Færsluflokkur: Dægurmál

Framtíð ferðaþjónustunnar björt - samspil atvinnulífs og ferðaþjónustu

Ferðamönnum til Íslands heldur áfram að fjölga. Um 10% fjölgun á komum ferðamanna um Leifsstöð í maí frá árinu í fyrra. Sannarlega góð tíðindi og gefur góð fyrirheit.

En fólk skal ekki halda að þetta gerist allt af sjálfu sér. Gríðarlega mikil vinna og fjármagn hefur farið í að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til að heimsækja. Bjartsýnustu spár segja að við eigum eftir að fá hér langt á aðra milljón ferðamanna til landsins eftir 10 ár eða svo. Hóflegri spár segja um og undir milljón ferðamanna. Allt þetta rennir stoðum undir þær skoðanir að ferðaþjónustan eigi eftir að verða ein af okkar stærstu atvinnuvegum.

Í dag skilar ferðaþjónustan vissulega heilmiklum tekjum í þjóðarbúið. Samt er greinin sjálf ekki orðin það arðbær að hún geti greitt nægilega há laun til launþega sinna eða staðið undir fjárfestingum af neinu viti. Það er mjög dýrt að reka t.d. gistiþjónustu sem toppar kannski aðeins í 3-4 mánuði á ári en samt er víðast hvar á landsbyggðinni þörf á meira gistirými yfir háferðamannatímann. Þannig að menn eru í talsverðri klemmu þegar afkoman dugar rétt fyrir rekstri en ekki fyrir neinum fjárfestingum.

Sumir segja að staða ferðaþjónustunnar í dag sé ekki ósvipuð og staða sjávarútvegsins var fyrir um 30 árum síðan. Smáar einingar, oft lítil fjölskyldufyrirtæki. Þegar þessi litlu fyrirtæki sameinuðust og stækkuðu, fór alvöru hagræðing að eiga sér stað og afkoman batnaði.

Samvinna er nefnilega lykilatriði í ferðaþjónustunni eins og staðan er í dag. Ef lítil fyrirtæki eru ekki á þeim buxunum að sameinast, geta þau fundið sér samstarfsvettvang t.d. í markaðssetningu, flutningi fólks, innkaupum fyrir gistihús og í fleiri þáttum. Í stað þess að setja lítið fjármagn hvert fyrir sig í markaðssetningu t.d. geta menn þá safnað þeim peningum saman á bak við sterkari og markvissari markaðssetningu fleiri aðila.

Mikið hefur verið rætt um samspil atvinnulífs og ferðaþjónustu. Sér í lagi stóriðju og ferðaþjónustu. Menn hafa bent á Kárahjúka í þessu tilliti og umræða hefur farið af stað um mögulega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Ég tel að ákveðin tækifæri felist í þessu samspili og menn eiga að reyna að einblína á það. Það liggur í augum uppi að stór verksmiðja í litlum firði verður aldrei sérstakt augnayndi. En hins vegar geta menn unnið úr því sem þeir hafa, sett t.d. upp útsýnispalla þar sem fólk getur virt fyrir sér starfsemi viðkomandi verksmiðju, það er hægt að koma upp einhverskonar safni út frá starfsemi verksmiðjunnar og fleira mætti tína til.

En það sem skiptir höfuðmáli er að samfélagsleg áhrif "stóriðju", í hvaða skilningi sem við setjum það orð fram, ná líka til starfsemi ferðaþjónustunnar. Erlendir gestir koma oft í heimsóknir og þurfa á viðurgjörningi að halda á meðan dvöl þeirra stendur. Viðgerðar- og tækniteymi þurfa sömuleiðis á þjónustu að halda og því er það deginum ljósara að stór atvinnurekandi í hátæniiðnaði þarf á ferðaþjónustunni að halda allt árið. Þetta gæti því rennt styrkari stoðum undir starfsemi ferðaþjónstuaðila - sér í lagi gisti- og veitingaaðila og þar með aukið arsemi greinarinnar, sem aftur þýðir betri vaxtarskilyrði, meiri fjárfestingar og hærri laun.

Hér þarf gott samspil náttúru og atvinnulífs. Við komumst aldrei hjá því að leggja eitthvað til af náttúru landsins við atvinnuuppbyggingu af þeirri stærðargráðu sem Vestfirðirnir þurfa um þessar mundir. Það er of langt í að ferðaþjónustan geti orðið sá stóri og sterki atvinnuvegur sem rífur upp byggðarlögin þar, það þarf eitthvað stórt að gerast og það strax.


"Þess vegna eiga sumir menn menn"

Við hjónin stöndum í framkvæmdum á heimili okkar þessa dagana eins og ég hef lítillega bloggað um. Við settum okkur 5 ára framkvæmdaplan innanhúss hjá okkur og voru þessar framkvæmdir sem nú standa yfir í eldhúsinu, sannarlega á þeim.

En síðan vildi konan færa all margar framkvæmdir á þessu 5 ára plani og setja þær fyrr á dagskrá. Þannig að í raun var þetta 5 ára plan orðið að ársplani eða þar um bil. Hún útlistaði fyrir mér þessi elska hvað hún vildi nú vera búin að gera fyrir jól og mér féllust hendur í smá tíma að minnsta kosti.

Hún sagði mér að þetta fylgdi því að vera giftur konu, að þær vildu gera hlutina mun hraðar er karlar.

Um leið og ég snéri mér á hina hliðina og lokaði augunum sagði ég við hana: "Þess vegna eiga sumir menn menn elskan mín."


Enn einn forsetinn sem ætlar að bæta og laga þingstörfin

Sturla Böðvarsson er enn einn forseti Alþingis sem heldur betur ætlar sér að bæta ástandið í þinginu. Ekki man ég betur en allir forverar hans hafi verið með háar hugmyndir um þetta í upphafi en svo hefur þetta allt saman farið í einn og sama grautinn.
mbl.is Sturla kjörinn forseti Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð grein Sölva á bb.is

Ég bara get ekki annað en hrósað Sölva Sólbergssyni í Bolungarvík fyrir mjög góða grein á bb.is um olíuhreinsunarstöð.

Hvet alla til að lesa hana, þarna kemur hann að kjarna málsins að mínu mati, í vangaveltum manna um framtíð ferðaþjónustunnar.


Allt á hvolfi

Það er ekki ofsögum sagt að allt sé á hvolfi heima. Á meðan hjartað í húsinu, eldhúsið, er í rúst, er einhvern veginn allt annað í rúst líka. Leit í nærbuxnaskúffuna mína í gærkvöldi eftir sturtu og sá að þar er farið að fækka all verulega. Svo ég vona að við náum að klára þetta í dag og á morgun. Allt heimilishald fer eiginlega á hold þegar svona er ástandið.


Lífið er ljúft

Helgin að baki var bara mjög ánægjuleg í alla staði. Við rústuðum eldhúsinu í gær með annarri eða einari, eins og sumir segja, rifum upp allt gólfið og í kvöld hefst endursköpun þess með svakalegri pússningarvél. Ætlunin er að pússa þetta gamla trégólf upp og lakka það og gera þetta eins og það líklega var fyrir einum 99 árum síðan. En húsið okkar verður 100 ára á næsta ári. Síðan er búið að setja upp fjóra skápa eða skenka sem koma eiga í eldhúsið þegar við verðum búin að pússa gólfið upp.

Síðustu skóladagarnir framundan hjá krökkunum og ferðalög allsráðandi. Árdís fór í ferð á Blönduós og Húnvelli í síðustu viku en Haukur er að fara í dag í smá ferð um Skagafjörðinn. Skírnir fúll yfir því að komast ekki í sumarfrí eins og systkini sín, en hann þarf að dúsa á leikskólanum fram að mánaðarmótum júní - júlí. Byrjar svo í skóla næsta haust.

Annars er ótrúlegt hvað lundin léttist þegar hitastigið fer alla leið upp í 10 gráður eða svo, þá finnst manni hlýtt og hálfgert hitabeltisloftslag allt um kring. Það þarf ekki mikið til að gleðja mann.

Við hjónin skruppum á Greifann á Akureyri á sunnudaginn og fengum okkur þar að borða. Haukur Sindri kom frá mömmu sinni með flugi til Akureyrar. Guðný fékk sér humarpasta, sem því miður var ekki eins og það hefur áður verið að hennar sögn, en ég fékk mér ekki feitan og djúsí hamborgara eins og oft áður, heldur fékk ég mér mjög góðan saltfiskrétt.

Örugglega erfitt að vera KR-ingur þessa dagana.


Útskrift á Hólum og yxna kusa í hátæknifjósi

Við brugðum undir okkur betri fætinum í dag 4/5 af fjölskyldunni þar sem Haukur er hjá mömmu sinni um helgina. Þetta voru vinnutengdar ferðir hjá Guðnýju, hún tók myndavélina með sér.

Víð fórum á Hóla í dag og fylgdumst með útskrift úr Háskólanum á Hólum. Þar voru útskrifaðar þrjár tegundir af hestamönnum þ.e. með mismunandi gráður, einn nemandi með diplómapróf í Ferðamálafræði og síðan 9 manns með BA gráðu í Ferðamálafræði og voru þetta fyrstu stúdentarnir sem Hólaskóli brautskráir með slíka gráðu. Sannarlega stór dagur þar á bæ.

Ég sá sjálfan mig alveg fyrir mér við útskrift frá Hólum en ég stefni á að ljúka þessu diplómanámi í fjarnámi 2009. Þá fæ ég líka réttindi staðarvarðar og landvarðar, hvað svo sem ég geri við það. Sé mig varla starfandi í þjóðgarði við landvörslu, en maður veit aldrei.

Eftir útskriftina lá leið okkar í hátænifjósið hjá Pálma og frú í Garðakoti í Hjaltadal. Þau eru nýbúin að byggja það og höfðu opið hús - eða fjós, í dag og buðu gestum og gangandi. Talsvert fjölmenni var þarna og gaman að sjá hvernig þetta lítur út. Ákaflega þrifalegt og bóndinn þarf ekkert einu sinni að fara ofan í básana til að líta eftir, því hann getur spígsporað á einskonar útsýnispalli og gengið um allt til að skoða kusurnar sínar. Róbóti sér síðan um að mjólka kýrnar og bróðir hans mokar flórinn. Rennir sér eftir gólfinu og mokar skítnum niður um ristar sem á gólfinu.

Veitingar voru í boði hússins, bjór og koníak og maður laumaði á sig einu af hvoru og mikil stemning. Þeir kunna bændurnir í Skagafirði að veita á svona stundum. Guðný var eins og á heimavelli þarna og naut þess að skoða kusurnar. Þess má geta að þegar við bjuggum fyrir vestan fékk ég avallt beðið sem óumbeðið, fyrirlestur um kýr í Djúpinu og þeirra hegðunarmynstur. Það var ákaflega fróðlegt. Í dag bættist svo í viskubrunn minn um þessi ágætu klaufdýr, hegðun þeirra þegar þær eru í þörfinni og var það býsna fróðlegt.

Fólk fékk nefnilega að horfa á sæðingu í beinni, því þarna var yxna belja á ferðinni sem heimtaði sitt og engar refjar. Atli sæðingaheimsmeistari klárði verkið af stakri snilld og mér er það til efs að hann hafi haft eins marga áhorfendur að svona leik áður. Ekki var laust við að sumt fólk yrði hálf vandræðalegt þarna og sérstaklega þeir sem voru með börn með sér og þurftu að útskýra fyrir þeim hvað væri eiginlega í gangi. Við heyrðum í einum þarna sem sagði dóttur sinni frá því að þarna "hmmm, er verið að gefa henni meðal"!! Fína meðalið maður. En eins og Guðni fyrrverandi landbúnaðarráðherra myndi orða þetta; "Þar sem maður og kýr koma saman, verður til kálfur".......eða eitthvað svoleiðis. Dettur alltaf í hug sú fleyga setning í Dalalífi; "ja kýr........eru þær ekki svona mest klaufdýr"!!! Þvílík snilld.

Annars fór dagurinn fyrir og eftir þetta skemmtilega ferðalag, í að vinna í endurbótum í eldhúsinu, samseningu skápa, málun í forstofunni og stigaganginum og þrif á gömlum dúk sem var undir teppinu í forstofunni sem við vorum að henda. Það var ljúft að henda sér í pottinn eftir matinn og láta líða úr sér. Guðný kvartaði yfir kulda en mér fannst þetta bara notalegt.

En á morgun verður áfram unnið í endurbótum, en svo rennum við á Akureyri og sækjum Hauksa á flug þangað annað kvöld. Alltaf gaman þegar krakkarnir koma heim eftir að hafa heimsótt "The others". Sýnist á öllu að við hjónin skreppum á Greifann og fáum okkur að borða þar bara tvö ein, því Árdís og Skírnir ætla að heimsækja afa sinn og ömmu í Vanabyggð. Ætli það verði ekki hollustan hjá mér á morgun þar sem ég svindlaði aðeins í dag. Enda segir hún Sveina mágkona mín að maður eigi að leyfa sér smá svindl einu sinni í viku, því annars gleymi líkaminn því hvernig er að brenna mat sem þarf virkilega að hafa fyrir að brenna og hætti því á endanum. Það væri nú ekki nógu gott er það?

Annars óska ég öllum gleðilegrar hátíðar á morgun.


Breytt mataræði gerir kraftaverk

Ég tók mig á um daginn og breytti mataræði mínu. Breytingin er ótrúleg.

Ég fór í fyrsta lagi að borða eins og maður. Mér þykir matur góður og ég ólst upp við að borða mikið. Enda var það þannig að á mínum íþróttaferli var maður í toppformi allt árið og gat étið eins og maður vildi.

En síðan lauk ferlinum 1997 og ég hef verið upp og niður í þyngd á þessum tíma, reynt ýmsar lausnir, töfralausnir, en alltaf  lent í sama farinu aftur.

Ég sá að við svo var ekki búið. Það eru þrjár vikur síðan að ég fór í þetta átak. Ég er líka svo heppinn eða eiga yndislega konu sem styður mig heilshugar í þessu og leggur upp matseðlana með mér. Aðferðin er einföld:

*  Ég skammta mér mat og borða ekkert meira.

*  Ég sneiði hjá harðri fitu, sykri og hefðbundnu brauði. Einnig gosi og nammi.

Ég er hættur að tína af diskum annarra fjölskyldumeðlima þegar ég er búinn af mínum.

*  Ég hef aukið grænmeti og ávexti í fæðuvali mínu.

*  Ég keypti mér digital vikt og nú vikta ég mig kvölds og morgna og skrái niður þyngd mína. Það er besta aðhald sem ég get hugsað mér.

Fyrir vikið hefur magamál mitt minnkað, ég þarf minna til að verða saddur, en það sem komið hefur mér skemmtilega á óvart er hversu orkumeiri ég er. Áður var oft einhverskonar slen yfir mér þegar ég kom heim úr vinnunni, en núna hugsa ég um allt það sem ég ætla að gera heima eftir vinnu.

Og það besta er að bara með þessu, ekki með neinum töfralausnum eða einhverri megabrennslu, hef ég lést um ein 8 kíló og still going down!! Takmark mitt er að léttast um 12 kíló í þessari atrennu og setja mér svo ný markmið.

Mæli með þessu..........


Ríkisstjórnin klár

Jæja þá hefur ráðherralistinn litið dagsins ljós í nýju ríkisstjórninni. Ég hef miklar væntingar til þessarar stjórnar, sérstaklega hvað varðar áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins, byggðamál og velferðarmál.

Ég var mjög nálægt ráðherralista Samfylkingarinnar í getgátum mínum í gær. Eina villan sem ég gerði var að setja Ágúst Ólaf inn sem ráðherra en ekki Björgvin G. Ég varð dálítið hissa á því, en samt sem áður kaupi ég þær röksemdir að fyrst formaðurinn er kominn í ráðherrastól, þurfi aðrir að sinna flokknum og innra starfi hans og þá er eflaust gott ef varaformaðurinn geti axlað þá ábyrgð.

Arnbjörg Sveins og Bjarni Ben eru ekki ráðherrar eins og ég gat mér til um, en Guðlaugur Þór og Björn Bjarna eru þarna og varla hægt annað en setja þann síðarnefnda inn í ríkisstjórnina eftir Baugsauglýsingarnar frægu, þannig hefur Geir alla vega litið á málin og það er í raun þannig að svona áróður auðvaldsins má ekki hafa áhrif á gang stjórnmálanna hvaða skoðum menn hafa svo sem á viðkomandi persónum.

Hlutur kvenna ansi rýr í Sjálfstæðisflokknum og þeir hefðu getað gert betur þar. Dáltíið fyndin yfirlýsing formanns sjálfstæðiskvenna um að formennska í þingflokknum sé ígildi ráðherrastóls. Þvílíkt bull og fólk gengur ansi langt að breiða yfir svona mál.

En nú er bara að sjá sáttmálann og hvað þessi stjórn ætlar að gera á kjörtímabilinu. Ætlar hún að gjörbylta landbúnaðarmálunum í átt til meira frjálsræðis og þá ekki síst fyrir okkur neytendur? Fróðlegt að sjá það, sem og aðgerðir í byggðamálum og í málefnum aldraðra og öryrkja.


Getið til um ráðherraefni og ráðuneytaskiptingu

Nú verður gaman að sjá hvernig ráðherralistinn lítur út.

Hjá Samfylkingu lít ég á þessi sem örugg um ráðherrastóla: Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna Sig og Ágúst Ólafur. Ég tippa síðan á Þórunni Sveinbjarnar og Kristján Möller, sem er eini landsbyggðarmaðurinn sem að mínu mati á raunhæfa möguleika á ráðherraembætti. Ég tel varhugavert að Ingibjörg Sólrún fari í utanríkisráðherrann, því það er ekki gott að vera flokksleiðtogi í ríkisstjórn og vera mikið í burtu.

Hjá Sjálfstæðisflokknum er mun erfiðara að spá fyrir um ráðherra. Þó eru þessi þrjú örugg að mínu mati: Geir Haarde, Þorgerður Katrín, Árni Mathiesen. Síðan held ég að önnur kona komi inn og þar stendur valið á milli Ástu Möller og Arnbjargar Sveinsdóttur. Það er mikið af nýjum konum í þingmannaliði Sjálfstæðismanna og ég held að þessar með reynslu verði teknar framyfir.

Geir stendur síðan frammi fyrir því að yngja upp í ráðherraliði sínu og hefur þar all marga kosti. Bjarni Ben er mjög líklegur sem ráðherraefni. Guðlaugur Þór gæti átt þar von en ég hef þó ekki trú á að hans tími sé kominn. En síðan gæti Geir gefið Sturlu og Birni Bjarnasyni tækifæri til að gegna ráðherraembætti í tvö ár og þá komi Bjarni og Guðlaugur Þór inn. En ég er frekar á móti slíkum tilhögunum, tel það farsælla að tefla fram ráðherrum til frambúðar. Ég held að Einar Kristinn verði áfram sjávarútvegsráðherra.

Ég ætla að tippa á þessa ráðherra hjá Sjálfstæðismönnum; Geir, Þorgerður Katrín, Árni M, Arnbjörg Sveins, Bjarni Ben og Einar Kristinn. Sturla verður þá forseti þingsins, sem er embætti stjórnmálamanna á útleið. En þó gæti eins og ég sagði áður komið til hrókeringa eftir tvö ár og þeir Sturla og Björn Bj fengju að sitja fyrri helming kjörtímabilsins.

En vandi er um slíkt að spá.

En hvað um skiptingu ráðuneyta. Ég held að aðeins verði gerð ein breyting og hún er sú að heilbrigðisráðuneytið fari til Sjálfstæðismanna og samgönguráðuneytið yfir til Samfylkingar. Þá lítur listinn svona út og ég leyfi mér að geta mér til um hvaða ráðherrar verða í hvaða stólum:

Sjálfstæðisflokkur: Forsætisráðherra Geir Haarde, Heilbrigðisráðherra Þorgerður Katrín, Fjármálaráðherra Árni Matt, Dómsmálaráðherra Bjarni Benediktsson, Sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn, Menntamálaráðherra Arnbjörg Sveinsdóttir.

Samfylking: Utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ingibjörg Sólrún, Umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir, Félagsmálaráðherra Jóhanna Sig, Samgönguráðherra Kristján Möller og Landbúnaðarráðherra Ágúst Ólafur.

En þetta er bara svona upp á djókið og kannski og trúlega verð ég way off.


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband