Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 19. janúar 2007
Lífleg skrif um þorrablótið í Bolungarvík - stóralvarlegt mál!!
Þetta hófst allt hér með grein óánægðar húsfreyju, sem ég held þó að eigi rétt á setu á blótinu en átti það ekki áður, þegar hún var kona einsömul http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93670
Síðan kom Kata Gunn sterk inn og reit grein á einhverskonar forníslensku og vísar væntanlega hinar fornu hefðir og upplýsir jafnframt þjóðina um karlamálin sín http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93765
Þá kom öflug varnarræða þar sem m.a. er bent á að ekki átti fólk nú miða vísann á árshátíð Lions hér í denn, nema að þekkja einhvern í klúbbnum, hafiði það !! http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93806
Svo er hér ein frekar kaldhæðin þar sem tekin eru raunveruleg dæmi um stöðu margra einstaklinga sem ekki fá að sitja blótið góða, ég meina hvað á homminn að gera? http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=93810
Og að lokum ein sem spyr margra spurninga um þetta háalvarlega mál, ef við ætlum að breyta þessu hvaða girðingar á þá eiginlega að setja? http://www.bb.is/?PageID=153&NewsID=94046
Þeir sem halda að ég sé eitthvað að grínast með þetta ættu að skammast sín því þarna er um háalvarlegt mál að ræða sem þjóðin þarf að fá botn í. Þeir sem íhuga það að flytja til Bolungarvíkur hugsa sig nú tvisvar um er ég hræddur um. Alla vega þeir sem eru einsamalir. Og ekki getur hjóna- eða sambúðarfólk hugsað sér að flytja þangað, því ef upp úr slitnar er ekki möguleiki að fá miða á blótið.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 17. janúar 2007
Fáránleikinn uppmálaður
Ef þið haldið að það sé ekkert að gera hjá mér í vinnunni þá er það rangt. Ég er að bíða. Bíða eftir svörum og drögum að samningum og hinu og þessu.
Þá fer maður að skoða bloggin og það blogg sem ég fer oft inn á er hjá Steingrími Sævarri. Tékkið á þessu http://saevarr.blog.is/blog/saevarr/?nc=1 og sjáið fáránleikann í sinni björtustu mynd.
Kaktus Ylur kveður.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 17. janúar 2007
Takk fyrir!
Hver hefur ekki verið á fyrirlestri eða fundi þar sem glærur eru notaðar? Oft fer maður á flotta fyrirlestra með flottum glærum og svo kemur sú síðasta; "Takk fyrir!" Mér finnst þetta svo hallærislegt að ég bara verð að koma orðum að því. Það er eins og ekki sé hægt að þakka fyrir sig nema að setja það á glæru og svona til að undirstrika að glærushowið sé nú búið og allir taki eftir því!
Ég segi bara:
.....svona til að tryggja að allir sjái að ég ætli ekki að blogga meira um þetta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 12. janúar 2007
Ég er klikkaður
Vaknaði kl. hálf sjö í morgun, 20 mínútum á undan vekjaraklukkunni. Þá var um tvennt að ræða. Að liggja og hanga þangað til hún hringdi eða fara að gera eitthvað.
Ég tók síðari kostinn, fór að gera eitthvað og skellti málningu á einn vegg í eldhúsinu. Þetta þýðir það að ég þarf ekki að gera það þegar ég kem heim í dag og við getum farið að taka til í eldhúsinu og koma öllu fyrir aftur.
Þannig að þetta margborgaði sig, þó einhverjar spurningar vakni um geðheilsu mína að mati einhverra.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. janúar 2007
Einkennileg reynsla í nótt
Ég vissi ekki hvaða á mig stóð veðrið þegar konan fór að öskra og æpa upp úr svefni í nótt. Þetta byrjaði sem saklaust muldur eins og maður hefur nú heyrt áður, en síðan tóku leikar að æsast og hávaðinn sömuleiðis og allt endaði þetta í háværu öskri upp í eyrað á mér sem ég hélt að vekti allt hverfið. Þá var hana að dreyma að einhver væri að reyna að brjótast inn í kjallarann hjá okkur og hún var að fórna sér í að stöðva það. Virðingarvert en óþarfi svo sem að öskra upp í eyrað á mér.
En ekki tók mikið betra við. Þegar ég hafði hrist hana til meðvitundar tók við þetta lítla hláturskast sem varði í all langan tíma.
Ég er nú frekar fyrir hláturinn en um miðja nótt skammt á eftir öskri upp í eyrað, var þetta ekki fyndið og ég varð grömpí. En svo lagaðist þetta allt við fyrsta hanagal í morgun.
En sagan góð engu að síður.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Á leið til Ísafjarðar
.................ekki fluttur þó, heldur þarf ég að klára endanlega vinnuna mína þar og sjá þar um vörutalninguna á lagernum.
Það hefur verið rólegt yfir blogginu síðustu daga og verða þá allra næstu, en það verður bragarbót á því þegar ég kem til baka að vestan, í síðasta lagi á fimmtudaginn.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. desember 2006
Ég eyðilagði jólin
Ég sendi vini mínum jólakveðju í sms-skilaboðum á aðfangadag. Ég eyðilagði fyrir honum jólin. Matseldin fór út um þúfur, rjúpan brann á pönnunni, það fóru appelsínur út í eplasalatið og sósan var of sölt. Hann neyddist til að panta Dominos-pizzur handa heimilisfólkinu. Allt út af því að ég kom honum úr jafnvægi með þessari jólakveðju. Skamm Kalli, það á ekki að senda fólki jólakveðjur með sms-skilaboðum.
En í alvöru, hvað er að fólki sem lætur svona koma sér úr jafnvægi. Það er talað um skandal og dulbúnar auglýsingar vegna þessa, en fólk ætti nú að "fá eitthvað viððessu" eins og amma segir, ef þetta hefur eyðilagt jólin fyrir þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. desember 2006
Sáði var óþekkastur
Þegar vel er að gáð er margt skondið og skoðunarvert í skáldskap um jólin og sýnist hverjum sitt. Við þekkjum vel argúmentið varðandi hið ástsæla lag "Jólasveinar ganga um gólf". Þar er rifist um hvort að menn eða könnur standi upp á hól eða stól. Og einnig hvort grýla hafi verið með gylltan staf í hendi eða gildan. Svona er það nú bara og ekki útlit fyrir að lát verði á þessum deilum.
Annað er þegar menn segja að jólasveinarnir séu 13 talsins, en á sama tíma er sungið lag um einn og átta. Hvaða jólasveina vantar þar? Ég kom nú með þá kenningu einu sinni að þetta lag um einn og átta vísaði í hæð þeirra. Að þeir séu í raun agnarsmáir og aðeins einn-núll átta á hæð, eða einn og átta. Þessi kenning mín hefur fallið í grýttan jarðveg víðast hvar, en eftir stendur spurningin um hvort þeir séu einn og átta, samtals níu, eða hvort þeir eru þrettán.
Einn er sá texti sem mér hefur fundist hvað skemmtilegastur. Adam átti syni sjö, eins og vel er vitað, en í textanum eru þeir ekki nefndir á nafn nema einn. Það er hann Sáði. Og trúlega hefur það verið vegna þess að hann var fyrirferðarmestur. Það var einmitt hann sem klappaði saman lófunum stappaði niður fótunum, ruggaði sér í lendunum og snér sér síðan í hring. Var líklega óþekkastur af þeim og því full ástæða til að yrkja sérstaklega um hann.
Og fyrst farið er að ræða um sáða, þá er hér einn góður frá kaffibrúsaköllunum. Þar var sagt frá einhverjum sem bananar voru farnir að vaxa út um eyrun á. Hann varð að vonum mjög svekktur, því hann sáði nefnilega eplafræjum!!
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 22. desember 2006
Allir komnir á sinn stað
Jæja nú eru allir komnir á sinn stað fyrir hátíðarnar.
Við erum búin að bera út börn síðan í fyrradag. Fórum norður á miðvikudaginn var. Helsti tilgangurinn var að fara með Hauk á flug suður og með Árdísi og Skírni til pabba síns. Á leiðinni fengum við þær upplýsingar að búið væri að aflýsa öllu flugi og ekki gott útlit með flug daginn eftir heldur. Þetta varð og til þess að pabbi Árdísar og Skírnis komst ekki norður, en hann var að koma frá London. Það varð úr að þau fóru til afa síns og ömmu og Haukur aftur með okkur til baka á Krókinn þar sem hann var nú kominn með hita og að verða lasinn. Ég skutlaði honum síðan í veg fyrir mömmu sína í Brú, en hún var á leið vestur til Bolungarvíkur þar sem þau verða yfir jólin. Þetta er aðeins lítið dæmi um hvað þetta getur nú allt verið snúið í þessari samsettu fjölskyldu. En það þýðir ekkert annað en að taka á þessum málum bara með bros á vör.
Erum sem sagt orðin ein í kotinu og verðum þangað til 28. des. Við fáum því kærkomna hvíld því við fundum það í gær að við erum orðin mjög langþreytt eftir at síðustu vikna og mánaða. Það eru ekki nema tveir og hálfur mánuður síðan við ákváðum að flytja hingað á Krókinn og sá tími hefur liðið hratt og á meðan höfum við safnað upp þreytu. Það er kannski ekki besti tími í heimi að flytja rétt fyrir jólin þar sem jólaundirbúningurinn hefur þurft að haldast í hendur við þá vinnu að koma sér fyrir í húsinu. En þetta hefur allt saman tekist með vinnu og því ekkert skrýtið að við séum orðin ansi þreytt. Ekki taka það því illa upp ef við svörum ekki í síma, við gætum hreinlega hafa gleymt að taka hann með okkur í lazy-boyinn og þá getur verið erfitt að standa upp aftur. Svo er bara að muna að taka fjarstýringarnar með þangað líka
Naumast flóðin út um allt. Eylendið hér í Skagafirðinum eins og fjörður á að líta og þeir hafa verið duglegir að bjarga hrossunum sem þar voru í vandræðum. Því ef hestum er ekki bjargað úr vandræðum í Skagafirði, hvar þá spyr ég?
Jæja nú er perrinn í Byrginu kominn í vond mál. Sá viðtal við stúlku í gær sem hafði lent í honum og fermingarbróðurnum. Sá hefur ruglað í hausnum á þessum greyjum. Þessi stúlka var alveg ótrúlega kúl í þessu viðtali og ég tek ofan fyrir henni fyrir að leggja í að lýsa þessu nánast í smáatriðum. Einu hjó ég þó sérstaklega eftir en hún sagði að konan hans, hefði sagt henni að hann hefði sagt svona við aðrar stúlkur í meðferðinni einnig. Hvernig á maður að túlka þetta? Að hún hafi verið að kóa með honum og hafi vitað af þessu? Skrýtið mál og málsvörn hans fokin út í veður og vind. Ásakanir um falsanir, burð eiturlyfja á viðmælendur Kompáss voru uppspuni og lygi manns sem var að reyna að halda andlitinu. Trúlega hefur hann haldið að þessar stúlkur sem hann misnotaði þyrðu ekki að koma fram og leggja fram kærur.
Ég vil skipta á Jóni Baldvin og Ingibjörgu Sólrúnu. Ég vil að Jón Baldvin verði aftur foringi jafnaðarmanna á Íslandi. Ekki yrði ég í vafa í næstu kosningum hvað ég ætti að kjósa ef það væri staðan. Ég er meira að segja á þeirri skoðun að Össur sé mun betri kostur en Ingibjörg og mér finnst hann vera allur að færast í aukana og er það vel. Kannski hjólar hann í svilkonu sína á næsta þingi Samfylkingarinnar? Veit ekki, en kerlingar greyjið er alveg handónýtur leiðtogi að mínu mati og þetta útspil hennar varðandi umhverfismálin, að smíða þessa fínu umhverfisstefnu Samfylkingarinnar án allrar umræðu og aðkomu grasrótarinnar er mikill afleikur. Ber keiminn af umhverfistefnu 101 Reykjavík, án alls tillits til þess fólks úti á landi sem þarf lausnir í sínum atvinnumálum og það fyrr en seinna.
Annars verð ég að hrósa Ágústi Ólafi þingmanni og varaformanni Samfylkingarinnar, mér finnst hann vera að taka á ýmsum góðum málum og leggja þeim lið. Efnilegur strákur sem ég hef mikla trú á í framtíðinni.
En nóg um það. Framundan er stjórnarfundur í Gagnaveitu Skagafjarðar, mikið að gerast þar og spennandi verkefni framunda.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 20. desember 2006
Sirrý í essinu sínu
Sirrý í Íslandi í bítið hefur átt vægast sagt dapra innkomu í annars ágætan þátt. Hún er eflaust fín í að stjórna vandamálaþáttum en þætti um þjóðmálaumræðuna á hún að láta vera. Efnistök þáttarins hafa líka breyst síðan hún byrjaði og í morgun fengum við t.d. að sjá og vita hvernig konur geta nú lyft barminum með nýjustu brjóstahöldurum. Og ég held að heilum 10 mínútum hið minnsta hafi verið eytt í það.
Mæli með því að hún verði send í frí.
Hilsen
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar