Færsluflokkur: Dægurmál

Allur fjandinn

Það er fátt markvert í umræðunni þessa dagana. Fjölmiðlar velta sér upp úr málefnum sem þeir annars myndu ekki gera, en gúrkutíðin fræga ríður nú yfir og fátt svona sem gleður eyrað að ráði.

Ingibjörg Sólrún hefur farið hamförum í Palestínu og Ísrael og ekki annað að heyra á henni en að hún og við íslendingar séum hreinlega lykilinn að lausn þessarar djúpstæðu og flóknu deilu. Annars er ég nú sammála henni í því að líklega eru Bandaríkjamenn eitt stærsta vandamálið þarna niður frá.

Þetta leiðindalið í Saving Iceland, heldur áfram að setja sjálft sig og annað fólk í hættu. Með þvílíkt hallærislegum mótmælaaðgerðum. Þegar fólk getur ekki tjáð sig svo skiljist, eða vantar hæfileikana til þess, verður það jú að grípa til annarra ráða til að vekja athygli á málstað sínum. En það eina sem þetta gerir er að pirra hinn almenna borgara og manni finnst þetta vera hálf hallærislegt allt saman.

Jú bíddu, Árni Johnsen gefur nú ekki mikið fyrir þessa verkfræðivitleysinga sem gerðu skýrsluna um Eyjagöngin. Lætur þá heyra það í blöðunum í dag. Árni fékk pólitíska endurfæðingu út á þetta mál og slæmt fyrir karlinn að fá svona raunsæja skýrslu í andlitið.

Menn tala mikið um hátt verð á enska boltanum. Ég var að greiða um 2.200 krónur fyrir hann síðasta vetur án þess að þurfa að hengja mig á neitt annað prógramm hjá sama aðila. En nú ber svo við að ef maður ætlar að fá sér stakan mánuð kostar hann 4.300 krónur. En við erum áskrifendur að Stöð 2 og því fáum við boltann á 2.700 eða þar um bil. Þetta er talsverð hækkun og ég þarf að vera tengdur öðrum miðlum sama batterís til að fá þetta "góða" verð. Mér finnst að þarna sé verið að troða inn í þennan pakka allskonar aukaefni sem aðeins lítill hluti "nörda" hefur áhuga á. Ég hef gaman af því að setjast niður um helgar og horfa á mína menn í Arsenal spila og jafnvel aðra áhuagverða leiki, en ég hef engan áhuga á þessum aukaþáttum sem verið er að bjóða. Mér segir svo hugur að þeir hafi fengið slatta af prógrömmum í kaupbæti fyrir aðalpakkann, þ.e. hafi ekki þurft að borga fyrir aukaþættina sem þeir síðan selja okkur. Og dónsaskapurinn nær hámarki með því að maður þurfi að binda sig í 12 mánuði þegar enski boltinn er spilaður frá ágúst og fram í maí. Ef við hefðum ekki verið áskrifendur að Stöð 2 fyrir, efast ég stórlega um að hafa tekið enska boltann inn.

Annars erum við hjónin að fara til Danmerkur 5. ágúst n.k. Ætlum að heimsækja stóra bróður sem býr fyrir utan Köben, versla fatnað á fjölskylduna og drekka soldinn bjór. Mér finnst verslunarferðir alveg æðislegar í útlöndum. Mörg, mörg pit-stopp.


Tony Blair hreinsaður af áburði

Ég man einu sinni þegar ég var í unglingavinnunni hér á Krók að hafa útbýjað mig í áburði.

Þá fór ég heim og mamma hreinsaði mig af áburði.

Sjá nánar þessa frétt hér.


Vinnur þetta málstaðnum fylgi?

þetta Saving Icelandlið er alveg gjörsamlega komið út úr kortinu. Ókey, mótmælið því sem þið viljið mótmæla, en með þessum aðferðum náið þið ekki samúð almennings, því þið truflið okkar daglega líf. Það hefur ekki verið talið vænlegt til árangurs hingað til.
mbl.is Umhverfisverndarsinnar loka veginum upp á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líflegur stjórnmálamaður fallinn frá

Það var einhvern veginn þannig að maður lagði alltaf við hlustir þegar Einar Oddur tjáði sig um málefni líðandi stundar. Það eru því miður all margir stjórnmálamenn sem hreyfa akkúrat ekkert við manni, en Einar Oddur var sannarlega ekki einn af þeim.

Hann var rökfastur, samkvæmur sjálfum sér og hafði sjálfstæðar skoðanir á málunum og kom þeim á framfæri.

Pabbi og hann þekktust síðan í verkalýðsbaráttunni hér í denn. Báru mikla virðingu hvor fyrir öðrum, það var greinilegt á máli þeirra beggja. 

Ég minnist þess þegar ég var að vinna á Hótel Stykkishólmi að mig minnir sumarið 2002, en þá hélt þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þingflokksfund í Stykkishólmi. Einar Oddur og Sigrún Gerða dvöldu þar á hótelinu eins og aðrir, en voru nokkra daga í viðbót þar sem framundan var norrænn þingmannafundur sem einnig var haldinn á hótelinu. Einar Oddur var tíður gestur í lobbýinu hjá mér og við tókum oft tal sama. Eitt sinn var hann að rifja upp samskipti hans og pabba, segja sögur úr samningaviðræðum fyrri ára, þó sér í lagi í kring um þjóðarsáttarsamningana. Ég spurði hann að því hvort að þeir hefðu ekki tekist hart á? "Kalli minn, við tókumst ekki á, við sömdum", sagði hann þá og bætti við að menn hefðu lagt sig fram um að finna lausnir, ekki deila.

Einar Oddur var ötull talsmaður Vestfjarða, vestfirðingar áttu þar hauk í horni og hann lagði sig fram um að halda umræðunni um vanda svæðisins á lofti, en var samt laus við slagorðapólitík og popúlisma í málflutningi sínum.

Það er sjónarsviptir af honum karlinum og ég votta Sigrúnu Gerðu og öðrum aðstandendum mína dýpstu samúð.


Eru gúrkunni og kolefnisjöfnunarruglinu engin takmörk sett??!!

Ég sit hér í sófanum og var að horfa á alla vega 10 mínútna innslag í Íslandi í dag þar sem rætt var um hinn gífurlega mengunarvald SLÁTTURVÉL og hvort að ekki væri rétt að kolefnisjafna þann andskota.

Kommon, er ekki hægt að finna eitthvað áhugaverðara til að fjalla um um hásumar. Og er þessi kolefnisjöfnunarumræða ekki komin út í algjörar öfgar?

Verður ekki næsta ruglið að menn fari að skikka bændur til að kolefnisjafna beljurnar og hemja fretið í þeim!!


Skynsöm afstaða bæjarstjórans til olíuhreinsunarstöðvar

Í frétt á bb.is er að finna tilvitnanir í bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar vegna málefna olíuhreinsunarstöðvar. Hann segir þar að hann styðji byggingu stöðvar á Vestfjörðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. „Fyrir mig opnaði þetta sýn. Ég hafði ekki hugmynd hverju ég átti von á. Nú hef ég séð hvernig þessar verksmiðjur líta út og hvernig byggðin er nálægt þeim, bæði í Rotterdam og Leipzig. Ég fór út með því hugarfari að hugsanlega kæmi ég til baka og segði nei takk. Þetta er ekki eitthvað sem við viljum. Ég hélt að þetta væri sóðalegt og maður sæi olíu einhvers staðar. Þetta minnir meira á orkuverið í Svartsengi“, sagði Halldór.

Um staðarval segir hann þetta: "Það skiptir ekki máli hvort hún verði þá reist í Ísafjarðarbæ eða Vesturbyggð. Ég hef engan áhuga á að fara í reiptog um það því störfin munu verða til á öllu svæðinu".

Þetta er skynsamleg afstaða, landrými er ekki mjög mikið fyrir verksmiðju af þessari stærðargráðu fyrir vestan og því mega menn ekki fara að togast á um staðarvalið og láta það eyðileggja þennan möguleika. Þegar upp verður staðið verður það fyrirtækið sjálft sem ákveður hvar byggja skuli hreinsunarstöðina upp og þá ákvörðun taka þeir að undangengnum miklum rannsóknum. Hvort að sveitarstjórnarmenn á sitt hvorum endanum leggja fram ákveðnar lóðir og staðsetningar til að skoða betur er síðan annað mál, en allt þarf þetta að vinnast í sátt.

Staðsetning miðsvæðis á milli norður- og suðursvæðanna hlýtur að vera ákjósanleg, þá verða bæði atvinnusvæðin í jöfnum tengslum við starfsemina. En með bættum samgöngum hins vegar, munu þessi svæði sameinast í eitt atvinnusvæði og með boðuðum flýtiframkvæmdum í samgöngumálum getur það orðið að veruleika um svipað leyti og olíuhreinsunarstöð tæki til starfa.

Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ er jákvæður á þessa hugmynd og hann getur ekki verið annað því þarna er mögulega komin framtíðarlausn af atvinnuvandamálum Vestfirðinga þar sem útgerð og fiskvinnsla hefur verið að dragast saman og gerir það í fyrirsjáanlegri framtíð. Eigi Vestfirðir að þrífast, þarf öflug grunnatvinnustarfsemi að koma í staðinn og þegar um er að ræða allt að 500 störfum geta menn ekki annað en skoðað það alvarlega og það sýnist mér menn vera að gera.


Bændablaðið

Ég verð að koma því á framfæri að eitt alskemmtilegasta blað sem ég les er Bændablaðið. Ekki einvörðungu vegna þess að eiginkonan sé búin að kynna mig fyrir sælu sveitanna og heldur ekki af því að eitt uppáhalds lagið mitt þessa dagana sé "Svarfdælskir bændur og búalið" með Rögnvaldi gáfaða og félögum í Hvanndalsbræðrum, heldur vegna þess að blaðið er stútfullt af skemmtilegu efni.

Þar er mikið verið að segja frá nýsköpun og frumkvöðlum til sveita og mjög skemmtilegur vinkill tekinn á lífið í dreifbýlinu sem margir halda að sé ein flatneskja út í gegn.

Það hefðu allir gott af því að taka sér blaðið í hönd næst þegar það kemur og lesa það í gegn og fræðast um lífið til sveita og sjá hvað fólkið þar er ekki síður hugmyndaríkt og framsækið en við sem búum í þéttbýlinu.

Mæli með Bændablaðinu!!


Vikufrí framundan

Eftir vinnudaginn í dag fæ ég alveg heila viku í sumarfrí. Við stefnum á útliegu viku, fellihýsaþeysireið um landið. Rebekka Rán kom í gærkvöldi og verður með okkur í viku.

Ljóst að lítið verður um blogg á meðan fríinu stendur.

Lfið heil.


Ray Allen í Boston búning

Þá liggur niðurstaða leikmannavalsins fyrir í NBA, Boston skipti á fimmta valrétti sínum, Delonte West og Wally Szczerbiak fyrir Ray Allen og valrétt nr. 35, þar sem þeir tóku Gabe Pruitt.

Viðtal við Danny Ainge

Nánari upplýsingar á heimasíðu Celtics.

Sakna ennþá Evrópsks "touch" í Celtics, það vantar einhvern Evrópskan haus í liðið.

En ég kem til með að tjá mig um þetta draft síðar.


Paul Pierce hittir Mini-Me á götu

Rakst á skemmtilegt myndbrot með Paul Pierce helstu stjörnu Boston Celtics, þar sem hann hittir fyrir á götu hinn smávaxna leikara sem lék Mini-Me svo eftirminnilega í Austin Powers myndunum.

Skoðið þetta hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband