í bókhaldi, en vegna tæknilegra örðugleika var því frestað til kl. 13. Tek það heima við eldhúsborðið í gegn um tölvuna og vonandi gengur það allt saman vel þrátt fyrir frekar lítinn undirbúning upp á síðkastið.

Var á góðum stjórnarfundi á föstudaginn og kominn með álitlegan verkefnalista eftir hann. Sannarlega spennandi verkefni í nýju vinnunni og það verður gríðarlega gaman að taka þátt í þessu mikla framfaraverkefni.

Jólabréfið er orðið klárt og nú vantar aðeins herslumuninn á að koma því út til valinkunnra vina og ættingja. Við höfum haft þann háttinn á að skrifa jólabréf þar sem við förum yfir árið. Fleiri og fleiri eru að taka þennan sið upp og skreyta þetta gjarnan með myndum. Skemmtilegur siður að mínu mati.

Það verður gaman að sjá hvað gerist í málefnum Byrgisins eftir Kompásþátt gærkvöldsins. Alveg ótrúlegt dæmi og karlinn í þvílíkt vondum málum sé þetta allt rétt. Búinn að fá fjárframlög frá ríkinu til að halda starfseminni úti og hef ég í það minnsta borið virðingu fyrir því sem hann var að gera. En ef þetta reynist síðan skálkaskjól fyrir pervertíska hugaróra mannsins þar sem hann hefur tælt stúlkur til kynlífsleikja er það auðvitað stóralvarlegt mál. Ég trúi því ekki að svo vandaðir aðilar eins og Sigmundur Ernir og fleiri á fréttastofu 365 færu að skella þessu í loftið nema að hafa konkret sannanir fyrir þessu. Þetta leiðir hugann að ábyrgð þeirra aðila sem skammtað hafa starfseminni fjármagn en ekki staðið sig í eftirlitsskyldu sem skildi. Erlendis væri þetta brottrekstrarsök embættismanna og jafnvel ráðherra, en hér á landi er siðferði pólitíkusa ekki á mjög háu stigi og sjaldan þurfa þeir að taka ábyrgð á gjörðum sínum eða sinna.

Mikið er ég rosalega feginn að við skulum ætla að fara í varnarsamstarf við Dani. Búnir að tala við Norðmenn og til að toppa varnir okkar legg ég til að Færeyingar verði kallaðir til leiks einnig. Þetta vekur allt saman mikla öryggistilfinningu.

Hef aðeins verið að fylgjast með fjárhagsáætlunarumræðum bæði hér í Skagafirði og fyrir vestan. Á báðum stöðum telja menn sig geta sparað í skólamálum, með sameiningu skólaeininga. Þetta er alltaf viðkvæm umræða en ég er persónulega á þeirri skoðun að "kostir fámennra skóla" séu stórlega ofmetnir og sérstaklega sú fullyrðing að kennarinn hafi þá bara "meiri tíma fyrir hvern og einn". Það hlýtur að vera betra faglega séð fyrir krakka að vera í bekk þar sem kennt er sama efnið fyrir stærri hóp heldur en að vera í fámennum skóla þar sem mörgum árgöngum er kennt í einu, mismunandi fög. Að ekki sé minnst á félagslega þáttinn og þann möguleika sem krakkarnir hafa á þeim vígstöðvum í stærri skóla. Meira um að vera og fjölbreyttara félagslíf. En þetta er bara mín skoðun. Það er líka eitt að færa kennsluleg rök fyrir svona breytingum, en hitt er að aka þarf börnunum um víðsjálverð svæði m.a. með tilliti til snjóflóðahættu og þar má ekki tefla á tvær hættur.

En það er deginum ljósara að staða sveitarfélaga í dag er þannig að menn hreinlega verða að taka sársaukafullar ákvarðanir og skera niður þar sem það er hægt. Íbúar geta ekki endalaust krafist þess að hafa alla þjónustu í topplagi og eins og hún gerist best á meðan sveitarfélagið safnar skuldum. Á meðan ríkið kemur ekki betur og stórmannlegar að málefnum sveitarfélaga verður að skera niður einhversstaðar. Það er alltaf erfitt og sársaukafullt. Trikkið fyrir pólitíkusa er að taka svona ákvarðanir á fyrsta ári kjörtímabils, því þegar kemur að næstu kosningum er líklegt að kjósendur verði búnir að "gleyma" eða búnir að sætta sig við og/eða aðlagast þeim niðurskurði.

Hilsen


Hitt og þetta............aðallega þetta

Jólasveinarnir eru að standa sig þessa dagana. Krakkarnir sátt við afraksturinn.

Gústa gamla frænka mín dó um daginn og verður jörðuð á laugardaginn. Hún var 102 ára kerlingin, komin til ára sinna. Man að ég var alltaf frekar hræddur við hana þegar ég var lítill. Hún var hvöss og snubbótt í tilsvörum og maður hélt stundum að hún væri alltaf reið við mann. En svo þegar árin færðust yfir komst maður að því að hún var auðvitað besta skinn. Amma gamla bara sátt við að hún hafi fengið að deyja blessunin. Hreytti því nú út úr sér um daginn þegar hún lá veik að líklega væri best að þær systur færu saman, þá væri bara þörf á einni jarðarför!!

Skrapp suður í gær á tvo fundi. Er óðum að komast inn í þetta umhverfi sem nettengingar eru og sannarlega mikið kraðak. Vissuð þið t.d. að þó þið kaupið einhverja X-stóra MB tengingu heim til ykkar, er aðeins átt við hraðann til ykkar, en ekki frá? Komst að þessu í gær.

Fórum yfir nokkra algenga frasa sem pólitíkusar nota á leiðinni suður í gær. Komumst að því að frasinn "....að stjórnvöld komi að málinu" sé ansi skondinn og það sem eftir lifið ferðar í gær höfðu þurftu stjórnvöld að koma að ansi mörgum málum.

Jólafundur hjá skátunum í kvöld og Árdís spennt. Þarf að fara með pakka með sér.

Fór í klippingu í dag og pantaði tíma í leiðinni fyrir Skírni. Hann tilkynnti mér það þó í gær að ég ætti að klippa hann og ætti að nota vélina. Ég snoðaði Hauk svoleiðis um daginn og Skírnir fékk þá tröllatrú á þessum hæfileikum mínum. Málið er hins vegar það að sú hárgreiðsla fer honum ekki eins vel og Hauksa og því þarf hann að komast í alvöruklippihendur.

Við höfum verið að leggja drög að því undanfarið, eða öllu heldur "gera ráðstafanir" eins og sumir segja, til að taka hana Katrínu Mjöll frænku Guðnýjar helgi og helgi til okkar til að gefa móður hennar smá frí annað slagið. Til þeirra sem ekki þekkja þá er hún fjögurra ára skvísa, dóttir Ingibjargar sem aftur er dóttir Lilju systur Stínu tengdó. Ingibjörg hefur litla aðstoð með stelpuna, enginn faðir til staðar og við viljum því gjarnan létta undir með henn annað slagið. Katrín Mjöll er algjör dúlla og hefur af einhverjum ástæðum tekið hálfgerðu ástfóstri við mig og okkur og á það víst til að sitja tímunum saman og horfa á brúðkaupsmyndina af okkur. Guðný þarf á jarðarför í Eyjafjörðinn á morgun og ætlar að taka skvísuna með sér hingað.

Annars er Grettir á góðri leið með að verða formlegur borgari þessa sveitarfélags, ég skráði hann nefnilega í dag og gekk frá umsókn um kattahald og innan tíðar fær hann plötu um hálsinn sem gerir hann að fullgildum ferfætlingi hér í samfélaginu. Annars kom Ægir Ásbjörns með hann í gær til okkar, Grettir hafði plantað sér fyrir framan útidyrahurðina hjá þeim í gær og hreyfði sig ekki.

Hilsen


Rútína verður til - bráðum!!

Jæja, þá er allt að komast í fastar skorður hjá okkur.

 Ég hóf daginn í gær á að taka próf í ferðaþjónustufræðum og ég held að það hafi nú bara gengið ágætlega. Það tók tæpa tvo tíma og mætti ég í vinnuna eftir það. Næsta próf er á mánudaginn næsta í bókhaldi. Það verður nú fína fjörið.

En eins og ég sagði þá byrjaði ég í vinnunni í gær. Kom mér fyrir og sótti það sem upp á vantaði og svoleiðis. Þetta lítur allt ágætlega út. Förum suður í fundaferð á morgun, hittum kalla frá Orkuveitunni og síðan úr Samgönguráðuneytinu. Leggjum í hann um hálf sjö í fyrramálið og verðum komnir aftur fyrir kvöldmat. Það er nefnilega hægt hérna að skjótast suður fram og til baka sama dag. Annars þarf maður að setja sig inn í margvíslega hluti eins og þennan hér http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2610

Guðný byrjaði að skrifa fréttir inn á www.skagafjordur.com í gær og er að koma sér inn í sitt nýja starf. Fyrsta Feykis-blaðið undir hennar stjórn kemur síðan út 4. janúar, einmitt á afmælisdaginn hennar. Tvöföld ánægja þar.

Krakkarnir eru óðum að koma sér fyrir í nýjum skóla og nýju samfélagi. Það gengur allt eins og í sögu og þau eru að eignast vini sem farnir eru að koma í heimsókn. Gaman þegar þau koma heim með sögur úr skólanum t.d. þegar einhver segir þeim að foreldrar þeirra þekki pabba þeirra. Voða er maður orðinn gamall!! Nei ég segi nú bara svona. Gaman líka að hitta gamla skólafélaga að koma með börn í leikskólann sem dæmi.

Við strákarnir göngum í skólann og vinnuna á morgnana, enda eru okkar starfsstöðvar bara steinsnar frá. Árdís fer venjulega labbandi í skólann einnig, en í morgun var frekar leiðinlegt veður og Guðný skutlaði henni. Það var athyglisvert fyrsta skóladaginn hennar, þá var svo rosalega gaman að hún gleymdi því að ég ætlaði að sækja hana. Ég mætti fyrir utan skólann á umsömdum tíma og beið. Fór síðan inn um allan skólann að leita að henni, hélt kannski að hún hefði eitthvað villst, en fann hana hvergi. Ók sem leið lá heim á leið og sá hana þá þar sem hún sveif á bleiku skýi þvílíkt himinsæl með fyrsta daginn.

Grettir er líka sáttur við lífið. Hann sefur í kjallaranum á nóttunni og fer þangað sjálfviljugur þegar Guðný segir honum að fara að sofa. Minnir á vel þjálfaðan hund. En það skal tekið fram að hann hlýðir bara Guðnýju en ekki mér.

Pabbi sækir Skírni á leikskólann kl. 12 og eyða þeir góðum tíma saman þangað til Guðný er búin að vinna kl. tvö. Það gengur ljómandi vel og báðir mjög sáttir við þetta allt.

Sem sagt, allt að komast í gírinn, hálfur mánuður síðan við borðuðum síðasta morgunverðinn á Engjaveginum, tíminn líður og næstum hálfur mánuður þangað til krakkarnir koma heim aftur eftir jólavist hjá foreldrum sínum.

Hilsen


Larry Bird á afmæli í dag!!!

Goðið mitt stórkostlega Larry Bird er fimmtugur í dag. Ég hefði óskað þess að vera heima hjá mér á þessum tímamótum, til að halda almennilega upp á daginn. En ég er enn fyrir vestan og er að klára vinnuna mína hér og kemst ekki heim fyrr en á morgun.

En til að láta daginn ekki alveg fara í súginn og til að minnast hans á einhvern hátt, er hér grein sem ég fékk lánaða af www.karfan.is, alveg ágætis grein en ég hefði nú kosið að gera þessu betri skil sjálfur. En það verður kannski þegar hann verður 55 ára eða sextugur. Þá verð ég .................... shit maður!! Frábær og dæmigerð saga af honum þarna neðst. Þvílíkur snillingur með kollinn í topplagi.

121203Photo_Bird1

Larry "Legend" Bird er í dag 7 desember 50 ára. Þeir sem lesa þessa síðu ættu að vera nokkuð kunugir um Larry Bird og flest hans afrek. Það er ófáum bókum flett um hans feril og er nokkuð ljóst að hann var, er og verður ein skærasta stjarna körfuboltaheimsins. Kappinn gaf orðinu "Leikskilningur" nýja merkingu með spilamennsku sinni en líklega hefur engin leikmaður nokkurn tíman haft jafn góðan leikskilning á leiknum eins og hann. Um leið og við óskum Bird til hamingju með daginn látum við eina skemmtilega sögu fylgja frá KC Jones fyrrum þjálfara kappans.

"We are playing in Seattle. Five seconds left on the clock and the score is tied and it is our timeout. In the huddle, I am thinking Xavier McDaniel is guarding Larry.

"So I said, 'Now Kevin, you take the ball out and get it to Dennis and Dennis you can finish that.'

"Larry said, 'Why don’t you just give me the ball and tell everybody else to get the hell out of the way?'

"So I said, 'Larry you play, and I’ll coach.'

"And he said, 'All right.'

"So I said, 'Dennis, you take it out and you get it to Kevin. Kevin you get it to Larry and everybody else get the hell out of the way.'

"That is communication. Before the timeout was over, he leaves the huddle, and I said to myself, where is he going.

"And Xavier was right there and Bird said, 'Xavier, I’m getting the ball. I’m going to take two dribbles to the left. I’m going to step back behind the three point line and stick it.'

"And that is what he did. So when he stepped back behind the line and released the ball, as soon as he released it, his arm was still in the air going to the dressing room. Game over."


Flutningar og bakverkir

Jæja þá er ég kominn vestur aftur til að klára síðustu vinnuvikuna. Var í dag með nýjum Innkaupastjóra Jóhanni Torfasyni og sýnist mér að hann komi til með að pluma sig vel. Þetta tekur allt saman tíma fyrir hann í upphafi en ég hef trú á karli í þessu.

Fjölskyldan heima fyrir norðan og ég sakna hennar mikið. Krakkarnir eru sátt og ánægð í nýjum skólum, hafa eignast vini og í dag fór Árdís með vinkonum sínum á Skátafund. Mér er alveg sama hvað þetta heitir, bara að krakkarnir njóti þess að vera í félagsstarfi. Ég man nú eftir því þegar við Árni og Svabbi skráðum okkur í skátana í heila viku til að komast í ferðalag eitthvert upp í fjall. Minnir að við höfum lítið mætt á fundi eftir það. Árdís kallaði nú skátana nú reyndar Skrokkana hér fyrir vestan, en þeir komu í einhverja kynningu í skólann og Árdísi heyrðist að þeir væru frá Skrokkunum.

Skírnir Már var skilinn eftir í leikskólanum í morgun, hann byrjar daginn á að fara í Árvist sem er dægradvöl þeirra Króksara, en allir fimm ára krakkarnir hittast þar fyrst á morgnana og er litið á þetta sem aðlögun þeirra fyrir næsta skólastig, en fyrir þá sem þekkja ekki til aðstæðna er Árvistin á skólalóð gamla skólans. Þar fá krakkarnir að máta sig við þá sem þegar eru komnir í skólann og aðlagast leik þeirra í frímínútum.

Haukur Sindri fór í morgun í fyrsta skiptið í skólann og gekk bara vel. Eignaðist nokkra vini þar á meða Örvar Pálma sem er af Svaðastaðakyninu og fyrir þá sem þekkja til finnast margir kraftmiklir einstaklingar þar. En hann var sá fyrsti sem kom til Hauks á föstudaginn þegar við skoðuðum skólann og bauð hann velkominn.

Sem sagt allt að stefna í rétta átt, fengum þvílíku hjálpina frá ættingjum og vinum fyrir norðan og verður þeim seint þakkað.

Við erum rosalega sátt og ánægð með þetta allt saman og ég hlakka til að komast heim á föstudaginn og takast á við lífið fyrir norðan m.a. nýja starfið sem er mjög spennandi. Fór á tvo fundi vegna þess á föstudaginn og fékk þá smá nasasjón af því sem koma skal.

Guðný byrjar svo í sinni vinnu á miðvikudaginn og afi Jón tekur þá við hlutverki gæslumanns Skírnis í eina 2-3 tíma daglega og hlakka þeir félagar báðir til þess.

Af Skírni er það helst að frétta í dag að hann sofnaði í óhreintatauskörfunni sinni.

Hilsen


Veljum mestu skítagötuna í Reykjavík!!

Það var ótrúleg grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær, en þá lét einhver Gunnar blaðamaður fólk velja mesta Krummaskuð landsins. Einhverjum kann að finnast það fyndið að 101-liðið skuli yfirleitt geta tjáð sig um landsbyggðina.

En þetta fór út yfir velsæmismörk að mínu mati og er Fréttablaðinu til skammar.

Ég legg því til að við veljum "Mestu skítagötu í Reykjavík".

Hilsen


Allt á fullu

Jæja það er allt gjörsamlega búið að vera á fullu á Engjaveginum. Helgin var tekin með trompi og við erum búin að setja flest af því í kassa sem þangað kemst. Í dag förum við að strappa utan um húsgögnin og ganga frá þeim. Það verður nú ekki mjög mikið mál.

Planið er síðan að bíllinn komi seinni partinn á morgun, vitum þó ekki alveg hvernig það verður þar sem veðurspáin er ekkert sérstök. En vonandi gengur þetta allt saman. Ferlegt ef við verðum veðurteppt!!

En það má búast við rólegu bloggi næstu vikuna eða svo.

Hilsen


Nokkrar myndir af Skírni sofandi

HPIM0410 Lékum okkur svolítið eitt kvöldið þegar hann sofnaði fyrir framan sjónvarpið.

HPIM0478 Jú, maður er sofandi. Þreyttur á að læra stafina.

HPIM0482 .....og hérna líka. Heimsbókmenntirnar þreyta líka (Viggó viðutan).


Það verður sorg á leikskólanum

Við fengum að vita það í morgun á leikskólanum að Skírnis verður sárt saknað á leikskólanum. Stelpurnar á stelpukjarnanum eru alveg miður sín yfir þessu, því Skírnir er svo góður við þær.

 Þær hafa meira að segja ljáð máls á því að fá að halda kveðjupartý fyrir hann áður en hann fer.

Þetta byrjar snemma en sýnir bara gott uppeldi og virðingu fyrir hinu kyninu.

Hilsen

E.s. Vona að ég geti hent inn svefnmyndum af Skírni þegar ég kem heim. Þær eru ansi skondnar.

Og Berglind, þeir sem hjálpa okkur að bera inn úr gámnum fá  flott innflutnings-pottapartý!! Nei, nei ekki bara þeir, þið frændi eru alltaf velkomin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband