Færsluflokkur: Dægurmál

Við eigum bara flott börn!!

Núna er tímabil foreldraviðtala. Við fórum um daginn í viðtal á Eyrarskjóli vegna Skírnis og þar fékk vinurinn toppeinkun. Hann talar svolítið mikið og getur verið pínu óþolinmóður að bíða þangað til röðin kemur að honum en er alltaf kurteis og góður.

Í morgun voru svo foreldraviðtöl í grunnskólanum. Byrjuðum hjá Margréti í 4. bekk og þar fékk Árdís toppeinkun, bæði hvað varðar námið og hegðun og nákvæmlega ekkert til að setja út á. Því næst lá leiðin til Ingu Siggu í 2. bekk og þar var það sama uppi á teningnum, Haukur Sindri stendur sig vel í námi og er duglegur að læra og er kurteis og góður strákur.

Hvað er hægt að biðja um það betra? Þrátt fyrir samsetta fjölskyldu og ýmis vandamál sem því kunna að fylgja, held ég að við höfum sýnt fram á að það er vel hægt að halda sjó í skólanum og almennir hegðun þó stundum gefi á bátinn annars og þá sérstaklega í samskiptum fullorðna fólksins í kring um blessuð börnin.

Við erum ákaflega stoltir foreldrar.

Hilsen


Starfslokin klár

Jæja, þá eru starfslokin klár, var á fundi með mínum yfirmönnum í morgun.

Ég þarf að fara aftur vestur í byrjun desember og vinna þriðjudag til föstudagsins 8. desember. Þá ætti arftakinn að vera kominn almennilega í starfið. Þarf síðan að fara aftur í einn dag eftir áramótin, til að klára vörutalninguna.

Hilsen


Rebekka á afmæli!!

Hún Rebekka Rán Karlsdóttir er 10 ára í dag. Ég man eins og gerst hafi í gær þegar hún fæddist á Sjúkrahúsinu á Akranesi þessi elska.

rebekka Þessi mynd var tekin fyrir tveimur árum í fermingunni hans Bjarka.

Til hamingju elsku dúllan mín.

Hilsen


15 dagar!!

Hafið þið lent í því að þurfa að hringja í IKEA, lýsa einhverju stykki sem ekki fylgdi með og biðja um að það sé sent? Það er ekki mjög skemmtilegt get ég sagt ykkur. En svona eru dagleg viðfangsefni í vinnunni hjá mér. Í gær átti ég langt samtal við birgja um þvagprufuglös og saursýnaglös með skeið!! Segiði svo að þetta sé ekki spennandi.

En við skulum átta okkur á því að það eru aðeins 15 dagar þangað til við flytjum!! Mánuðurinn hefur verið fljótur að líða er óhætt að segja og nú fer þetta bara að bresta á. Ég gæti hins vegar þurft að koma hingað aftur í byrjun desember til að klára að koma eftirmanni mínum inn í starfið. En vonandi verða það bara í mesta lagi 2-3 dagar eða svo.

Fékk sendan ráðningarsamninginn í gær og óskaði eftir smávægilegum breytingum á honum sem hljóta að verða samþykktar. Þetta verður bara fínt.

Árdís kom heim með einkunnir úr annaprófum. Þvílík frammistaða; ein tía, eitt A og síðan 8.4 í stærðfræði, sem var 0.3 fyrir ofan meðaltal bekkjarins. Dugleg stelpa og nú ætti Hauksi að fara að fá sínar einkunnir líka.

Skírnir lærir og lærir út í eitt. Hann er að læra að skrifa nafnið sitt og að þekkja stafina. Býst við að afi Jón fái það hlutverk að lemja þetta almennilega inn í drenginn.

Hilsen, ég þarf að fara að hringja í birgja og ræða við hann klósettupphækkanir.


Lékum okkur í snjónum

Hér koma nokkrar myndir af því þegar við fórum út í garð í morgun og bjuggum til sleðabraut.

HPIM0466 HPIM0473 HPIM0469

HPIM0470

Eins og sjá má var mikið fjör og stuð hjá okkur.

Hilsen


Veikindi

Búinn að vera með einhverja helvítis hitapest síðan á miðvikudagskvöldið og hef haldið mig heimavið. Guðný hefur líka verið heima þannig að við höfum haft félagsskap hvort af öðru. Reyndar hefur Grettir verið nálægur og nýtur þess að einhver nenni að klappa honum. Krakkarnir hafa svo komið heim um hálf tvö á daginn svo fjölskyldan hefur eytt óvenju miklum tíma saman, en kærkomnum. Við höfum sett niður í einn og einn kassa og hjálpast að við þetta allt saman.

Átti að skila bókhaldsverkefni í gær, en bókhaldspælingar eru kannski ekki það besta þegar maður er með stífan hausverk. Fékk því frest til að skila þangað til í dag eða á morgun.

Talandi um kaffi sem var umræðuefni síðasta bloggs, þá hellti ég mér í bolla núna áðan, en áttaði mig á því að ég hafði ekki fengið mér kaffi síðan í vinnunni á miðvikudaginn. Segið svo að ég sé einhver kaffisjúklingur.

Það hefur snjóað ansi mikið hér fyrir vestan. Líklega kominn nægur snjór til að búa til sleðabraut fyrir krakkana í garðinum. Þeir sem hafa komið hingað muna kannski eftir því að garðurinn okkar megin hallar niður frá götunni og í fyrra náðum við að búa til fína sleðabraut. Ég hefði nú bara gott af því að fara út með krökkunum á eftir og skella upp einni svona braut. Svo þarf að moka frá útidyrunum eins og sjá má á myndinni hér; HPIM0463 

Við Haukur vorum frekar árrisulir í morgun, vorum komnir á fætur um kl. átta. Árdís tíndist fram skömmu síðar og Skírnir var mættur fram um kl. níu. Guðný sefur og hvílir sig enda á hún að gera það og vonandi sefur hún bara sem lengst. Krakkarnir eru búnir að koma sér vel fyrir í stofunni, eru búin að setja upp tjald og einhverja fylgihluti og búa þar um sig eins og sjá má hér;HPIM0464 Þeim dettur alltaf eitthvað svona í hug þessum elskum.

Þeir sem eiga eftir að skoða myndir af íbúðinni okkar svona áður en við flytjum er bent á þessa slóð hér http://www.fsv.is/ og þar má finna Engjaveg 15 í röðinni fyrir neðan húsin tvö sem eru efst.

Hilsen


Ég sem hélt að kaffi væri bara kaffi.....

Það var einkennilegt í sumar hvað ég var ótrúlega pirraður og illa fyrirkallaður að afloknum vinnudegi á tímabili. Leið bara virkilega illa og var ekki góður í skapinu.

Svo fór ég að skoða þetta og komst að því að við Ásbjörn apótekari hér á loftinu höfðum fengið annað kaffi niðri í eldhúsi en við vorum vanir. Eitthvað ódýrt Euroshopper kaffi sem allir voru reyndar brjálaðir yfir hér á stofnuninni á tímabili.

Við skiptum hið snarasta yfir í Maxwellhouse kaffið aftur og viti menn, skapið í mér batnaði og ég varð allur annar maður.

Djöfulsins eitur sem kaffi getur verið. Ég hélt að kaffi væri bara kaffi og að það væri enginn munur á drullu og skít, en þarna sannaðist hið gagnstæða.

En ég hef nú verið hinn mesti ljúflingur síðan.................

Hilsen


Þar kom að því......

Jæja, nú hefur Magnús Þór og félagar hans í Frjálslyndaflokknum opnað á umræðu sem ég hélt satt að segja að enginn myndi þora að efna til í fyrsta lagi og í öðru lagi að varla væri orðið tímabært að taka hana upp. Það eru gríðarsterk viðbrögð í þjóðfélaginu vegna þessa og ég er farinn að hallast að því að þetta verði eitt helsta kosningamál næstu kosninga.

Þrátt fyrir að frjálslyndi flokkurinn hafi slegið ýmsa varnagla í upphafi, varað fólk við að kenna þá við rasisma og að vera á móti útlendingum hefur það samt gerst. Og við hverju er að búast þegar svo eldfimu máli er kastað inn í umræðuna? Á sama tíma og frjálslyndir segja að með hrópi þessa hluti gegn þeim í pólitískum tilgangi, get ég ekki séð annað en tilgangurinn sé sá sami hjá þeim. Það hefur sýnt sig annarsstaðar í Evrópu að þeir flokkar sem opnað hafa á þessa umræðu og skilgreint sig sem þjóðernisflokka, hafa átt talsverðu fylgi að fagna. Þá gjarnan opnast kýli í þjóðfélagsumræðunni og upp sprettur fólk sem ekki hefur borið þessar skoðanir sínar á torg.

Upphafið af þessari umræðu kann að vera hluti af málatilbúnaði flokksins og undirbúningi fyrir næstu kosningar. Þeir hafa ekki mikið fylgi, umræðan um kvótann er orðinn þreytt og hundleiðinleg og ólíklegt að aðrar kosningar í röð takist að gera það að einhverju kosningamáli. Þeir þurfa því að hugsa tilgang sinn upp á nýtt til að forðast tilvistarkreppu og afhroð í kosningum.

Ég persónulega hef engar sérstakar áhyggjur af þessari þróun mála. Hins vegar þurfum við að gera okkar samfélag þannig úr garði að þeir sem hingað komi og vilji setjast hér að, fái þá þjónustu sem þeir þurfa til að geta á sem skemmstum tíma orðið að nytsömum þjóðfélagsþegnum. Ég segi að við eigum að setja íslenskukennslu á oddinn. Ríkið á að greiða fyrir íslenskukennslu útlendinga. Það hlýtur að vera samfélaginu hagstætt að allir tali tungumálið og nýbúar hljóta að komast fyrr inn í samfélagið ef þeir tala málið. Hvort að það eigi hins vegar að vera einhver forsenda fyrir íslenskum ríkisborgararétti, skal ég ekki segja.

En umræðan er hafin, ég óttast að miklar öfgar verði í henni og ég sé það alveg fyrir mér á þessari stundu að þetta verði eitt af stærstu kosningamálunum næsta vor.

Hilsen,


Erfið helgi að baki

Eyddi helginni í Þorlákshöfn og Reykjavík til skiptis. Var með strákana mína úr Bolungarvík að keppa í Þorlákshöfn í C-riðli. Unnum KFÍ örugglega og náðum þannig að halda okkur uppi. Ekkert flug heim í gær og því keyrði ég heim. Frekar þreyttur þegar heim var komið en mikið rosalega er nú alltaf gott að koma heim í faðm fjölskyldunnar.

Guðný duleg í niðurpakki á meðan ég var í burtu. Hver kassinn á fætur öðrum kominn inn í stofu, lokaður og merktur. Nú skal tekið á því enda ekki nema þrjár vikur þangað til við fáum gáminn á planið. Þurfum að eyða 1-2 tímum á dag í að pakka niður í kassa ef vel á að vera og við erum svo spennt yfir þessum flutningum, að það verður ekkert mál. Viljum helst af öllu flytja á morgun. Ákafinn í okkur alltaf.

Ég vona að ég nái að koma arftaka mínum inn í starfið fyrir mánaðarmótin svo ég þurfi ekki að koma aftur vestur í nokkra daga eftir mánaðarmótin. En geri það að sjálfsögðu til að skila almennilega af mér, minn metnaður stendur ekki til annars.

Hilsen, pilsen.


Tek hattinn ofan.......

Loksins hafa björgunarsveitarmenn og konur tekið neyðarkallakonseptið og nýtt sér það. Ég hef reynt að slá um mig árum saman með þeim brandara að ég vildi ekki vera neyðarkall, því hann væri alltaf sendur út þegar eitthvað kæmi fyrir. Skip senda út neyðarkalla, flugvélar og fleiri aðilar. Mér finnst það snilldin ein að geta keypt mér neyðarkall og ætla sannarlega að gera það.

Þetta leiðir hugann að fleiru í þessum dúr. Ég vildi t.d. alls ekki heita Greipar, því hann er alltaf látinn sópa. Allsstaðar þar sem þjófar fara um, er Greipar látinn sópa upp eftir þá.

Hvar er þetta "barð" á fólki? Að verða fyrir barðinu á einhverjum? Huuh?? Er "barð" hendurnar? Eða fæturnir? Spyr sá sem ekki veit.

Hmmm, haldið þið að það sé eitthvað lítið að gera hjá mér í vinnunni?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband