Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 20. júní 2008
Uppgrip í ferðaþjónustu í Skagafirði
Gárungarnir svokölluðu eru snöggir til þegar ísbjarnarfárið er annars vegar.
Smellið á skjalið hér fyrir neðan og sjáið dæmi um markaðssetningu á heimsmælikvarða!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. júní 2008
Viltu læra að þurfa aðeins einn bensín-/olíutank á mánuði?
Nú berast fréttir af því að fólk sé að sligast undan ferðakostnaði frá úthverfum höfuðborgarsvæðisins (Árborgarsvæðinu sem dæmi). Fólk sem sá sér hag í því að flytja út fyrir borgina í ódýrara húsnæði og barnvænna umhverfi sér nú þann hag brenna upp í þessum gríðarlegu miklu verðhækkunum á olíu.
Hvað er til ráða?
Jú, flytja út á land, flytja í Skagafjörð.
Ég þekki það sjálfur eftir að hafa búið í Reykjavík í tvö ár að þar þurfti ég fjóra tanka af bensíni á mánuði, bara til að komast í vinnuna, aukavinnuna, versla og snattast það helsta. Hér á Krók þarf ég aðeins einn tank á mánuði fyrir það sama.
Hver er sparnaðurinn á ári?
Segjum að það kosti 8000 kall að fylla venjulegan fjölskyldubíl af bensíni. Í Reykjavík eyði ég þá 32 þúsundum á mánuði í bensín og 384 þúsund á ári. Hér þarf ég að eyða 8000 á mánuði í bensín eða 96 þúsund á ári og sparnaðurinn er 288 þúsund, eða sólarlandaferð fyrir fjölskylduna!!
Hér getur þú líka lagt bílnum heilu og hálfu dagana og labbað í vinnuna!! Hér þarf ekki að skutla krökkum allan daginn í hitt og þetta sem þau taka sér fyrir hendur. Hér er skólastrætó sem keyrir krakkana í og úr skóla.
Byrjaðu á því að ræða við þína yfirmenn hvort þeir væru tilbúnir að leyfa þér að flytja starfið þitt norður á Krók. Ef þeir eru tilbúnir í það, hafðu þá samband við mig og ég skal hjálpa þér að finna heppilega vinnuaðstöðu. Hér höfum við ljósleiðaratengingar á milli allra helstu fyrirtækjanna og nú stendur yfir verkefni Gagnaveitu Skagafjarðar sem er að ljósleiðaravæða öll heimili á Króknum.
Hér eru flugsamgöngur við Reykjavík. Þar af tvo daga í viku flug fram og til baka. Þú gætir því skroppið vikulega eða hálfsmánaðarlega á þinn vinnustaði í Reykjavík og hitt þar kúnna og samstarfsfólk og verið kominn í kvöldmat aftur heima hjá þér.
Héðan ertu 3.5 tíma til Reykjavíkur og rétt rúman klukkutíma til Akureyrar.
Hér er rekin góð heilsugæsla, hingað koma sérfræðingar með reglulegu millibili, hér eru góðir grunnskólar, hér á að fara að auka leikskólapláss, hér er öflugt íþrótta- og félagslíf, hér þrífst öll sú þjónusta sem nauðsynleg er, hér er fjölbreytt atvinnulíf og vöntun á starfsfólki, hér á að fara að byggja upp koltrefjaverksmiðju og tilraunir standa yfir á framleiðslu basalttrefja, hér höfum við glæsilega stórverslun í Skagfirðingabúð og góða hverfisverslun að auki og svona mætti lengi telja.
Einn af stóru kostunum er síðan sá að hér er mjög barnvænt samfélag og mikil náttúrufegurð.
Hér getur þú fengið 150 m2 einbýlishús með bílskúr á 27 milljónir, bara sem dæmi.
Reiknaðu dæmið til enda!!
Sveiflur á gengi krónu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. júní 2008
Bessevissarar út um allt!
Skondið að lesa og hlusta á viðbrögð hinna ýmsu bessevissara um ísbjarnardrápið í gær. Magnús Þór Hafsteinsson yfir bessevisser er þar fremstur í flokki. Hann hefði nú gert þetta öðruvísi og kann allt miklu betur en allir aðrir. Svo tekst honum á ótrúlegan hátt að reyna að gera þetta að pólitísku máli.
Heyrði í einni mannvitsbrekku á Bylgjunni í morgun. Hann sagðist vera veiðimaður og alvöru veiðimenn nálguðust ekki bráðina á bílum, heldur reyndu þeir að læðast að henni. Þessi ágæti "veiðimaður" hefur líklega ekki staðið í því að veiða ísbirni. Hann hefði samt verið tilbúinn í að fórna sér í að læðast að skepnunni og skjóta hana deyfiskotinu. Æskileg fjarlægð 30-40 metrar. Hann hlýtur þá að eiga heimsmetið í 100 metra hlaupi...... Að vera í bílunum var fyrst og fremst ráðstöfun til að verja mannfólkið, en sumum sem tjáð hafa sig um þessi mál, finnst það kannski ekki skipta miklu máli.
Þessi ágæti veiðimaður skildi ekkert í því af hverju menn notuðu ekki þyrlu til að skjóta dýrið eins og þeir gera í ÁSTRALÍU!! Já það er nú aldeilis skrýtið. Maður hefur séð myndir af því þegar menn eru að skjóta og deyfa dýr úr þyrlum, en mínar minningar af slíkum vettvangi eru einhverjar sléttur þar sem dýrin taka á rás undan þyrlunni. Ef ísbjörninn fældist vegna bílanna sem löturhægt reyndu að komast nær, hefði það nú trúlega fælst og það ennþá meira ef menn hefðu elt það á þyrlu.
Ég frábið mér svona bessevissera. Ég frábið mér þá aðila sem reynt hafa undanfarnar tvær vikur að skíta lögreglumenn, byssumenn og aðra þá sem hafa komið að málum út og dæma þá sem blóðþyrsta morðingja og menn með greindarskort.
Lítið ykkur nær, þið voruð á hvorugum staðnum og gátuð með engu móti gert ykkur í hugarlund hvað gekk á þarna.
Daprir en um leið sáttir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 17. júní 2008
Þannig fór um sjóferð þá
Því miður tókst ekki að bjarga bjarndýrinu úti á Skaga þrátt fyrir mikinn viðbúnað. Menn náðu ekki að komast nógu nálægt dýrinu til að tryggja að svæfing tækist og styggð kom að því. Það tók á rás í átt að hafi og þá var leikurinn í raun búinn.
Þó svona bessevisserar eins og Magnús Þór Hafsteinsson viti allt betur og kunni allt betur en aðrir, þá hefði verið óráð að missa dýrið í hafið því hvar hefði það komið að landi næst?
Eftir rannsóknir á birnunni kom síðan í ljós að hún var mjög veikburða og særð og efuðust menn um að hún hefði hreinlega lifað svæfinguna af og hvað þá flutningana sem fyrirhugaðir voru.
En nú bara gengur ekki annað en að umhverfisráðuneytið og stofnanir þess fari af alvöru að huga að leiðum til að bregðast við þegar bjarndýr koma á land. Sérfræðingar sem hafa tjáð sig um þessi mál segja að þetta geti alveg aukist og ef við horfum fram á það að 2-4 bjarndýr taki land hér á ári, verður eitthvað að gera.
Ég styð það heilshugar að reynt sé að bjarga þessum dýrum sem sögð eru í útrýmingarhættu. En það gengur ekki að það þurfi að kosta til tugi milljóna í hvert einasta skipti.
Hver ætlar að bera kostnaðinn af þessari aðgerð? Björgúlfur eftir allt saman? Ég vona að hann sé maður að meiru og klári þann pakka þó ekki hafi tekist betur til en raun bar vitni.
Það þarf að staðsetja búr, vopn og lyf hér á staðnum, eða í næsta nágrenni - t.d. á Hafíssetrinu á Blönduósi, þjálfa upp mannskap til að höndla þetta (alla vega hefur dýralæknirinn á Blönduósi haft uppi stór orð í þessu ferli öllu) svo við getum tekið á móti þessum kvikindum á réttan hátt og gert heiðarlega tilraun til að skila þeim aftur til síns heima.
En nú fer lífið allt í sinn vanagang, spúsa mín komin heim örþreytt og sofnuð eftir erfiðan einn og hálfan sólarhring á bjarnarslóðum. Ekki laust við að karlinn hennar sé stoltur af henni eftir framgönguna í þessu máli og sér í lagi á Bylgjunni í eftirmiðdaginn. Ég verð að bæta því við að ég varð hálf dapur yfir þessum tíðindum að menn hafi þurft að fella björninn. Maður tók þetta einhvern veginn pínulítið inn á sig, þarna var kvikindi fjarri heimahögum og allt gert til að reyna að koma því heim aftur. Síðan kemur í ljós að dýrið var illa á sig komið og hafði trúlega verið lengi á sundi og því aðframkomið þegar það náði landi. Það hefðu því verið kjörin örlög fyrir það að komast heim aftur.
En þriðji björninn á eftir að koma, sbr. draumfarir Sævars á Hamri. Spennandi? Veit ekki, er þetta ekki orðið bara gott.
Vinna á morgun - Boston verða kannski orðnir NBA meistarar þegar ég vakna í fyrramálið, en því miður og ég játa það hér og nú, hef ég ekki orku í að vaka og horfa á leikinn. Mikið að gera í vinnunni og ég þarf að halda fullri einbeitingu. Heiti því þó að mæta í Boston-treyjunni minni í vinnuna verði þetta að veruleika.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 17. júní 2008
Viðskiptahugmynd
Fari þetta að verða daglegt brauð að ísbirnir heimsæki okkur hér í Skagafjörð ber okkur að nýta þau tækifæri sem felast í því.
Í fyrsta lagi er þarna gullið tækifæri til að koma svæðinu á framfæri í erlendum fjölmiðlum. Hér þarf að setja upp fjölmiðlasetur þegar svona er ástatt þaðan sem upplýsingum er komið á framfæri við fjölmiðla út um allan heim. Fókus heimspressunnar gæti verið á svæðinu um þessar mundir, því yfirleitt sýna útlendingar því áhuga þegar reynt er að bjarga dýrum sem þessum.
Í öðru lagi eigum við í fullri alvöru að skoða þann möguleika að koma hér upp hvítabjarnargarði. Í stað þess að eyða tugum milljóna í hvert skipti til að koma þeim til síns heima aftur, eigum við að setja fjármagn í það að setja upp svona garð sem gæti haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna á svæðiu. Búa til rammgerðan garð, þar sem þeir gætu spókað sig úti í náttúrunni og komið síðan upp sjávarkeri þar sem þeir gætu baðað sig og synt.
Hér þurfa þeir ekki að glíma við hita, ónei. Hér er meðalhitinn ekki nema 4-5 gráður yfir árið eða svo. Hér ætti að finnast landrými til þess arna.
Okkur ber að reyna að hlífa svona dýri og bjarga því, en ég sé bara ekki fram á það að við getum eytt í þetta tugum milljóna eins og þetta kostar klárlega, í hvert einasta skipti sem svona kvikindi gengur á land. Það er nefnilega allt eins í kortunum að þetta gerist örar en áður, skv því sem sérfræðingar segja. Að geta komið svona dýrum 4-5 saman í hvítabjarnargarð er eitthvað sem mér finnst að við ættum að skoða.
Ég hef nefnilega þá skoðun að fái svona dýr gott landrými til að spóka sig á, geti þau alveg haft það bærilegt og ekki verra í það minnsta en í sínum eðlilegu heimkynnum sem okkur er sagt að þau séu að hrekjast frá.
Beðið átekta að Hrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 16. júní 2008
Var á ísbjarnarslóðum
Ég renndi með vistir og nauðsynjar út á Skaga til blaðamanna Feykis sem ætla að dvelja næturlangt þarna út frá.
Aðstæður þarna eru nokkuð góðar til að hafa gætur á dýrinu, þarna er auðn í kring um bæina og björninn heldur sig ca 200 metra frá bænum. Heimilisfólkið ætlar ekki að yfirgefa bæinn í nótt.
Eðlilega er bóndinn á bænum uggandi um sinn hag. Þegar hefur björninn farið í æðarvarpið og gætt sér þar á eggjum að því er virðist. Stutt frá eru rollur og lömb í girðingu. Það er líklega ekki skemmtilegt að sjá svona dýr éta lífsviðurværi fjölskyldunnar. Ef bóndinn sæi mink í varpinu myndi hann skjóta hann án tafar.
Á staðnum eru skyttur til að gæta öryggis á staðnum. Þeir hafa komið sér fyrir við bæinn og eru í sjónfæri við björninn. Vettvangsstjóri á staðnum er síðan yfirlögregluþjóninn sem þarf að taka allar ákvarðanir og hann er því ekki í öfundsverðri stöðu.
Hvað ef dýrið fer í rollurnar? Er það nægjanleg ástæða til að láta til skarar skríða? Hvað ef það fikrar sig lengra í átt að bænum? Þetta eru spurningar sem brenna á fólki.
Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hvernig ástandið blasir við bændunum á Hrauni. Eins og ég sagði áður, er hætta á því að björinn haldi áfram að éta lífsviðurværi þeirra og fari hann í rollurnar kárnar gamanið. Það þýðir hvorki að segja að það sé til nógu mikið af rollum og að það sé hægt að bæta honum það upp eða að æðurinn komi aftur næsta vor og þetta verði allt í sómanum. Málið er ekki svona einfalt.
Hvað ef Sturla Jónsson sem dæmi eða aðrir vörubílstjórar og verktakar sæu bíla sína og tæki étin upp? Gætu menn horft aðgerðarlausir á? Held ekki og ég set þetta í þetta samhengi svo fólk getið áttað sig á því hvað um er að ræða. Lífsviðurværi fólks.
Fyrst Novator ætlar að borga brúsann, fylgir þá ekki með í þeim pakka bætur fyrir búsifjar bóndans?
Hvað ef þetta gerist 4-5 sinnum á hverju ári að hingað komi ísbirnir eins og margir sérfræðingar telja að geti alveg gerst? Ætlum við að eyða í það fjármunum í hvert einsta skipti að bjarga svona dýrum? Verður bara settur upp færanlegur búnaður, með vopnum, búri og öllum pakkanum sem hægt er að senda á þá staði sem birnirnir drepa niður fæti?
Ég er langt frá því spenntur fyrir því að eiga von á því að hingað inn á Krók í þéttbýlið, villist svona skepna. Við skulum átta okkur á því að það getur alveg gerst að dýrin taki ekki land fyrr en innar í firðinum og þá erum við í vondum málum. Ætlast fólk þá til að við höldum dýrinu rólegu þangað til græjur koma frá Köben?
Það eru margar spurningar í þessu. Afdrif bjarnarins eru ekki ráðin, en þau geta ráðist á örskotsstundu í nótt eða áður en menn mæta með búrið. Um leið og hann fer að ógna bænum eða hugsanlega búfénaði ábúenda verður hann felldur og ég stend með þeirri ákvörðun fram í rauðan dauðann, ef það verður niðurstaðan.
En auðvitað vona ég að það takist að bjarga kvikindinu, en bið fólk að hugsa það mál til enda, eigum við að vera að eyða í það tugmilljónum í hvert einasta skipti sem svona dýr rekur á land?
Erfið aðgerð framundan að Hrauni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 16. júní 2008
Aftur setur ísbjörninn mín plön í uppnám!!
Um daginn vorum við fjölskyldan á Tenerife í rólegheitunum þegar konan, sem er ritstjóri héraðsfréttablaðsins Feykis hér á Krók, fékk símtal frá Fréttablaðinu og var spurð hvort hún ætti myndir af ísbirninum.
Ekki átti hún það náttúrlega á bikiníinu á sundlaugarbakkanum. Ísbjörn nr. 1 var þá kominn á land. Við áttum flug heim síðar þennan dag og í stað þess að gista fyrir sunnan við lendingu um kvöldið og renna þetta í rólegheitunum heim daginn eftir, var brunað norður um nóttina því konan þurfti í vinnuna strax um morguninn. Við vorum komin heim um hálf fimm að morgni.
Í kvöld var svo meiningin að bjóða blaðamanni Feykis og konu hans í mat, þetta löngu planað. Mér sýnist á öllu að þær áætlanir séu í uppnámi, þar sem konan mín ritstjórinn og blaðamaðurinn eru bæði úti á Skaga að fylgjast með ísbirninum. Það er því næsta víst að matarboðinu verður frestað.
En sanniði til að þriðji björninn kemur innan mánaðar og ég ætla að passa mig á því að vera ekkert að plana hlutina neitt mikið fram að því.
Reynt að ná birninum lifandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 13. júní 2008
Engu nær
Eftir þessa fínu frétt og lifandi, er ég engu nær um það HVAÐA aðferð er verið að beita. Það var talað um ástæðuna fyrir þessum tilraunum m.a. hækkandi olíuverði sem hækkar rúlluplastið og hvaða áhrif þetta hefði á heyið og svona, en aldrei minnst einu orði á hvaða aðferð þetta væri.
Myndirnar töluðu kannski sínu máli fyrir einhvern, en ekki okkur sem stöndum ekki árlega í heyskap.
En að því slepptu er þetta enn eitt dæmið um íslenska bændur sem sinna nýsköpun og þróun í sínum rekstri afar vel.
Nýjungagjarnir bændur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 4. júní 2008
Menn smala ekki bjarndýrum eins og rollum!
"telja að ákvörðunin um að fella dýrið hafi ekki verið sérlega vel ígrunduð"
Vel ígrunduð? Hvað er málið?
Þetta var ekki rolla uppi í fjalli sem þú smalar vinstri hægri í hólf þar sem hægt er að "geyma" það þangað til byssa og deyfilyf koma á staðinn daginn eftir.
Þoka fyrir ofan, dýrið um 5 km frá næsta bæ og hefði auðveldlega getað horfið upp í þokuna og hvar hefði það borið niður fæti næst? Við bæinn? Minni á að það eru aðeins 15 km hingað á Krókinn frá staðnum sem dýrið var vegið og ég sem íbúi hér og faðir nokkurra barna, hefði ekki verið ánægður ef menn ætluðu að "geyma" kvikindið þarna í hlíðinni á svæðinu þangað til réttu græjurnar hefðu borist.
Þetta eru rándýr gott fólk, þau drepa aðrar lifandi skepnur sér til matar.
Harma ísbjarnardrápið" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 19. maí 2008
Mikið andskoti er ég stoltur af honum frænda mínum!!
Stefán Friðrik bróðursonur minn sem stundað hefur nám í Kvikmyndaskóla Íslands, sýndi lokaverkefni sitt ásamt samnemendum sínum á útskriftarhátíð skólans á laugardaginn. Ekki nóg með að hann útskrifaðist drengurinn, heldur sigraði myndin hans í samkeppni útskriftarnema!!
Myndin heitir Yfirborð og fjallar um óvænta atburði á ferðalagi manns í leigubíl áleiðis til Ísafjarðar. Stefán hlaut í verðlaun Bjarkann - þó ekki Bjarka frænda, heldur grip sem veittur er árlega af þessu tilefni.
Engir aukvisar voru í dómnefndinni, Silja Hauksdóttir leikstjóri, Ágúst Guðmundsson leikstjóri, Hlín Jóhannesdóttir, framleiðandi hjá Zik Zak kvikmyndum og Þorsteinn Bjarnason sat sem fulltrúi útskrifaðra nemenda.
Og umsögn dómnefndarinnar ekkert slor heldur: ,,Einföld og góð hugmynd sem kemst fyllilega til skila. Myndleg frásögn, útlit og myndvinnsla í stíl við viðfangsefnið. Hlutverkaskipan og frammistaða leikara ber leikstjóra gott vitni.
Maður er bara rífandi stoltur af frænda sem ég er viss um að eigi bjarta framtíð í þessu fagi!
Til hamingju Fáni frændi!!
Þessa ágætu mynd tók Davíð Orri. Smellið á hana og hún stækkar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Pælingar um ferða- og dægurmál
Tenglar
Ferðamál
Síður sem fjalla um ferðamál.
Bloggvinir
- Björgvin
- Björn Jóhann Björnsson
- Brynjar og Gurrý!
- Dunni
- Einar Bragi Bragason.
- Erla Einarsdóttir
- Eysteinn Skarphéðinsson
- Gísli Torfi
- Guðmundur Rafnkell Gíslason
- Guðmundur St Ragnarsson
- Guðný Jóhannesdóttir
- Gunnar Freyr Steinsson
- Heiðrún Björk Jóhannsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Róbert Guðmundur Schmidt
- Rúnar Birgir Gíslason
- Sigurður Árnason
- Sigurður Elvar Þórólfsson
- Snorri Örn Arnaldsson
- Sólmundur Friðriksson
- Viktoría Rán Ólafsdóttir
- Þorleifur Ágústsson
- ÖSSI
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar