Færsluflokkur: Íþróttir

Smá Arsenal blogg eftir tímabilið

Þó Arsenal hafi nú ekki riðið feitum hesti frá þessu tímabili titlalega séð, er ég mjög ánægður með fragang liðsins í vetur. Ég bjóst alls ekki við því að þeir yrðu í toppbaráttunni eins og þeir voru lengstum og jafnvel hörðustu stuðningsmenn sáu fyrir sér að þeir gætu hugsanlega lent í fimmta sæti.

Það var grátlegt að missa Flamini til Milan, þessi maður sem fáir jafnvel vissu hvað hét í fyrra, blómstraði á miðjunni með Fabregas og var eins og hjartað í liðinu. En hann valdi hærri samning en Arsenal gat boðið honum og þar við situr. Arsenal er með mjög stífa launastefnu og þeir brjóta ekki þau prinsipp sem þar eru sett. Þess vegna eiga þeir alltaf á hættu að missa leikmenn sem boðið er betri laun annarsstaðar.

Og nú er Hleb sagður vera á leið út einnig. Mér er svo sem slétt sama. Það hefur verið þvílíkt gaman að horfa á hann og leikni hans og takta, en svona gríðarlega mikill og hæfileikaríkur sóknarmaður sem hann er, hefur aðeins skorað 11 mörk fyrir Arsenal á þeim þremur tímabilum sem hann hefur spilað með liðinu. Það er algjörlega óásættanlegt og í hvert sinn sem maðurinn komst í færi stóð maður upp og fór að pissa, rétt eins og hálfleik, því maður vissi að ekkert myndi gerast.

Umboðsmaður Adebayor er að reyna að gera stöðu hans hjá liðinu torkennilega. Í dag birtast fréttir af því að hann fari fram á 80 þúsund pund á viku ef hann eigi að vera áfram. En áðurnefnt launaþak Arsenal leyfir það ekki. Djöfuls andskotans umboðsmenn, þeir eru að eyðileggja leikinn vinstri hægri. Einhverjar kenningar voru á bak við það í morgun að David Dein fyrrum stjórnarmaður Arsenal og fyrrum nánasti samstarfsmaður Wengers, stæði á bak við þessa frétt, því í henni var sagt að ef billjóner eins og Rússmann Usmanov - sem á hlut í Arsenal og vill eignast liðið allt og Dein starfar fyrir núna, ætti liðið, þyrfti það ekki að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað laun sem væru hærri en þetta launaþak. Menn nota öll meðul til að ná sínu fram.

Wenger karlinn er trúr þessari launastefnu og hann er samkvæmur sjálfum sér. Hann hefur sýnt það og sannað að hann finnur leikmenn fyrir skít á priki og gerir úr þeim stjörnur jafnvel á einni nóttu eins og var með Bakary Sagna í vetur. En hins vegar hlýtur það að vera frústerandi að þegar þessir ungu pungar eru loksins að verða alvöru leikmenn, séu þeir teymdir í burtu með gylliboðum annarsstaðar frá.

Ég hef trú á því að karlinn kaupi 2-3 menn í sumar. Hann gæti haldið áfram á sinni braut og komið inn með buch of no names, en eitthvað segir mér að hann fari örlítið ofar í reynslubanka leikmanna og sæki einhverja sem þegar hafa skapað sér eitthvað nafn og gætu fittað inn í þetta umhverfi hjá Arsenal. Liðið þarf varnarmann, mulningsvél a la Flamini á miðjuna og sókndjarfan miðjumann í staðinn fyrir Hleb.

"Helvítið hann Jens" eins og pabbi kallaði Lehmann alltaf þegar hann skeit á sig, er farinn og nú fáum við ekki meira af "samherja-hrindandi, tá-stígandi og dómara-tuðandi" Lehmann framar í Arsenal. Hann átti stóran þátt í velgengni liðsins undanfarin tímabil og ég er farinn að hallast að því að Wenger hafi gert ákveðin mistök með því að hleypa karlinum ekki aftur í markið í vetur þegar hann var búinn að jafna sig á meiðslunum. Hann hefur miklu stærri og meiri "viðveru" í markinu en Almunina og ég held að hann stjórni vörninni betur og njóti meiri virðingar varnarmanna en Almunia. En auðvitað má Jens kannski kenna sjálfum sér um líka, því hann var varla búinn að jafna sig á meiðslunum þegar hann fór að hrauna yfir Almunia greyjið og sýndi allt annað en liðshollustu og stuðning. 

Ég er enn í vafa um að það hafi verið rétt ráðstöfun að gera Gallas að fyrirliða, alveg eins og það voru mistök að gera Henry að fyrirliða á sínum tíma. Mér hefur alltaf fundist Gallas vera vælukjói per se og ekki hafa þessa leiðtogahæfileika sem til þarf til að leiða ungt lið inn á völlinn. Hann var í fýlu í fyrra og vildi jafnvel fara og ég held að hluti af dílnum við hann hafi verið sá að gera hann að fyrirliða til að halda honum. Frábær leikmaður, en ekki stór maður og mikill leiðtogi. Ég hefði viljað sjá Toure verða fyrirliða og Gilberto halda varafyrirliðastöðunni. Nú verður fróðlegt að sjá hvort enn verður breytt um fyrirliða og hvort að Fabregas verði fyrir valinu. Ég er þó meira hrifinn af því að hafa varnarmenn fyrirliða en menn sem eru úti um allan völl. Ég vil bara svona Adams-týpu sem fyrirliða, ég held að Kolo Toure sé rétti maðurinn.

 Það var vörnin sem brast í vetur. Þeir unnu að vísu betur í því að fá ekki á sig mörk eftir hornspyrnur og aukaspyrnur eins og tímabilið áður, en þeir fengu fullt af mörkum á sig eftir háa bolta upp miðjuna þar sem miðverðirnir eiga að hreinsa. Þeir misstu menn allt of oft framhjá sér í slíkum tilvikum og þa var óvanalegt að sjá. Toure var nú reyndar eins og hænsni þarna í vörninni eftir Afríkukeppnina og þeir náðu mjög illa saman hann og Gallas eftir hana. Besta frammistaða varnarinnar var gegn AC Milan bæði heima og úti, þegar Senderos starfaði þar eins og herforingi og gjörsamlega át sóknarmenn Milan. En því miður slökknaði sól hans ansi hratt í Liverpool maraþonleikjunum. Það vantar stöðugan miðvörð í liðið og það er nauðsynlegt að hafa þrjá heimsklassa miðverði í liðinu. Ég man bara í gamla daga þegar Adams, Bould og hinn snoppufríði Keown deildu þessu á milli sín.

Mín niðurstaða er sú að þetta hafi að mörgu leyti verið ásættanleg frammistaða og vissulega örlítið framar vonum. Næsta tímabil hefði verið tímabilið til að klára einhverja titla með þennan mannskap en þegar farið er að kvarnast úr leikmannahópnum er spurning hvað gerist og hvort að liðið fari enn og aftur á byrjunarreit hvað varðar uppbyggingu. Eða hvort að Wenger brjóti odd af oflæti sínu og ráði til starfa 2-3 reynslubolta til að bæta við hópinn.

Sjáum hvað setur.

 


mbl.is Hleb á förum frá Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi virðist vera við 3+2 regluna

Viðbrögðin við bloggi mínu hér í gær hafa verði mjög mikil og ánægjuleg. Ég hef heyrt hljóðið í mörgum körfuboltaáhugamanninum sem hafa í raun jafn margar skoðanir á þessum málum eins og þeir eru margir.

En fylgi við 3+2 reglu virðist vera fyrir hendi. Ég treysti mér ekki til að dæma um hversu mikið það er innan hreyfingarinnar, en alla vega virðast menn vera farnir að skoða málin talsvert út frá þeirri hugmynd þ.e. að það verði alltaf þrír íslenskir ríkisborgarar að vera inni á vellinum í einu. Viðmælendur mínir í það minnsta hafa haft orð á því utan Ingólfur hjá KFÍ, sem útskýrir stöðu þeirra mjög vel í athugasemdum við bloggið hér á undan. Hvet menn til að lesa það.

Næsta mál á dagskrá er síðan það hvort að leyfa eigi tvo kana aftur eins og gert var hér um árið, eða hvort það verði óbreytt, þ.e. að leyfilegt sé að hafa aðeins einn kana.

Tveggja kana hugmyndin í þessu 3+2 umhverfi er athyglisverð. Sumir segja að þegar tveir kanar voru leyfðir hér um árið, hafi komið betra leikmannapar í tveimur könum, heldur en í kani+Bosman eins og það var áður. En með því að leyfa tvo kana, er ljóst að það yrðu leikmenn sem spiluðu hvor um sig nær fullar 40 mínútur og menn hafa bent á það þeir gætu orðið full-dómínerandi, að þeir tækju of mikið til sín og það framlag sem Bosmenn hafa lagt inn í boltann hér hingað til, yrði gjaldfellt og Bosmenn sem hafa verið hér kannski í nokkur tímabil og leikið við góðan orðstýr, yrðu atvinnulausir í efstu deild alla vega. En betri leikmenn gera deildina vissulega betri og áhugaverðari er það ekki og þessi möguleiki býður upp á það án þess að liðin séum með óheyrilegan fjölda erlendra leikmanna.

Ef menn breyta eins kana reglunni ekki, segja sumir að það opnist á þá möguleika að liðin verði með þrjá útlendinga, þ.e. einn kana og síðan tvo bosmenn og liðin gætu rúllað á þessum þremur leikmönnum í 3+2 kerfi. Þetta kæmi liðum úti á landi vel, þau gætu með þessu móti elft leikmannahóp sinn eftir sem áður, sem er kannski þunnskipaður fyrir. En það væru aðeins 80 mínútur til skiptanna fyrir útlendinga og 120 mínútur fyrir íslenska leikmenn.

Hugsanlega er þarna komin einhver málamiðlun, ég veit ekki?


Útlendingamálin í körfuboltanum - uppfært vegna rangfærslu

Málefni erlendra leikmanna eru nú heitasta málið innan körfuknattleikshreyfingarinnar. Mörgum finnst fjöldi þeirra vera orðinn yfirþyrmandi á meðan öðrum finnst alveg sjálfsagt að vera með eins marga útlendinga og liðin treysta sér til.

Vandamálið er tvennskonar; annars vegar fá lið sér fleiri útlendinga einfaldlega til að eiga í leikmannahóp og hins vegar fer einskonar snjóbolti af stað, að þegar eitt lið fær sér annan eða þriðja útlendinginn, geta önnur lið ekki verið eftirbátar, því samkeppnin er mikil um titla.

En á þessu eru all margar hliðar.

Í fyrsta lagi sú að við búum hér inni á Evrópska efnahagssvæðinu og verandi í því, lifum við við frjálst flæði vinnuafls á milli þeirra landa. Við getum því ekki takmarkað fjölda erlendra ríkisborgara sem koma frá þessu svæði. Takmörkunin í dag er við einn erlendan leikmann utan EES svæðisins og þá erum við að tala um Kana í flestum tilfellum.

Í öðru lagi þá hefur íbúaþróunin og efnahagsþróunin hér á landi orðið sú að íslenskum leikmönnum finnst ekki lengur spennandi að fara út á land og spila eins og þeir gerðu í kippum hér áður fyrr til að ná sér í reynslu. Fólki fækkar á landsbyggðinni og launaskriðið nær ekki langt út fyrir suðvesturhornið og því fara leikmenn ekki út á land fyrir vinnu og húsnæði lengur. Lið úti á landi standa því frammi fyrir því að sækja sér liðsstyrk út fyrir landsteinana, því það er auðveldara en að lokka íslenska leikmenn út á land. Hér er ég aðeins að tala um viðhorf leikmannanna, ekki alla pappírsvinnuna sem þarf að vinna til að ná þeim hingað til lands.

En ein er sú leið sem menn hafa verið að ræða um og virðist vera að hljóta meira fylgis en áður. Það er svokölluð 3+2 regla sem við lýði er í Noregi, en hún kveður á um að alltaf verði þrír norskir ríkisborgarar að vera inni á vellinum í einu. Með þessu móti er norska sambandið að búa til sérreglur í sínu mótafyrirkomulagi í þágu innlendra leikmanna.

Leiðrétting. Reglan í Noregi er í raun 2+3, þ.e. að tveir leikmenn inni á vellinum verða að vera norskir ríkisborgarar. Í Rússlandi er þetta hins vegar 3+2. En prinsippið er það sama eftir sem áður og við getum haft þetta 2+3 eða 3+2 ef menn ákveða á annað borð að fara þessa leið.

Allt hefur sína kosti og galla. Ég er sjálfur persónulega ekki kominn að endanlegri niðurstöðu í þessu útlendingamáli. En ég held þó að eftirfarandi kostir séu við 3+2 leiðina:

* Lið koma til með að fá sér tvo mjög góða erlenda leikmenn í staðinn fyrir fleiri og lélegri.

* Liðin þurfa að byggja á eigin leikmönnum að stærri hluta sem hlýtur að hvetja þau til að gera vel og betur í barna- og unglingastarfinu.

* Innlendir leikmenn verða verðmætari sem ætti að gera íslenskum körfubolta gott. Liðin gætu þá hugsanlega farið að borga eigin "roll-players" fyrir að spila, í stað þess að flytja síka leikmenn inn og greiða þeim meira.

* Hugsanlegt er að góðir leikmenn sem finnast í neðri deildunum vilji koma upp í úrvalsdeildina og spila þar, því þar leynast vissulega áhugaverðir leikmenn.

En ókosturinn við þessa reglu er sá að lið sem byggja leikmannahópa sína á erlendum leikmönnum, 4-5 talsins eins og t.d. Tindastóll og KFÍ, gætu lent í vandræðum með að manna sitt lið hæfum leikmönnum sem spilað gætu í efstu deild á allra næstu árum. En með því að huga betur að barna- og unglinagstarfinu ætti að byggjast upp stærri og betri leikmannahópur til framtíðar litið. Við erum þá kannski að horfa upp á tímabundið ástand á meðan þessi uppbygging færi að skila sér. Spurningin er sú hvort að menn sætti sig við það?

 


Jón Arnór einn besti íslenski íþróttamaðurinn í dag

%7BBC193DF1-5D0D-44BE-91E9-F36B4BFBFBFC%7Dlarge_v

Mynd af heimasvæði Lottomatica 

Jón Arnór Stefánsson sem leikur með Lottomatica Roma í Ítölsku A-deildinni í körfuknattleik er á hreint magnaðri vegferð. Strákurinn leikur lykilhlutverk í liðinu sínu í þessari deild sem er með þeim allra bestu í Evrópu og situr sem stendur í öðru sæti deildarinnar.

Í Meistarardeildinni hefur hann staðið sig vel, skorað 14.2 stig að meðaltali í leik, spilað rétt tæplega 30 mínútur að meðaltali sem er alveg magnaður árangur.

Ég sé eins og er ekki aðra íþróttamenn íslenska sem eru að gera annað eins á heimsvettvangi, ja nema kannski stóri bróðir hans!!??


Hvað gerir Boston Celtics í nýliðavalinu í kvöld?

Spennan vex með hverjum klukkutímanum fram að NBA-leikmannavalinu sem verður í kvöld, eða nótt að íslenskum tíma. Allir helstu spekingarnir eru vissir um að Greg Oden og Kevin Durant verði þeir tveir fyrstu sem valdir verða, en eftir það er allt opið.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hið forna stórveldi Boston Celtics í kringum leikmannavalið. Margt grænt Boston hjartað sló ört þegar happdrættið fór fram í maí, sem skar úr um röð liðanna í leikmannadrættinum. Boston með slakasta árangurinn í Atlantshafsdeildinni átti ágæta möguleika á að lenda nr eitt eða tvö, en heilladísirnar voru ekki á bandi okkar grænleitu aðdáenda því liðið lenti í 5. sæti.

Strax og þetta varð ljós fóru allskonar sögur í gagn. Reyndar hafa sögurnar af Danny Ainge leitandi að skiptum með valréttinn farið eins og eldur í sinu um NBA-heiminn og nokkuð víst að karlinn hefur reynt ýmsar leiðir til að vinna með það.

Boston átti að vera eitt þeirra liða sem kom að hugmyndum um tilfærslu Kevins Garnetts frá Minnesota, en hann afþakkaði það tækifæri pent og samkvæmd fjölmiðlum og spekingum vestan hafs er hann trúlega á leið í Lakers.

Fleiri tilraunir á Ainge að hafa gert til að skipta á valréttinum plús 1-3 leikmönnum í viðbót fyrir reyndan leikmann, alvöru leikmann, en hann hefur ekki haft erindi sem erfiði. Hugsanlega skiptir þar mestu máli að hann sé ekki tilbúinn að gefa frá sér einn efnilegasta leikmann sem klæðst hefur Boston treyjunni í árafjöld, Al Jefferson. Hann er 22 ára og lauk sínu öðru ári með Celtics nú á vordögum (eða var það fyrr, þeir voru svo langt því að komast í úrslitakeppnina!) og er ein helsta vonarstjarna liðsins. Heyrst hafa sögur um að viðskipti með valréttinn hefðu verið möguleg við ýmis lið ef Jefferson hefði fylgt með í pakkanum, en blessunarlega virðist Ainge hafa skellt símtólinu á þá aðila sem það vildu.

Hugmyndir að skiptum á Paul Pierce til annars liðs hafa líka verið viðraðar af spekingum vestanhafs, en menn virðast ekki tilbúnir að taka hann til sín, finnst hann einfaldlega ekki nógu góður og Boston eru ekki líklegir til að hagnast á viðskiptum með hann. Mörgum finnst hann ofmeta sjálfan sig og í viðtali um daginn sagðist hann vonast til þess að Celtics næði í „co-star“ fyrir sig, en talaði ekki um „all-star“ leikmann, heldur „co-star“. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum fjölmiðlamanninum í Bandaríkjunum og fannst þeim þetta viðhorf lýsa ákveðnum hroka og ofmati á eigin ágæti. Pierce þykir bara hreinlega ekki vænn kostur í leikmannaskiptum.

Jermaine O´Neal hjá Indiana hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur leikmaður fyrir Boston, ég hugsa að hann gæti vel komið að notum fyrir liðið, en ekki í skiptum fyrir Jefferson. Auk þess  sem talið var að orðaskipti milli hans og Ainge í vetur hafi ekki verið til þess fallin að liðka til fyrir slíkum samningum. Ainge sagði honum að hætta að væla þó komið væri við hann og O´Neal svaraði því til að Ainge ætti að einbeita sér að því að gera það sem hann ætti að gera, ekki veitti nú af. Líklega hefur Larry Bird glott í laumi yfir þessum orðaskiptum.

Ofan á allar vangaveltur um skipti Boston á fimmta valréttinum bætist það að félagið býr einfaldlega ekki yfir sama aðdráttarafli og það gerði hér á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda, tímabil sem oft er kennt við Larry Bird, þann mikla snilling. Þetta fornfræga félag varð síðast meistari 1986 og komst síðast í úrslitaseríu ári síðar. Dæmalaus óheppni elti liðið um árabil, t.d. þegar Len Bias sem liðið valdi í nýliðavalinu 86, lést aðeins tveimur dögum eftir að hann var valinn, 23 ára gamall, Reggie Lewis ein helsta stjarna liðsins eftir að Bird hætti, lést úr hjartaáfalli 1993 aðeins 28 ára gamall og fleira mætti tína til. Árin eftir þetta voru ýmsar skrýtnar ákvarðanir teknar á skrifstofu félagsins, bæði varðandi leikmannamál og þjálfararáðningar og má segja að félagið hafi vart borið barr sitt síðan af neinu viti.

Þeir félagar Paul Pierce og Antoine Walker kepptust síðan um það á tímabili hvor þeirra skaut meira og var það mál manna að Boston liðið hefði þurft tvo bolta til að spila með þegar „stjörnur“ þeirra skinu sem hæst.

En eins og staðan er í dag, eru mestar líkur á því að Boston Celtics nýti valrétt sinn í nótt, að þeir velji nr. 5 eins og áætlað var og þar eru ýmsir möguleikar í stöðunni. Ég panta hér með Kínverjann Yi Jianlian sem telur ein sjö fet upp í loftið en hefur skot á við mýksta bakvörð og býr yfir góðum hraða miðað við stærð.

En eins og áður koma mínar hugmyndir vart til álita frekar en fyrri daginn, ekki frekar en þegar ég vildi á sínum tíma ráða Bird sem þjálfara Celtics.  Öll vötn runnu í þá átt og helstu spekingar, þar á meðal ég, bentu á þennan augljósa möguleika, en þess í stað ákváðu forráðamenn félagsins að „leita ráða“ hjá Bird sem móðgaðist að sjálfsögðu og benti þeim á Rick Pitino til að hefna sín, en það má í það minnsta ímynda sér miðað við árangurinn sem sá ágæti þjálfari náði.

En við Boston menn snúum ekki baki við okkar ástsæla liði, við stöndum með því í gegn um súrt og sætt.


Stórveldisfréttir

header_celtics_words480100

Saga Boston Celtics frá því að Larry Bird hætti störfum fyrir klúbbinn, hefur verið æði sorgleg fyrir okkur aðdáendur þessa forna stórveldis. Mér bárust frá illa innrættum vini (sem heldur reyndar bæði með KR og Leeds), tveir bálkar um hrakfarir liðsins í 20 ár eða svo. Þetta er meira að segja svo mikil lesning að hún er í tveimur hlutum:

Fyrsti hluti

Annar hluti

Þarna kennir margra grasa, ótrúleg klúður í draftinu ár eftir ár og í raun ótrúlegar ráðstafanir í þjálfaramálum.

En mesta klúðrið í þessu er það að menn skuli ekki hafa tekið Bird inn í staffið hjá sér um leið og hann lagði skóna á hilluna. Það verður seint fyrirgefið.

En ég ætla samt að fara til Boston í tilefni af fertugsafmæli mínu eftir tvö ár.


Ævintýrin gerast enn!

Í aðeins þriðja skiptið í sögu NBA gerðist það í nótt að liðið í 8. sæti í úrslitakeppninni sló liðið í efsta sætinu út. Dallas, sem fyrir úrslitakeppnina var talið eiga sigurinn vísan, enda með besta árangurinn í allri NBA deildilnni, lutu í parket fyrir sínum gamla lærimeistara Don Nelson sem þjálfar nú Golden State. Sannarlega ein óvæntustu úrslitin í sögu úrslitakeppninnar.

Ég man eftir því þegar Denver Nuggets lagði Seattle Supersonics í sömu kringumstæðum að mig minnir 1994. Síðasti leikur þeirra var hreint frábær skemmtun og einn af eftirminnilegri körfuboltaleikjum sem ég hef séð. Bendi á myndbrot og upprifjun á þessum magnaða leik hér. Í þessu liði Denver voru þeir í aðalhlutverki Dikembe Mutombo, LaPhonso Ellis og Brian Williams sem var hreint frábær í þessum leik. Helstu hetjur Seattle á þessum tíma voru Gary Payton, Shawn Kemp (ekkert skyldur Stebba Kemp) og Kendal Gill. Skora á ykkur að skoða þetta myndbrot.

Spái því að mikill fögnuður hafi gripið um sig á götum Kaupmannahafnar í nótt, þar sem vinur minn Björgvin Reynisson hlýtur að hafa gengið af göflunum. Hann fyrirgefur seint stjórnendum Golden State sem á sínum tíma köstuðu frá sér hverjum snillingnum á fætur öðrum.


mbl.is NBA: Golden State Warriors slógu Dallas út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Körfuboltablogg

Fyrst að formaður KKÍ er nú orðinn að bloggvini hjá mér, sómapilturinn Hannes Sigurbjörn Jónsson, er kominn tími á körfuboltablogg.

Fyrst að úrslitakeppnunum.

Óvænt úrslit í gær hjá stelpunum þar sem ÍS náði að sigra Hauka, aðeins annar tapleikur Haukanna í vetur. Hef þó trú á að Haukarnir klári þetta á sínum heimavelli, en þó skulum við ekki afskrifa ÍS-liðið sem hefur mikla breidd. Hinum megin held ég að Keflavík klári dæmið og við fáum tvö bestu kvennalið landsins í úrslitaslagnum.

Ég spái því að Njarðvíkingar klári Grindavík 3-1, þeir eru einfaldlega með besta liðið að mínu mati, ótrúlega gott jafnvægi í sóknarleiknum sama á hvaða stöðu er litið og oft tveir góðir um hverja stöðu. Grindvíkingar gengu í endurnýjun lífdaga eftir að Clemmons fór og þá virðist liðsheildin hafa smollið. Vandamál þeirra er undir körfunni hvort sem um er að ræða í sókn eða vörn og á móti Njarðvík er það of stór veikleiki til að brúa að mínu mati.

KR-Snæfells-serían er hins vegar mun áhugaverðari. Þar eigast við tvö góð varnarlið og kemur skorið ekki til með að verða mjög hátt í þessum leikjum. Það er mín tilfinning að þetta fari í oddaleik í Vesturbænum en sú hugsun læðist þó að mér að Snæfell eigi eftir að stela sigri í Vesturbænum, hvort sem það verður í oddaleiknum eða þeim þriðja. Síðan er það efni í annan pistil hvort KR eða Snæfell eigi meira í Njarðvík, hann kannski kemur síðar.

En að öðrum málum innan körfuboltans.

Á Íslandi eigum við fjölda frambærilegra körfuknattleiksþjálfara. Vandamálið er hins vegar það að fáir af þeim gefa sig í þjálfunina sem career. Það er stórt vandamál að mínu mati. Ég er því talsmaður þess að félög ráði til sín erlenda þjálfara, sem reynslu hafa af þjálfun fullorðinna og ekki síður barna- og unglinga. Við höfum gott af því að fá ferskt blóð inn í okkar faglega starf og sjá hvað góðir þjálfarar í Evrópu eru að gera. En til þess að hægt sé að búa til fullt starf fyrir þá verða þeir að þjálfa meistaraflokk og alla vega tvo yngri flokka og halda síðan utan um starf annarra þjálfara og aðstoða þá í sínum störfum.

Í gegn um mín persónulegu sambönd hef ég komist í samband við þrjá þjálfara sem hafa áhuga á því að skoða möguleikana á því að koma til Íslands og þjálfa. Þetta eru allt saman reyndir þjálfarar, einn makedónskur sem hefur reynslu af unglinga- og meistaraflokksþjálfun auk alþjóðlegrar reynslu í landsliðsprógrammi þeirra Makedóna. Annar er frá Finnlandi, hann er mjög reyndur einnig af þjálfun á öllum stigum og sá þriðji er bandarískur sem hefur reynslu af þjálfun í Evrópu. Ég ætla að reyna að koma þessum köllum hér að fyrir næsta tímabil. Ég fer ekki að koma mönnum á framfæri nema vera klár á því að þeir hafi eitthvað fram að færa sem nýst getur okkur hér á Íslandi.

En það er tvennt sem við þurfum hér í körfuboltanum á Íslandi, að koma karlaliðinu okkar upp í A-deild landsliða og fá meiri umfjöllun í sjónvarpi. Hvort tveggja held ég að sé raunhæft, en því mður þarf meiri pening í það og landsliðsþjálfara í fullt starf til að svo megi verða. Ég vona innilega að það takist að finna öflugan styrktaraðila sem greitt gæti laun landsliðsþjálfara í alla vega 3-4 ár, því hann gæti gert alveg frábæra hluti, ekki bara fyrir landsliðið heldur einnig í öðrum verkefnum fyrir körfuknattleikssambandið. Við þurfum á þessu að halda. Hann þarf að geta farið á milli félaganna, verið í góðu sambandi við þau, heimsótt þau í 1-2 daga í senn og fylgst með æfingum og gefið góð ráð. Það er draumastaðan.


BOSTON VANN!!

Í dag er ég afskaplega glaður maður. Ekki aðeins náði Arsenal að sigra í bikarleiknum í gærkvöldi, alveg ótrúlegum leik satt best að segja, heldur biðu þær fréttir á vefmiðlum heimsins í morgun, að Boston hafði unnið leik. Eftir 18 tapleiki í röð, sem er met á hjá þessu fornfræga félagi, kom loksins sigurleikur gegn Millwaukee 117-97 - stórsigur. Red Auerbach hefur trúlega aðeins velt sér í gröfinni yfir þessum tíðindum blessaður karlinn.

Nú hugsa ég til Einsa Bolla, Boston þjáningarbróður og fleiri góðra manna sem geta tekið gleði sína á nýjan leik.

Ég gæti ritað langa pistil um þennan létti en hef því miður ekki tíma.


« Fyrri síða

Um bloggið

Pælingar um ferða- og dægurmál

Höfundur

Karl Jónsson
Karl Jónsson
Áhugamaður um ferðamál og einn af eigendum Lamb Inn á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Veturinn er fallegur á Íslandi
  • ...img_9430
  • 20080519083320623
  • Lokahof04_SOA1
  • Lokahof04_SOA

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband