Færsluflokkur: Dægurmál

Alvöru vélhjólabraut á Króknum

Sannarlega ánægjulegar fréttir fyrir vélhjólaáhugamenn og aðra íþróttaunnendur að nú er komin alvöru motocrossbraut á Króknum. Heljar æfingar voru þar nú um helgina og í júlí er áætlað að halda bikarmót. Þá kemur fullt af fólki í bæinn því svona keppni fylgir alveg ótrúlegur fjöldi fólks. Gott fyrir ferðaþjónustuaðila en það er vonandi að það verði pláss fyrir þetta fólk í gistingu. Annars er það bara tjaldstæðið.

Hvet ykkur til að lesa þessa frétt HÉR á skagafjörður.com


Now we're talking!

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að leita eftir viðræðum við ríkisvaldið um að hefja starfsemi meðferðarheimilis að Núpi í Dýrafirði. Þetta er "win-win-win" staða ef svo má segja, eflir atvinnuna á svæðinu, nýtir byggingarnar að Núpi og kemur fleiri börnum og unglingum í meðferð.

Þarna er um raunverulegan kost að ræða að mínu mati. Náttúran í kring um Núp er ákaflega falleg, þarna er friðsælt og byggingarnar bjóða sannarlega upp á þenna möguleika.

Vona að þetta hljóti hljómgrunn.

Sjá nánar á bb.is


Ævintýrin gerast enn!

Í aðeins þriðja skiptið í sögu NBA gerðist það í nótt að liðið í 8. sæti í úrslitakeppninni sló liðið í efsta sætinu út. Dallas, sem fyrir úrslitakeppnina var talið eiga sigurinn vísan, enda með besta árangurinn í allri NBA deildilnni, lutu í parket fyrir sínum gamla lærimeistara Don Nelson sem þjálfar nú Golden State. Sannarlega ein óvæntustu úrslitin í sögu úrslitakeppninnar.

Ég man eftir því þegar Denver Nuggets lagði Seattle Supersonics í sömu kringumstæðum að mig minnir 1994. Síðasti leikur þeirra var hreint frábær skemmtun og einn af eftirminnilegri körfuboltaleikjum sem ég hef séð. Bendi á myndbrot og upprifjun á þessum magnaða leik hér. Í þessu liði Denver voru þeir í aðalhlutverki Dikembe Mutombo, LaPhonso Ellis og Brian Williams sem var hreint frábær í þessum leik. Helstu hetjur Seattle á þessum tíma voru Gary Payton, Shawn Kemp (ekkert skyldur Stebba Kemp) og Kendal Gill. Skora á ykkur að skoða þetta myndbrot.

Spái því að mikill fögnuður hafi gripið um sig á götum Kaupmannahafnar í nótt, þar sem vinur minn Björgvin Reynisson hlýtur að hafa gengið af göflunum. Hann fyrirgefur seint stjórnendum Golden State sem á sínum tíma köstuðu frá sér hverjum snillingnum á fætur öðrum.


mbl.is NBA: Golden State Warriors slógu Dallas út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukamótið í handbolta - mismunum íþróttagreina á RÚV

Deildarbikarkeppnir í íþróttum á Íslandi eru yfirleitt algjörar aukakeppnir og oftast leiknar á undirbúningstímabili til að búa til alvöru leiki fyrir félög sem eru að undirbúa sig fyrir aðalmótið sem er að sjálfsögðu Íslandsmótið. Knattspyrnan og Körfuboltinn sem dæmi, spila þessa keppni áður en Íslandsmótið hefst. Hanboltinn hins vegar, hefur gert þá undarlegu ráðstöfun að spila þessa keppni þegar Íslandsmótinu er lokið og allur vindur meira og minna úr keppnishaldi.

En þrátt fyrir þessa aukakeppni er okkur boðið upp á beinar útsendingar dag eftir dag frá þessu móti í okkar ástkæra ríkissjónvarpi. Þar hafa menn í gegn um tíðina tekið handboltann upp á sína arma, sett í hann almannafé og gera þar með þeirri íþróttagrein hærra undir höfði en öðrum. Sem að mínu mati er algjör skandall þar sem um ríkissjónvarp er að ræða.

Nú er ég ekki að gera lítið úr því að handbolti sé sýndur í sjónvarpinu yfir höfuð, en fyrr má nú dauðrota.

En mér þykir það alveg forkastanlegt að vera að eyða formúgu fjár í að senda beint út frá þessari aukakeppni handboltamanna. Eiga þá ekki bæði knattspyrnan og körfuknattleikurinn rétt á því að sjónvarp allra landsmanna sýni frá þeirra aukamótum líka?

Eða ætlar sjónvarpið að halda áfram að mismuna íþróttagreinum?


Mæli með Sex í sveit á Sæluviku

Við hjónin gerðumst menningarleg í gærkvöldi. Það telst nokkuð til tíðinda þar sem við erum alþekkt heimadýr, þar sem okkur líður alla jafnan best. Við brugðum þó undir okkur betri "fótnum" í gær og þáðum boð Starfsmannafélags Skagafjarðar og sáum leikritið Sex í sveit, í uppfærslu Leikfélags Sauðárkróks.

Skemmst er frá því að segja að þetta var frábær skemmtun. Ærslafullur gamanleikur, uppfullur af misskilningi milli persóna og áætlunum um leynd yfir hinu og þessu.

Þau frændsystkin Guðbrandur J Guðbrandsson og Elva Björk Guðmundsdóttir fara á kostum hreinlega í hlutverkum Ragnars og kokksins og aðrir leikarar eiga fína spretti, sérstaklega Kristján Örn Kristjánsson í hlutverki Benónýs undir lokin.

En semsagt, þeir sem eru að leita eftir skemmtilegu efni á Sæluviku, eiga ekki að láta þetta fram hjá sér fara.


Hvað verður um Íslandshreyfinguna eftir kosningar?

Íslandshreyfingin á erfitt uppdráttar í kosningabaráttunni og mælist með lítið fylgi. Fá teikn eru á lofti um að þetta breytist fram að kosningum.

Fari sem horfir, hvað situr þá eftir? Verður skrifuð minningargrein um þessa veikburða tilraun til að festa stjórnmálaafl í sessi? Verður sjoppunni lokað, eða verður þetta hreyfing sem notar næsta kjörtímabil til að byggja sig upp og efla?

Hvaða möguleikar verða í stöðunni?


Enn eitt áfallið fyrir vestan

Það er skammt stórra högga á milli fyrir vestan. Nú hefur Bakkavík, stærsta fyrirtækið í Bolungarvík, ákveðið að segja upp 40 manns í landvinnslu fyrirtækisins. Þetta er gríðarlegt högg fyrir byggðalagið ef þetta nær fram að ganga en skv. fréttinni róa eigendur nú að því öllum árum að reyna að tryggja hráefni til vinnslunnar eftir að hafa þurft að selja hlut sinn í útgerðarfyrirtækinu Rekavík. Þarna eru menn einfaldlega að sýna ráðdeild í rekstri að mér sýnist, greiða niður lausaskuldir og halda sér á floti.

Hálf eru nú tillögur vestfjarðanefndarinnar mjóslegnar við hliðina á svona fréttum og virðist enn bætast við þau störf sem eru í stórhættu fyrir vestan.

Hvað með þessar sértæku aðgerðir sem ég man ekki betur eftir en að hafi verið rætt um að þyrfti?

Eða er það ennþá bannorð hjá sjálfstæðismönnum þrátt fyrir að ástandið sé svona?


mbl.is 48 manns sagt upp störfum hjá Bakkavík í Bolungarvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kirkjutorgið á Sauðárkróki

 Eftirfarandi pistil setti ég inn á skagafjörð.com í morgun:

Eftir að hafa flutt hingað á Krókinn aftur og haft Kirkjutorgið fyrir framan mig daglega hef ég velt því fyrir mér hvort ekki væri hægt að taka torgið svolítið í gegn og gera það að fallegu samkomu- og útivistartorgi fyrir okkur íbúana. Á Ísafirði er slíkt torg sem heitir Silfurtorg og fyllist það af fólki á góðviðrisdögum sem situr þar og maular bakkelsi úr bakaríinu eða ís úr sjoppunni. Torgið er einnig notað fyrir samkomur ýmiskonar og þar er jólatréð sett upp líkt og á Kirkjutorginu hér.

2004052815021714

Það er mjög mikilvægt að mínu mati, að við höldum gamla miðbænum við, glæðum hann meira lífi og alvöru miðbæjartorg gæti verið í forgrunni þess verks.

Ég hef heyrt því fleygt að Íslandspóstur muni flytja sína starfsemi úr pósthúsinu en ég hef þó ekki fengið það staðfest. Ef og þegar það verður að veruleika skapast stórkostlegt tækifæri til að endurhanna torgið og búa þar til alvöru miðbæjartorg.

Það er hægt að gera með þessum aðgerðum:

  • Loka torginu fyrir umferð.
  • Minnka græna svæðið í miðjunni og helluleggja alveg að Aðalgötunni og að lóðum þeirra húsa sem standa við torgið.
  • Setja upp fallega bekki og borð sem auðvelt væri að færa til þegar samkomur væru haldnar á torginu.
  • Setja snyrtilega vörn, handrið eða eitthvað slíkt, meðfram torginu við Aðalgötuna til að auka öryggi fólks gagnvart bílaumferð og jafnvel setja upp hraðahindranir.

Síðan sé ég fyrir mér kaffihús í pósthúsinu og jafnvel pylsu- og ísvagn í horninu milli þess og Miklagarðs.

Húsin við Kirkjutorgið afmarka það á skemmtilegan hátt og með góðu viðhaldi á þeim húsum getur þarna orðið til mjög falleg torgmynd sem við getum orðið stolt af.

En orð eru til alls fyrst.


Athyglisverður vinkill á varnarmálin

Ég hlustaði á hádegisviðtalið á Stöð 2, þar sem fyrrverandi fréttahaukurinn Jón Hákon Magnússon, sem titlaður var formaður félags um vestræna samvinnu, tjáði sig um varnarsamninga sem utanríkisráðherra er að fara að skrifa undir við norðmenn og dani.

Einna athyglisverðasti vinkillinn sem hann tók var tenging þessara samninga við hugsanlega olíuauðlind sem við íslendingar eigum hlutdeild í hér norður í höfum. Hann sagði Rússa vilja tileinka sér hluta af þessu svæði og það ylli norðmönnum áhyggjum. Að fá hafsvæðið við Ísland sem æfingasvæði væri því ákaflega dýrmætt fyrir þá og þar með okkur líka.

Viðræður munu hefjast við Kanadamenn einnig um eftirlit með þessu svæði og Breta líka að sögn hans. Menn virðast líta á Rússa sem ógn á þessu svæði og að þeir hyggist hasla sér völl í Norður-Atlantshafi í kring um Svalbarða og Jan Mayen og það sé eitthvað sem sérstaklega Norðmönnum sé umhugað um að sporna við.

Minnir óneitanlega á Kalda stríðsforsendur, en þó með öðrum formerkjum. Það má alltaf finna sér óvini á friðartímum.

Steingrímur J er arfavitlaus yfir þessum samningi og líður greinilega illa yfir því að vera bundinn trúnaði um innihald hans. Mér sýnist að hann sé ekki í prinsippinu á móti samningi við Norðmenn, en vill hafa þessa varnarsamninga uppi á borðum og að þeir komi fyrir augu landsmanna.


Skrýtin vika að baki

Það verður ekki ofsögum sagt að síðasta vika hafi verið ansi skrýtin. Amma gamla kvaddi á miðvikudaginn á 96. aldursári. Það byrjaði að halla alvarlega undan fæti hjá henni á sunnudaginn og síðan smám saman leið hún yfir í annan heim og seinni partinn á miðvikudaginn dró hún síðasta andardráttinn sú gamla. Hennar verður sárt saknað en minnst fyrir glaðlega og hlýja framkomu.

Útförin verður á morgun þriðjudag og þá vonandi kemst höfuðið í lag á nýjan leik og maður fær orku til að koma lífinu í skorður á nýjan leik.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband